Tova Sullivan er nýorðin ekkja og farin að vinna við ræstingar í Sædýrasafni Sowell Bay. Það hefur alltaf átt vel við hana að hafa nóg fyrir stafni, ekki síst þegar erfiðleikar steðja að. Eins og þegar Eric, átján ára gamall sonur hennar, hvarf á dularfullan hátt þrjátíu árum fyrr.
Sædýrasafnið er fullt af furðuskepnum en sú sem vekur mesta athygli Tovu er geðstirður kyrrahafskolkrabbi að nafni Marcellus. Smám saman myndast sérstæð vinátta með ræstingakonunni og kolkrabbanum, sem reynist luma á dýrmætum upplýsingum um hvarf Erics. En tíminn til að miðla þeim er að renna út.
Bókin Ótrúlega skynugar skepnur (e. Remarkably Bright Creatures) er frumraun bandaríska rithöfundarins Shelby Van Pelt. Bókin sem kom út árið 2022 hefur ítrekað verið á metsölulista New York Times og er nú komin út í íslenskri þýðingu. Bókin er hnyttin og heillandi saga um uppgjör við fortíðina sem farið hefur sigurför um heiminn; hún hefur verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál og selst í meira en tveimur milljónum eintaka.
Bókin er bók mánaðarins hjá Forlaginu og hér má lesa fyrstu tvo kafla bókarinnar með góðfúslegu leyfi útgefanda.
Dagur 1299 í fangavistinni
Myrkrið er minn heimur.
Á hverju kvöldi bíð ég eftir smellinum þegar slökkt er á loftljósinu og eina birtan sem greinist er daufur bjarmi frá aðalkerinu.
Ekki fullkomnar kringumstæður en þó þær bestu sem völ er á.
Þá er næstum eins dimmt og á hafsbotni þar sem ég átti heima áður en ég var fangaður og sviptur frelsi. Ég man ekkert eftir
því en samt finn ég enn bragðið af óbeisluðum köldum straumum úthafsins. Myrkrið er mér í blóð borið.
Þú spyrð hver ég sé. Ég heiti Marcellus en fáir kalla mig það. Oftast nær kallar fólk mig þennan gaur. Til dæmis: Sjáið þennan
gaur – þarna er hann – það rétt glittir í griparmana á bak við steininn.
Ég er risakolkrabbi úr Kyrrahafinu. Ég veit þetta af því það stendur á skilti á veggnum hjá kerinu mínu.
Og ég veit hvað þú hugsar núna. Já, ég kann að lesa. Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég er fær um margt.
Það eru fleiri upplýsingar á skiltinu, t.d. stærð mín, hvaða fæða mér finnst best og hvar ég ætti hugsanlega heima ef ég
væri ekki fangi hér. Það er sagt frá vitsmunalegum yfirburðum mínum, færni og hugviti sem virðist einhverra hluta vegna
koma manneskjum á óvart. Kolkrabbar eru ótrúlega skynugar skepnur, stendur þarna. Það er vakin athygli á felubúningi mín
um og fólki sagt að það geti verið erfitt að koma auga á mig ef ég hef gert mig samlitan sandinum.
Nafnið mitt stendur ekki á skiltinu. En manneskjan sem er kölluð Terry, það er sá sem rekur þetta sædýrasafn, segir það
stundum gestum sem hafa safnast saman við kerið mitt. Sjáið þið þennan þarna? Hann heitir Marcellus. Hann er alveg einstakur.
Einstakur. Svo sannarlega.
Það var litla dóttir Terrys sem valdi nafnið mitt. Ég heiti fullu nafni Marcellus McSquiddles. Já, það er fáránlegt nafn. Það fær
marga til að halda að ég sé smokkfiskur sem er herfileg móðgun.
Hvað áttu þá að kalla mig? Ja, þú ræður því. Kannski viltu bara kalla mig þennan gaur eins og allir hinir. Ég vona ekki en
ég mun ekki móðgast við þig. Þú ert hvort sem er ekki annað en einföld manneskja.
Ég verð að gera þér ljóst að samvistir okkar verða ekki langar.
