Um fimmtíu Hafnfirðingar og nærsveitungar létu brunagadd ekki aftra sér frá því að skella sér í sjósund á fyrsta degi ársins. Trefjar, rótgróið fyrirtæki í bænum, útvegaði saunu sem var hífð á bakkann við Langeyrarmalir og bauð sjósundsfólkinu að hlýja sér eftir sundsprettinn.
Freyja Auðunsdóttir hjá Trefjum sagði uppátækið hafa vakið mikla lukku. „Þessir ofurhugar sem hættu sér í sjóinn í frosthörkunum töluðu um að þau vildu gjarnan að þessi aðstaða væri komin til að vera. Sjósundshópurinn Glaðari þú fjölmennti og það er óhætt að segja að hann beri nafn með rentu því gleðin var allsráðandi.“
Hafnarfjarðarbær og Trefjar stóðu að þessum viðburði í sameiningu. „Svona á að heilsa nýju ári,“ segir Freyja. „Hugmyndin var að saunan stæði þarna á gamlárs- og nýársdag en þetta vatt svolítið upp á sig því hópur sem hefur gefið saununni nafnið Herjólfsgufan hefur einnig boðið upp á svokallaðar gusur í kringum áramótin. Þá eru þátttakendur leiddir í gegnum saunustundina með tónum og ilmkjarnaolíum með vönum saunumeistara. Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum svo ég býst eiginlega ekki við að það séu enn lausir tímar en þau hafa auglýst gusur til 5. jan. á Instagram undir nafninu herjolfsgufan.“