Heilsumarkþjálfinn Erla Guðmundsdóttir, betur þekkt sem HeilsuErla, er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Um er að ræða fyrsta þátt ársins og því tilvalið að ræða um markmið og hvernig skal ná þeim, en algengt er að fólk setji sér áramótaheit sem gjarnan tengjast heilsu og hreyfingu. Hver þekkir það ekki að byrja í ræktinni fyrstu vikurnar í janúar og mæta í stappaðan tækjasalinn bara til að mæta svo ekkert aftur næstu fimmtíu vikur ársins?
Erla gefur í þættinum góð ráð hvernig skal setja sér markmið og standa við þau. Hún ræðir einnig um mismunandi þætti heilsu, „heilsusérfræðinga“ á netinu og ýmislegt annað, eins og hvers vegna konum á besta aldri gengur oft illa að létta sig.
Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Auk þess að vera heilsumarkþjálfi og ráðgjafi er Erla íþróttakennari við Menntaskólann í Hamrahlíð og ungbarnasundkennari, en hún hefur starfað við það síðarnefnda í átján ár. Hún heldur einnig úti vinsæla heilsuhlaðvarpinu Með lífið í lúkunum.
Flestir sem setja sér áramótaheit gefast upp, um fjórðungur í lok fyrstu viku janúar og tæplega helmingur segir skilið við markmiðin í lok janúar. Enn fleiri gefast upp þegar líður á árið. Við spurðum Erlu: Hvaða ráð ert þú með fyrir fólk til að standa við markmiðin?
„Aðallega setja raunhæf markmið. Oft ætlum við, sérstaklega í janúar og stundum september líka, að breyta öllu, bara umturna [lífi okkar]. Ef við höfum ekkert verið að hreyfa okkur ætlum við aldeilis að fara í ræktina núna,“ segir hún.
„Ef við tökum hreyfinguna fyrir, ef fólk hefur ekkert verið að hreyfa sig, þá byrja nógu smátt. Eins og að fara í fimm mínútna göngutúr þrisvar í viku. Sumum finnst það ekki neitt en það fær þig til að fara út.
Það sem gerist er að kannski ferðu meira og þá peppastu ennþá meira því þú gerðir meira en markmiðið þitt. Í staðinn fyrir að ætla að fara fimm sinnum viku í klukkutíma í ræktina og um leið og þú ferð að missa úr þá ferðu að brjóta þig niður, þú verður svekkt því þú náðir ekki markmiðinu þínu og þá eru meiri líkur að þú hættir,“ segir Erla.
„Ég segi þetta svo oft við fólk: Hafðu markmiðið nógu lítið til að byrja með, þannig það virki eiginlega fáránlegt en bara þannig þú vitir það hundrað prósent að þú nærð því. Markmiðið er kannski að fara að hreyfa sig en það þarf ekki að byrja mikið. Kannski er endamarkmiðið að í desember ætlarðu að vera byrjuð að fara fimm sinnum í viku í ræktina.“
Erla nefnir SMART markmið og útskýrir hvað það er.
„Það er oft gott að hafa þetta í huga, að markmiðin séu smart.
Skýr: Mjög skýrt hvað ég er að fara að gera
Mælanleg: Að það sé mælanlegt, að ég viti hvort ég sé búin að ná markmiðinu eða ekki
Aðgerðaráætlun: Að gera aðgerðaráætlun og það eru litlu markmiðin, hvernig ætla ég að ná þessu markmiði
Raunhæf
Tímasett: Þú verður að hafa tímaramma, þú getur ekki sagt ég ætla bara að byrja að hreyfa mig einhvern tíma.“
Erla hvetur fólk til að skrifa markmiðin sín niður. „Það er gott að hafa þessi fimm atriði í huga þegar maður er að setja sér markmið og helst skrifa markmiðin niður, þá er miklu líklegra að þú standir við þau.“
Erla segir að heilsa sé margþætt; líkamleg, andleg og félagsleg.
