Kristín hefur sérhæft sig í parameðferð um árabil og býður einnig upp á skilnaðarmeðferð. Hún er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Hún ræðir um skilnaði, ástæður skilnaða og af hverju konur sækja frekar um skilnað en karlmenn séu fljótari aftur í annað samband í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
„Konur taka frekar ákvörðun um skilnað heldur en karlar. Það getur náttúrulega verið af mismunandi ástæðum. Þær velja sér oftar að vera einar á meðan karlmenn, ef að þeir upplifa skilnað, þá er algengara að þeir velji sér að fara í samband aftur og vilja vera í pörum,“ segir Kristín.
Kristín tekur fram að þetta sé út frá miðgildum og meðaltölum og eigi að sjálfsögðu ekki við alla. „Það eru alveg til karlmenn sem velja að vera einir eftir skilnað og það eru alveg til konur sem fara beint í annað samband. En svona meðaltölin sýna að konur stíga oftar út úr samböndum og það er eitthvað sem ég tek mjög mikið eftir í minni vinnu. Í langflestum tilfellum þar sem skilnaður á sér stað í stólnum hjá mér þá er konan sem er að taka ákvörðun um það. Og kannski einmitt, sem rímar við þessar tölur er að ef að karlmaður tekur ákvörðun um skilnað þá er hann í mörgum tilfellum búinn að sjá möguleikann á öðru parsambandi, hvort sem hann er búinn að taka fyrsta skrefið varðandi það eða ekki.“
Reglulega koma færslur í vinsæla Facebook-hópinn MæðraTips þar sem konur leita ráða vegna kærasta eða eiginmanna sinna sem sinna varla heimili né börnum, séu í raun enn annað barnið og er gjarnan talað um þessar konur sem einstæðar í sambandi.
Er þetta eitthvað sem þú ert að sjá hjá pörunum sem leita til þín?
„Það er ástæða fyrir því að VR var með risa auglýsingaherferð um hvað þriðja vaktin er, því þetta er að bitna á konum á vinnumarkaði og tölurnar sýna okkur að þriðja vaktin er að hafa áhrif á heimilin í landinu. En það fer líka svolítið eftir því hvernig við skilgreinum þriðju vaktina. Þetta er mjög viðkvæm umræða og umræða sem karlmenn taka oft sem: „Þú ert bara aumingi, þú ert latur og ég geri allt ein,““ segir Kristín.
„Sem er alls ekki staðan. Heldur er staðan sú að áður fyrr voru karlmenn á fyrstu vaktinni, sem er launuð vinna og konur voru á annarri og þriðju vaktinni, sem er allt það sem er gert heima. Að svæfa, að versla, að elda og allt þetta. Svo þriðja vaktin, sem við köllum að vera framkvæmdastjóri heimilisins, að sjá til þess að það sé farið út í búð, muna hvað það er sem þarf að kaupa eða passa upp á að barnið fari í barnaafmæli klukkan þetta, þó að konan keyri ekki barnið sjálf þá er hún að passa upp á að það sé gert.
Svo breyttust náttúrulega tímarnir og nú eru konan og karlinn oft mjög jöfn á fyrstu vaktinni og þau eru mjög oft mjög jöfn á annarri vaktinni, það er eitthvað sem ég tek alveg eftir. En það er þessi hugræna byrði, hvernig við erum að hugsa hlutina sem gerir það að verkum að konur upplifa oft eins og þær séu bara einar að hugsa um þessa hluti. En hugsanir eru líka eitthvað sem við sjáum ekki og algengt vandamál, bara yfir höfuð, hjá pörum er þessi hugsanalestur, að ætlast til þess að geta vitað hvað makinn þinn er að hugsa eða á hvaða tíma eða að hann geti vitað hvað þú ert að hugsa á þessum tíma. Þannig vandamálið þarna er oft samskiptaleysi, að vera ekki í takti með það sem þarf að gera og skipuleggja.“
Kristín segir að svona vandamál séu ekki flókin að leysa ef vilji er fyrir hendi.
„Mér finnst þetta oft vera mál sem er auðvelt að leysa því það er hægt að leysa því með praktískum hætti. Mæli með sunnudagsfundum þar sem er farið yfir vikuna og skipta vel á milli sín, fara yfir líðan og það sem hefur verið að gerast í vikunni og er að fara að gerast í næstu vikur. Svona setja hugsanir sínar á borðið og samstilla. Það er eitthvað sem gengur oft vel, ef vilji er fyrir hendi,“ segir hún.
Kristín ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus, spjallþætti DV. Smelltu hér til að horfa á þáttinn í heild sinni eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Hægt er að kynna sér Kristínu nánar á kristintomas.is