Á skiltinu má sjá hve löng meðalævi risakolkrabba er: Fjögur ár. Ævi mín er aðeins fjögur ár – 1460 dagar.
Ég kom hingað ungur. Ég mun deyja hér í þessu keri. Ég á í
mesta lagi hundrað og sextíu daga ólifaða.
TÚSKILDINGSÖRIÐ
Tova Sullivan býr sig undir bardaga. Gulur gúmmíhanski gægist upp úr öðrum rassvasa hennar eins og fjöður á
kanarífugli þegar hún beygir sig niður til að að virða fyrir sér óvininn.
Tyggjóklessu.
„Svei mér þá.“ Hún potar í bleika klessuna með moppuskaftinu.
Á klessunni má sjá alls kyns mynstur eftir óhreina skósóla.
Tova hefur aldrei skilið hvaða tilgangi tyggigúmmí á að
þjóna. Auk þess týnir fólk því svo oft. Kannski hefur eigandi þessarar klessu verið með óstöðvandi munnræpu og klessan runnið út úr honum og borist burt með orðaflaumnum.
Hún beygir sig niður og klórar með nöglinni í óhreinindin en klessan haggast ekki. Þetta er afleiðing þess að einhver nennti ekki að ganga tíu skref að rusladallinum. Þegar Erik var lítill sá
Tova hann einu sinni klína kúlutyggjóklessu undir borð á matsölustað.
Þá hætti hún að kaupa tyggjó handa honum. En þegar hann var kominn á táningsaldur réð hann auðvitað sjálfur í hvað hann eyddi vasapeningunum sínum. Þegar þar var komið hafði
hún ekkert um það að segja frekar en svo margt annað.
Hér þarf sérstakan vopnabúnað. Kannski þjöl. Engin af græjunum á vagninum hennar dugar. Hún ætlar að athuga hvað hún
finnur í kústaskápnum.
Þegar hún réttir úr sér brakar í baki hennar. Hljóðið bergmálar um auðan ganginn sem eins og venjulega er baðaður mildu bláu ljósi. Auðvitað mundi enginn áfellast hana þótt hún
skúraði bara yfir klessuna. Hún er orðin sjötug og það er alls ekki ætlast til að hún hvítskúri allt. En hún má til, hún verður að minnsta kosti að reyna.
Auk þess hefur hún þá eitthvað að fást við.
Tova er elsti starfsmaður sædýrasafnsins í Sowell Bay.
Á hverju kvöldi þvær hún gólfin, pússar glerveggina og tæmir ruslaföturnar.
Aðra hverja viku hirðir hún launaseðilinn sinn úr hólfinu sínu á kaffistofunni. Hún fær fjórtán dollara á tímann að frádregnum sköttum og öðrum greiðslum.
Launaseðillinn fer ólesinn í gamlan skókassa uppi á ísskápnum heima hjá henni. Launin renna sjálfkrafa inn á reikning í
sparisjóðnum í Sowell Bay.
Hún nálgast kústaskápinn á undraverðum hraða af svo smávaxinni eldri konu að vera, hraða sem yngra fólk með beinna bak og sterkari fætur gæti verið fullsæmt af. Regndropar falla
á þakgluggann, í baksýn er bjarminn frá vitaljósinu við gömlu ferjuhöfnina. Silfurlitir dropar renna niður rúðuna eins og glitrandi
borðar undir þungskýjuðum himninum. Fólki finnst að
veðrið í júní hafi verið ömurlegt. Gráminn fer ekkert í taugarnar
á Tovu. Samt væri nú gott ef það stytti upp nógu lengi til að
garðflötin hennar þornaði. Handknúna sláttuvélin hennar stíflast
þegar flötin er svona vatnssósa.
Byggingin sem hýsir sædýrasafnið er í laginu eins og kleinuhringur
þar sem aðalkerið er í miðjunni og minni ker hringinn í
kring. Húsið er með hvolfþaki og er hvorki sérlega stórt né tilkomumikið
en ef til vill hæfir það Sowell Bay vel sem er hvorki
stór né tilkomumikill bær. Kústaskápurinn er alveg hinum megin
í húsinu frá þeim stað þar sem Tova rakst á tyggjóklessuna. Það
ískrar í hvítu skónum hennar á svæði sem hún er þegar búin að
þrífa og þeir skilja eftir sig dauf spor á glansandi flísagólfinu.