„Meira að segja alþjóðaheilbrigðisstofnun skilgreinir heilsu sem líkamlega, andlega og félagslega vellíðan, en ekki bara það að vera ekki með sjúkdóma. Þannig þú getur verið með sjúkdóm en samt með góða heilsu. Mér finnst oft gott að taka samlíkinguna ef þú ert með koll sem er með þremur fótum, sem er þá líkamlega, andlega og félagslega heilsan, um leið og þú tekur einn fótinn undan kollinum veltir hann, þannig við verðum að hugsa um öll atriðin,“ segir Erla og bætir við að félagsleg heilsa verði oft út undan.
„Þú ætlar svo mikið að taka þig á í líkamlegu heilsunni, og fólk er aðeins meira farið að vinna með andlegu heilsuna, en þá kannski gleymist félagslega heilsan. Þú ferð að hætta að mæta í boð því það er ekkert í boði maturinn sem þú ert að leyfa þér. Þess vegna segi ég alltaf: Forðumst öfga. Því það er ekki vænlegt til árangurs, ef þú ætlar að ná einhverjum langtímaárangri þarftu ekki skammtímalausn, þá þarftu eitthvað langtímaplan.“
Erla hvetur fólk til að elta ekki allar tískubylgjur heldur gera eitthvað sem veitir því ánægju.
„Ef þig langar að fara að hreyfa þig finndu eitthvað sem þér finnst skemmtilegt. Ekki byrja í hlaupahóp ef þér finnst leiðinlegt að hlaupa. Ef þér finnst gaman að dansa, farðu í Zumba-tíma eða ef þér finnst gaman að hlaupa þá skaltu finna þér hlaupahóp. Finndu þér eitthvað sem þér finnst skemmtilegt því þá er líklegt að þú haldist í því.“
Erla viðurkennir að það sé smá þversögn í því sem hún segir næst en stundum þarf maður að pína sig smá ef hvatinn er ekki til staðar.
„Stundum þurfum við að byrja á einhverju og svo kemur hvatinn. Sérstaklega ef þér finnst leiðinlegt að hreyfa þig yfir höfuð, ef þú kemst ekki upp úr sófanum,“ segir hún.
Við spurðum Erlu hvort hún hafi sett sér áramótaheit. „Ég hef alltaf verið pínu hrædd við að setja mér stór markmið, markþjálfinn sjálfur,“ segir hún.
„En ég er að fara í nám seinna í janúar, í meiri og dýpri markþjálfun og ég ætla að nota þetta sem sjálfsvinnu. Ég er að fara hjá Virkja í æðislega spennandi nám og það mun örugglega hjálpa mér á þessari vegferð. En ég er með markmið að keppa i ólympískum lyftingum í Albaníu í maí.“
„Mig langar að fara að styrkja mig meira og það sem er svo ótrúlega gaman við það, að vilja styrkja sig, ég hef áður gert þetta fyrir 4-5 árum, þá fór ég að borða til að vera sterk og það er svo gaman. Þá ósjálfrátt fer maður að borða það sem nærir mann. Auðvitað leyfir maður sér af og til,“ segir Erla og vísar þá í 80/20 regluna, að borða hollan og næringarríkan mat í 80 prósent tilfella en leyfa sér sætabrauð og skyndibita í hin 20 prósentin.
„En það er bara, þá þarftu að borða nóg. Við konur borðum oft of lítið. Þá hægist á grunnbrennslunni og efnaskiptin okkar verða þannig að líkaminn rígheldur í það sem hann hefur og þess vegna gengur konum oft svo erfiðlega að létta sig á besta aldri.“
Horfðu á þáttinn með Erlu hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.
Fylgstu með Erlu á Instagram, hlustaðu á hlaðvarpið hennar, Með lífið í lúkunum, á Spotify. Erla heldur einnig úti vefsíðunni HeilsuErla.is.