Harry Bretaprins hefur náð sáttum við eiganda breska götublaðsins The Sun. Fyrir vikið fær hann skilyrðislausa afsökunarbeiðni frá fjölmiðlinum ásamt veglegri bótagreiðslu.
Þar með er áralöngum málaferlum lokið. Útgefandi The Sun, News Group Newspapers (NGN), biðst eins afsökunar á að hafa brotið gegn friðhelgi látinnar móður prinsins, Díönu prinsessu.
NGN segir í yfirlýsingu að miðlar útgefandans hafi nú sett sér verklagsreglur og ferla til að tryggja að sambærilegt mál komi ekki upp aftur.
BBC greinir frá því að Harry fái um 1,8 milljarð króna í bætur.
Harry sakaði The Sun um að hafa gróflega og ítrekað brotið gegn friðhelgi einkalífs hans á árunum 1996-2011.
Lögmaður Bretaprins, David Sherborne, kallar dómsáttina stórsigur og það sé fagnaðarefni að útgefandinn þurfi loks að taka ábyrgð á framgöngu sinni gegn Harry. Hann hvetur jafnframt bæði breska þingið sem og lögreglu að taka málið til skoðunar.
NGN viðurkennir í afsökunarbeiðni sinni margt sem útgefandinn sem og The Sun höfðu áður þvertekið fyrir, svo sem að blaðamenn og einkaspæjarar á vegum útgefandans hefðu njósnað um hann, brotist inn á síma hans og misnotað persónulegar upplýsingar.
Blaðamaður BBC, Sean Coughlan, sagðist furðu lostinn að prinsinn hefði skrifað undir sáttina þar sem hann hafði áður sagt að tilgangurinn með málaferlunum væri að draga fram í dagsljósið hvaða brögðum götublaðið hafði beitt við fréttaöflun sína.