Donald Trump var ósáttur við ræðuna og fór hörðum orðum um biskupinn á Truth Social. Hann krafðist þess að biskupinn myndi biðjast afsökunnar.
Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur, og Bjarni Karlsson, prestur og siðfræðingur, ræða um áhrifaríku orð Budde í pistli á Vísi.
„Þarna stóð hún þessi miðaldra kona svo hógvær í yfirbragði en talaði með þeim hætti að undrun, ráðaleysi og gremja skein af ásjónu Trump og hans glæsta föruneytis,“ skrifa þau.
„Hvað heyrðu þau? Hvað heyrðum við öll? Við heyrðum og fundum óminn í okkar eigin hjarta. Heimsbyggðin varð vitni að því sem á sér stað þegar ástin á valdinu mætir valdi ástarinnar.“
Horfðu á ræðuna hér að neðan.
„Guðsþjónustan í þjóðardómkirkjunni í Washington var eins Biblíuleg og verða má. Yfirráðavaldið var afhjúpað og máttleysi þess auglýst svo heimsbyggðin gæti séð og munað,“ segja Jóna og Bjarni.
„Líklega hefur enginn fyrr ávarpað Trump opinberlega af slíkri ást sem Mariann biskup. Hún vitnaði til þess hvernig hann hefði sjálfur átt reynslu af guðlegri vernd og bað hann að unna öllu fólki miskunnar líkt og hann hafi miskunn hlotið.
Án allra stóryrða ljáði hún hinum óttaslegnu í landinu rödd. Djúp samlíðun fylgdi orðum hennar þegar hún taldi upp ýmsa hópa kynseginsamfélagsins sem óttast nú um framtíð sína.
Eins nefndi hún allt erfiðisfólkið sem knýr hjól atvinnulífsins sem góðir borgarar en má nú óttast brottrekstur þar sem það hefur ekki fengið ríkisborgararétt. Þá talaði hún sem anglikanskur biskup af virðingu um aðrar trúarhefðir og notaði þátttöku innflytjenda í kirkjum, moskum, synagógum, musterum og öðrum bænahúsum sem dæmi um ábyrga þátttöku þjóðfélagi.
Loks var ákall hennar um miskunn gagnvart útlendingum í landi sem byggt væri af innflytjendum framsett í dúr við þekkta áskorun úr Gamla Testamenntinu: „Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.““
Jóna og Bjarni segja þjónustu biskupsins hafa verið borna fram af heiðarleika og auðmýkt.
„Þessi ræða mun hafa áhrif á trú fólks um allan heim og vekja von með almenningi sem skynjar í orðum biskupsins að í raun og sann erum við öll eitt hverrar þjóðar sem við erum, óháð kynferði, trúarbrögðum, stétt og stöðu. Við getum valið veg friðar og einingar ef við viljum. Menning fyrirlitningarinnar er misskilningur byggður á þröngu heimildavali. Valdið sem safnar sjálfu sér er sýndarvald.“
Lestu pistilinn í heild sinni hér.