Kvikmyndagerðamaðurinn Davíð Goði Þorvarðarson var bjartsýnn í byrjun árs 2024. Hann og eiginkona hans voru byrjuð að tala um barneignir og lífið lék við þau. En veröldinni var snúið á hvolf þegar hann greindist með óútskýrðan og mjög sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur því að líkaminn framleiðir hættulega mikið magn af hvítum blóðkornum. Þar sem sjúkdómurinn er svo sjaldgæfur, Davíð er líklegast sá eini á Íslandi með hann og einn af fáum í heiminum, þá er ekki vitað hvaða meðferðaúrræði virkar best. Læknar vildu senda Davíð í beinmergsskipti í Svíþjóð, sem er mjög þung og erfið meðferð. Það var erfiður veruleiki að sætta sig við.
Davíð er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Hann ræðir um barneignaferlið í kringum lyfjameðferðir í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus, sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Davíð ræðir nánar um allt ferlið áður en hann fór í meðferðina og meðferðina sjálfa í þættinum, það má einnig horfa á brot úr þættinum hér og hér (meðferðin).
„Þegar ég lagðist inn fyrst á spítala, á þeim tíma vorum við, þáverandi kærasta mín og núverandi eiginkona mín, í hugleiðingum um að byrja að eignast barn. Ótrúlega spennandi og skemmtilegt, bara þetta verður árið, láta vaða í ár. Svo náttúrulega gerist þetta og það er ekkert skrýtið því lífið er sett á hold. Stoppar einhvern veginn allt og heimurinn hættir að snúast fyrir þér en allt í kringum þig heldur áfram, sem er mjög skrýtin tilfinning,“ segir hann.
Ófrjór eftir meðferð
Eftir fyrstu innlögnina fékk hann þær fréttir að það væru áform um að fara í beinmergsskipti og að það væru 99 prósent líkur að hann yrði ófrjór eftir meðferðina.
„Það var gríðarlega mikið áfall fyrir okkur, sérstaklega árið sem við ætluðum að byrja að reyna að eignast barn. Þetta var mjög erfiður tími, þetta var eitt það erfiðasta tilfinningalega, að heyra þetta, að við gætum mögulega ekki eignast barn saman,“ segir hann og bætir við að á þeim tíma hafi hann verið á lyfjum sem ollu því að hann gæti ekki heldur fryst sæði.
„Þannig þetta var svolítið svona tilvistarkreppa á þessum tíma um hvað yrði um okkur og framtíðina okkar. En sem betur fer þá hætti ég á þessum lyfjum sem voru að koma í veg fyrir að ég gæti fryst sæði, þannig ég fór og gerði það hjá Livio til að gera ráðstafanir. Ég er mjög þakklátur að hafa fengið að gera það, ég veit að það geta það ekki allir. En svo ákváðum við líka að láta reyna á það. Við fengum einn mánuð til að reyna,“ segir hann.
„Við fengum þennan eina mánuð og þetta eina skipti til að láta reyna á það […] og það virkaði,“ segir hann brosandi.
Aðspurður segist Davíð muna mjög vel hvernig honum leið þegar óléttuprófið var jákvætt. „Það var ekki bara gleði,“ segir hann. „Hún hringdi í mig á FaceTime og sýndi mér óléttuprófið. Fyrstu viðbrögð voru bara eintóm gleði og hamingja, ég nánast grét af gleði. En svo fljótlega breyttist það í smá sorg, af því að ég átti ennþá þetta stóra verkefni eftir og það fyrsta sem ég hugsaði var að ég vildi óska þess að ég gæti bara sinnt föðurhlutverkinu núna, að það gæti átt hug minn allan,“ segir Davíð.
„En þetta gerði mig sterkari og ákveðnari að fara í þetta ferli af fullri hörku. Það var það sem hélt mér gangandi í þessari meðferð, ég vissi að ég væri að berjast fyrir einhverju raunverulega, einhverjum sem þyrfti á mér að halda. Alltaf þegar það var erfitt þá horfði ég á sónarmyndirnar af honum og vissi að hann væri þarna við endalínuna.“
Davíð og eiginkona hans, Dagný Vala, fögnuðu nýverið tíu ára sambandsafmæli. Þau ákváðu að ganga í það heilaga áður en þau fóru til Svíþjóðar. „Við höfðum alltaf haft áform um að gifta okkur, en við vildum fara út í þetta sem hjón. Ég vildi fara út með eiginkonu minni,“ segir hann.
Davíð lýsir nánar meðferðinni í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgstu með Davíð á Instagram og TikTok. Hann heldur einnig úti heimasíðunni DavidGodi.is