Ásdís Ásgeirsdóttir, blaðamaður og ljósmyndari á Morgunblaðinu, hefur sett einbýlishús sitt í Garðabæ á sölu.
Húsið sem er við Löngumýri er 306 fm byggt árið 1989. Húsið er á þremur hæðum og er séríbúð í kjallara. Bílskúrinn er byggður árið 2002, 32,8 fm með 32,8 fermetra geymslu undir skúr. Húsið er frábærlega staðsett innst í botnlanga í gróinni og fallegri götu.
„Fallega húsið mitt komið á sölu! Opið hús á sunnudaginn. Deilið eins og vindurinn,“ segir Ásdís á Facebook.
Húsið skiptist í forstofu, hol, gestasalerni, eldhús, samliggjandi stofur og herbergi á fyrstu hæð.
Í rishæð er sjónvarpshol, hjónaherbergi, tvö barnaherbergi og baðherbergi.
Séríbúð er í kjallara með sérinngangi, 101,8 fm, og skiptist hún í forstofu, eldhús, samliggjandi stofur, tvö svefnherbergi og baðherbergi.
Ásdís skrifar í Sunnudagsblað Morgunblaðins, alla jafna forsíðuviðtal blaðsins auk þess sem hún er lærður ljósmyndari og myndar viðtalsefni sín. Árið 2022 hlaut hún Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélagsins fyrir viðtal ársins.
Viðtalið tók hún við Óla Björn Pétursson, þar sem hann greinir frá grófu kynferðisofbeldi er hann varð fyrir á unglingsaldri. Í rökstuðningi er frásögnin talin sláandi en afar upplýsandi enda sæki hún á lesandann sem fái raunsanna lýsingu á því hvernig unglingur er ginntur af barnaníðingi. Var Óla haldið með hótunum og ofbeldi en tókst honum síðar að losa sig og endurheimta líf sitt.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.