Hún strýkur yfir þau aftur á eftir, um það þarf ekki að efast.
Hún nemur staðar við grunnt innskot í veggnum, þar er
bronsstytta af sæljóni í fullri stærð. Glansandi blettir á baki þess
og haus, sem í áratugi hafa slípast undan klappi og klifri barna,
gera styttuna enn raunverulegri. Tova á mynd af Erik heima á
arinhillunni þar sem hann er ellefu eða tólf ára og situr skælbrosandi
á baki styttunnar með aðra hönd á lofti eins og hann sé
í þann veginn að kasta snöru. Kúreki hafsins.
Þessi mynd er ein af þeim síðustu þar sem hann er enn barnslegur
og áhyggjulaus. Tova gætir þess að raða alltaf myndunum
af Erik í réttri tímaröð. Þær sýna breytingarnar sem verða með
tímanum frá tannlausu brosandi ungbarni í laglegan táning sem
er hærri en faðir hans og stillir sér upp í mittisjakka eins og þeim
sem þá voru í tísku. Svo er mynd þar sem hann festir blóm í barm
stúlku sem hann hefur boðið á lokaballið í skólanum. Og enn ein
af honum á verðlaunapalli á grýttri strönd Puget-sundsins
með
bikar í höndum eftir róðrarkeppni menntaskólans. Tova strýkur
kalt höfuð sæljónsins þegar hún gengur fram hjá og hrindir
frá
sér tilhugsuninni um hvernig Erik myndi líta út í dag.
Hún heldur áfram sem leið liggur eftir dimmum ganginum.
Við ker röðulborranna nemur hún staðar. „Gott kvöld, elskurnar.“
Japönsku krabbarnir eru næstir. „Halló, sætu.“
„Hvernig hafið þið það?“ spyr hún marhnútana.
Steinbítarnir eru ekki eftirlæti Tovu en hún kinkar kolli til
þeirra. Það er engin ástæða til að vera ókurteis, jafnvel þótt
þeir minni hana á hryllingsmyndirnar í kapalsjónvarpinu sem
maðurinn hennar sálugi, hann Will, horfði á um miðjar nætur
þegar ógleðin eftir lyfjagjöfina hélt fyrir honum vöku. Stærsti
fiskurinn rennir sér út úr helli sínum með ólundargrettu sem
myndast vegna undirbitsins sem er einkenni hans. Oddhvassar
tennurnar standa upp úr neðri skoltinum eins og litlar nálar.
Þetta er ófrýnileg skepna svo ekki sé meira sagt. En það er ekki
alltaf að marka útlitið, er það nokkuð? Tova brosir til steinbítsins
þótt hann geti ekki endurgoldið brosið jafnvel þótt hann
vildi, ekki með svona fés.
Íbúinn í næsta keri er í uppáhaldi hjá Tovu. Hún hallar sér
upp að glerinu. „Jæja, herra minn, hvað hefur þú haft fyrir stafni
í dag?“
Það tekur smástund að finna hann. Loks kemur hún auga á
örmjóa appelsínulita rönd á bak við steininn. Hún er rétt aðeins
sýnileg fyrir smámistök viðkomandi. Rétt eins og þegar börnum
fatast í feluleik og það sést í taglið í hári lítillar stúlku upp
fyrir sófabak eða fót sem stendur fram undan rúmi.
„Þykistu vera feiminn í kvöld?“ Hún færir sig frá og bíður.
Risakolkrabbinn hreyfir sig ekki. Henni verður hugsað til þess
sem gerist á daginn þegar fólk kemur og bankar á glerið og fer
svo í fússi þegar ekkert er að sjá. Þolinmæði virðist ekki lengur
teljast dyggð.
„Ég skil þig vel. Það lítur út fyrir að þú hafir það notalegt
þarna á bak við.“
Appelsínulitur armurinn kippist til en kolkrabbinn sjálfur
lætur ekki sjá sig.
