Í þáttunum fara þær Nína Dögg Filippusdóttir og Elín Hall með hlutverk Vigdísar á ólíkum æviskeiðum en eins og kunnugt er varð Vigdís árið 1980 fyrst kvenna í heiminum til að verða kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum.
Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir leikstýra þáttunum sem koma úr smiðju Vesturports.
Ef marka má umræður á samfélagsmiðlum vakti þátturinn í gærkvöldi talsverða lukku og bíða margir spenntir eftir framhaldinu. Næsti þáttur verður sýndur á sunnudag.
Leikkonan geðþekka Edda Björgvinsdóttir var mjög hrifin og segir á Facebook-síðu sinni:
„Það er ekki oft sem ég verð yfir mig hrifin af þáttum í sjónvarpi, en fyrsti þátturinn um hana Vigdísi okkar var eitthvað það dásamlegasta sem ég hef séð lengi. Handritið vandað og fallegt og einstaklega góður leikur og frábær leikstjórn. Til hamingju elsku Vesturport og allir sem standa að þessu. HÚRRA!!!!!“
Undir þetta tóku margir.
„Afbragðs vel gert – leikur – umgjörð – handrit. Allt á efsta skala,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra. „Ég tek undir hvert orð, svo gaman að horfa á svona vandað efni,“ sagði Ebba Guðný Guðmundsdóttir. „Í einu orði ,,dásamlegt!“ Þessir Vesturportarar. Virðing,“ sagði annar.
„Segi og skrifa VÁ þvílík byrjun á nýju sjónvarps þáttunum um Vigdísi. Virkilega vel gert. Takk RÚV og Vesturport,” sagði svo enn annar.
Á Facebook-síðu RÚV tjáðu sig margir um þáttinn í gærkvöldi.
„Afbragðsþáttur, lofar mjög góðu um framhaldið. Elín brillerar sem Vigdís, ótrúlega lík henni á yngri árum,“ sagði einn og annar sagði: „Mjög vandaður og hugljúfur þáttur. Takk fyrir mig. Bíð spenntur eftir næstu þáttum.“