Eitt af því sem er nánast öruggt í íslensku samfélagi er að árið byrjar á því að Íslendingar ræða um hvað þeim fannst um Áramótaskaup RÚV. Miðað við ummæli á samfélagsmiðlum voru skoðanir skiptar. Sum voru afar hrifin en öðrum fannst ekki mikið til Skaupsins koma. DV gerði skoðanakönnun meðal lesenda og niðurstöður hennar staðfesta enn frekar að skoðanir á Skaupinu eru skiptar sem ætti svo sem ekki að koma á óvart, enda erfitt fyrir heila þjóð að vera fullkomlega sammála um skemmtigildi sjónvarpsþáttar.
Skiptar skoðanir á Skaupinu – „Ég var ekki alveg sátt“ – „Man ekki eftir að hafa hlegið jafn mikið“
Flestir lesendur, 28,9 prósent, sögðu Skaupið hafa verið frekar slappt. Örfá atriði hafi verið fyndin en það hafi verið slappt þegar á heildina er litið. Nánast jafnmargir, 28,6 prósent, sögðu hins vegar að Skaupið hafi verið mjög gott, ekki það besta sem viðkomandi hefðu séð en samt mjög gott.
Þetta sýnir ágætlega hvað skoðanir á Áramótaskaupinu 2024 eru skiptar.
Alls sögðu 19 prósent að Skaupið hefði verið allt í lagi, sum atriði verið góð en önnur ekki. 17 prósent vildu hins vegar meina að Skaupið hefði verið ömurlegt, það versta sem viðkomandi hefðu séð. Fæst voru hins vegar afar hrifin, 6,1 prósent sögðu að Skaupið hefði verið það besta sem þau hefðu séð.