Tyggjóklessan veitir hraustlegt viðnám gegn þjöl Tovu en losnar samt að lokum.
Hún hendir harðri klessunni í rusladallinn og gleðst þegar skrjáfar í plastpokanum.
Svo skúrar hún. Aftur.
Upp af votum flísunum stígur dauf angan af ediki og sítrónu.
Það ilmar svo miklu betur en þessi hræðilegi þvottalögur sem
var notaður þegar Tova kom til starfa. Það var eitthvert ljósgrænt
jukk sem hana sveið í nefið af. Hún mótmælti strax notkun
þess. Í fyrsta lagi svimaði hana af því og í öðru lagi skildi það
eftir ljótar rákir á gólfunum. En það versta var ef til vill að það
lyktaði eins og sjúkrastofa Wills og eins og Will sjálfur þegar
hann var veikur en það nefndi hún ekki við neinn.
Hillurnar í kústaskápnum voru troðfullar af ílátum með
þessu græna jukki en Terry, forstöðumaður sædýrasafnsins,
yppti loks öxlum og sagði að hún mætti nota hvað sem hún vildi
ef hún bara keypti það sjálf. Auðvitað samþykkti hún það. Svo
að nú kemur hún með könnu af ediki og flösku af sítrónuolíu á
hverju kvöldi.
Þá er það ruslið. Hún tæmir dallana í anddyrinu, fötuna fyrir
utan snyrtingarnar og endar loks á kaffistofunni þar sem borðið
er allt þakið brauðmylsnu. Hreingerningafólk frá Elland sem
kemur aðra hvora viku sér um þetta herbergi svo það er ekki
í verkahring Tovu en hún þrífur samt alltaf í kringum gömlu
kaffivélina og sletturnar innan úr örbylgjuofninum sem ætíð
lyktar af spaghettí. Í dag er hins vegar eitthvað meira á ferðinni.
Á gólfinu liggja þrjú pappabox utan af skyndibita.
„Ég á ekki orð,“ segir hún ergilega út í tómt herbergið. Fyrst
var það tyggjóið og nú þetta.
Hún tekur umbúðirnar og hendir þeim í ruslafötuna sem er
ekki alveg þar sem hún er vön að vera. Síðan tæmir hún fötuna í
safnpokann sinn og setur hana aftur á sinn rétta stað. Hjá ruslafötunni
er lítið borð. Tova lagar til stólana við borðið og þá sér
hún það.
Eitthvað. Undir borðinu.
Brúnn og appelsínulitur klumpur innst í horninu. Er þetta
peysa? Mackenzie, viðkunnanlega unga konan sem vinnur í
miðasölunni, skilur oft eftir peysu á stólbaki. Tova krýpur niður
og ætlar að ná í peysuna og setja í hólfið hennar Mackenzie. En
klumpurinn hreyfist.
Það er griparmur sem hreyfist.
„Drottinn minn dýri!“
Það glittir í auga kolkrabbans einhvers staðar inni í þessu
skvapkennda flikki. Kúlulaga sjáaldrið víkkar en svo kiprast
augað saman. Ásakandi.
Tova deplar augunum, hún er ekki viss um að hún sjái rétt.
Hvernig í ósköpunum komst risakolkrabbinn út út kerinu sínu?
Armurinn hreyfist á ný. Skepnan er föst í flækju af hleðslusnúrum.
Hún hefur oft og innilega formælt þessum snúrum.
Þær hindra hana í að sópa gólfið almennilega.
„Þú ert fastur,“ hvíslar hún og kolkrabbinn lyftir stóru hnöttóttu
höfðinu. Hann reynir að hreyfa einn arminn en utan um
hann er vafin mjó snúra sem lítur út fyrir að vera hleðslusnúra
fyrir síma. Kolkrabbinn togar af meiri krafti og snúran vefst
þéttar um arminn. Holdið gúlpar út á milli vafninganna. Erik
átti einu sinni svona leikfang úr grínbúð. Það var lítill fléttaður
sívalningur og maður átti að stinga vísifingri í hvorn enda og
reyna svo að toga þá í sundur. Því meira sem maður reyndi þeim
mun fastari urðu fingurnir.
Hún mjakar sér varlega nær. Kolkrabbinn bregst við með því
að slá arminum í gólfið eins og hann vilji segja: Burt með þig,
kona.
„Allt í lagi, allt í lagi,“ muldrar hún og færir sig undan borðinu.
Hún stendur upp, kveikir loftljósið og skúrar gólfið. Síðan
beygir hún sig aftur nær kolkrabbanum en fer sér nú mun hægar.
En þá, eins og alltaf, brakar í hryggnum.
Við hljóðið slær kolkrabbinn aftur frá sér. Hann hittir einn
stólinn sem þeytist þvert yfir herbergið og í vegginn á móti.
Undir borðinu glampar ótrúlega skært auga skepnunnar.
Tova færir sig ákveðin nær og reynir að hemja handaskjálftann.
Hversu oft hefur hún ekki séð skiltið hjá keri krabbans?
Hún man ekki til að þar hafi staðið neitt um að kolkrabbar
geti
verið hættulegir mönnum.
Nú er aðeins um það bil fetið á milli þeirra. Hann virðist vera
að skreppa saman og litur hans hefur dofnað. Hafa kolkrabbar
tennur?
„Vinur minn,“ segir hún blíðlega. „Ég ætla að teygja mig yfir
þig og taka snúruna úr sambandi.“ Hún lítur yfir flækjuna og sér
nákvæmlega hvaða snúru er um að ræða, hún er innan seilingar.
Kolkrabbinn fylgist með hverri hreyfingu Tovu.
„Ég ætla ekki að meiða þig, vinur.“
Einn armurinn snertir gólfið létt eins og skott á ketti.
Þegar hún kippir úr sambandi hrekkur kolkrabbinn aftur á
bak. Tova hrekkur líka við. Hún býst við að hann skreiðist með
fram veggnum í átt til dyra, þá átt sem hann hafði virst stefna í.
En í stað þess mjakar hann sér nær.
Eins og snákur liðast einn af örmum hans til hennar. Á augabragði
vefur hann sig um framhandlegg hennar, olnboga og
upphandlegg eins og borði um maístöng. Hún finnur sogskálarnar
festast við húðina. Ósjálfrátt reynir hún að draga til
sín handlegginn en kolkrabbinn herðir takið næstum að sársaukamörkum.
En það er stríðnisglampi í auga hans eins og hjá
óþekkum krakka.
Tómar skyndibitaumbúðir. Ruslafata á röngum stað. Þarna
er skýringin.
Svo sleppir hann snögglega takinu. Tova fylgist furðu lostin
með þegar hann strunsar út um dyrnar á kaffistofunni og vindur
sig áfram á sverasta hluta allra armanna. Hann dregur búkinn
hálfpartinn á eftir sér, liturinn hefur dofnað enn meir og hann
á erfitt með hreyfingar. Tova hraðar sér á eftir honum en þegar
hún er komin út á ganginn er hann hvergi sjáanlegur.
Hún strýkur hendinni yfir andlitið. Þetta eru elliglöp. Já, það
hlýtur að vera. Þannig byrjar það, ekki satt? Með skynvillum.
Fyrir mörgum árum hafði hún séð móður sína verða minnisglöpum
að bráð. Það byrjaði með því að hún mundi stundum
ekki einstaka nöfn eða dagsetningar. En Tova gleymir aldrei
símanúmerum og þarf ekki að hugsa sig um í sambandi við
nöfn. Hún lítur niður á handlegginn á sér sem er alsettur litlum
hringlaga förum eftir sogskálar kolkrabbans.
Hún klárar kvöldverkin hálfringluð. Síðan fer hún sína
venjubundnu kveðjugöngu um safnið.
Góða nótt, röðulborrar, steinbítar, japönsku krabbar og marhnútar.
Góða nótt, sæfíflar, krossfiskar og sæhestar.
Og handan við hornið heldur hún áfram. Góða nótt túnfiskar,
flyðrur og skötur. Góða nótt, marglyttur og sæbjúgu. Góða nótt,
veslings hákarlar. Hún hefur alltaf kennt í brjósti um hákarlana
sem synda bara í endalausa hringi í kerinu. Hún skilur vel
hvernig það er að verða að halda áfram að hreyfa sig til þess að
geta haldið áfram að draga andann.
Þarna er svo kolkrabbinn, aftur kominn í felur á bak við steininn.
Það glittir aðeins í smápart af honum. Appelsínuguli liturinn
er örlítið dekkri núna miðað við hvernig hann leit út á kaffistofunni
en hann er samt fölari en hann á að sér. Nú, honum var
nær. Hann ætti bara að halda sig á mottunni. Hvernig í ósköpunum
skyldi hann hafa komist út? Hún rýnir í gjálfrandi vatnið
uppi undir brúninni en allt virðist vera með felldu.
„Vandræðagepill,“ segir hún og hristir höfuðið. Hún staldrar
við smástund í viðbót fyrir framan kerið hans en fer svo sína
leið.
Guli bíllinn hennar Tovu pípir og blikkar stöðuljósunum
þegar hún þrýstir á fjarstýringuna. Hún er ekki alveg búin að
venjast þessu viðbragði enn. Vinkonur hennar í hádegisverðarhópnum,
sem þær kalla Prjónapíurnar, töldu henni trú um að
hún þyrfti á nýjum bíl að halda þegar hún fór að vinna. Rökin
voru þau að það væri ekki óhætt að aka um að nóttu til í gömlum
bíl. Þær tuðuðu um þetta vikum saman.
Stundum er bara auðveldast að láta undan.
Hún setur edikskönnuna og flöskuna með sítrónuolíunni í
skottið eins og hún er vön. Terry hefur margsagt að hún megi
geyma þetta í kústaskápnum en það er aldrei að vita hvenær
hún kann að þurfa á því að halda. Svo lítur hún niður á bryggjuna.
Þar er enginn á þessum tíma kvölds, dorgveiðimennirnir
eru löngu farnir. Gamla ferjubryggjan liggur skammt frá sædýrasafninu
eins og ævaforn rotnandi óskapnaður. Morknir
stólparnir eru þaktir hrúðurkörlum. Á flóði festast á þeim
þaraflygsur sem þorna og verða að dökkum klessum þegar fjarar
út.
Hún gengur yfir veðraða plankana. Eins og ætíð áður eru
nákvæmlega þrjátíu skref frá bílastæðinu hennar yfir að gamla
miðasölubásnum. Tova lítur í kringum sig eftir því hvort einhverjir
séu að læðupokast þarna í myrkrinu. Hún þrýstir lófanum
að rúðunni á básnum, sprungan í glerinu sem liggur
hornanna á milli er eins og ör í andliti.
Síðan fer hún yfir á bryggjuna að bekknum sínum. Hann
er háll af saltúða og blettóttur af mávaskít. Hún sest, ýtir upp
erminni og virðir fyrir sér þessa skrítnu kringlóttu bletti. Hún
á eiginlega von á að þeir séu horfnir. En þarna eru þeir enn.
Hún strýkur fingurgómnum eftir þeim stærsta sem er innan á
úlnliðnum. Hann er á stærð við túskilding. Hversu lengi verður
hann þarna? Fær hún marblett? Hún fær oft marbletti nú orðið
og bletturinn er orðinn dökkrauður líkt og blaðra full af blóði.
Kannski fer hann aldrei. Hún mun bera ör sem er í laginu eins
og túskildingur.
Þokunni hefur létt. Vindurinn hefur hrakið hana inn á landið,
blásið henni í átt til fjallanna. Í suðurátt sést flutningaskip við
akkeri, það liggur djúpt í sjó undan þunga gámanna sem staflað
er á dekkinu. Tunglskinið merlar á vatninu eins og þúsund
kertaljós á floti. Tova lokar augunum og sér hann fyrir sér undir
yfirborðinu þar sem hann heldur á kertunum fyrir hana. Erik.
Eina barnið hennar.