Í fyrstu grein sem DV skrifaði upp úr þættinum sagði Davíð frá því hvernig hann byrjaði að fá bletti fyrir annað augað og hélt að þetta tengdist stressi og væri auðvelt vandamál að leysa. Það fór af stað atburðarrás og var hann að lokum sendur upp á bráðamóttöku og fór hann ekki aftur heim fyrr en mánuði síðar eftir að læknar höfðu reynt að finna út hvað væri að hrjá hann. Davíð var greindur með óútskýrðan sjúkdóm þar sem líkami hans framleiðir hættulega mikið magn af hvítum blóðkornum. Hann var látinn prófa alls konar lyf og fundu læknarnir tvö lyf sem virka vel saman, en læknarnir vildu finna lausn á vandanum.
„Ég var á þessum lyfjum í nokkra mánuði en það þurfti að finna einhverja lausn á þessu. Það var haldið að vandinn lægi í beinmergnum. Beinmergurinn framleiðir hvít og rauð blóðkorn og af því að hann er að framleiða allt of mikið af hvítum blóðkornum var haldið að sterkasta lausnin við því væri að fara í beinmergsskipti. Beinmergsskipti er ein þyngsta meðferð sem hægt er að fara í,“ segir Davíð.
Hann ræðir nánar um meðferðina í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus, sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Davíð fór fyrst í eina og hálfa lyfjameðferð fyrir hvítblæði og síðan var förinni heitið til Svíþjóðar. Hann segir einlægur að þetta hafi verið það erfiðasta sem hann hefur gengið í gegnum.
„Þetta voru 5-7 dagar í lyfjameðferð, svo er það mjög stutt 20 mínútna blóðgjöf með stofnfrumum og svo er það þriggja mánaða uppbygging þar sem líkaminn þinn tekur við þessum stofnfrumum og byggir upp alveg nýjan beinmerg frá grunni.“ Davíð fékk stofnfrumur frá bróður sínum.
Davíð lýsir hrottalegu bataferli, en það var vont að borða, fara á klósettið og í raun bara vont að vera til.
„Á þessum tíma missir maður rosalega mikla þyngd. Þetta étur upp vöðvana þína, öll þessi lyf. Því þau ráðast ekki bara á sjúkdóma heldur líka á heilbrigðar frumur. Ég missti í kringum fimmtán kíló á nokkrum dögum.“
Þetta tímabil er í móki hjá Davíð en hann var á sterkum verkjalyfjum. „Þessi verkjalyf gera mann svolítið þannig að maður dettur út, maður er ekki meðvitaður á meðan maður er á þessum verkjalyfjum. Ég bara vaknaði, fékk verki, tók verkjalyf og svo var ég bara á verkjalyfjum þar til ég sofnaði um nóttina. Það var svolítið líf mitt í tvær vikur þarna úti,“ segir hann.
Davíð segir að þetta hafi verið martröð líkast. „Þetta var mjög erfitt fyrir konuna mína, foreldra hennar og foreldra mína að koma þarna út og heimsækja okkur, því þau sáu rosalega lítið af mér á þessum tíma því ég var bara uppi í rúmi að reyna að lifa af. Mér líður eins og ég hafi verið í öðrum heimi á meðan allir aðrir voru þarna. Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af,“ segir hann.
Sem betur fer gekk bataferlið vel, hann fékk engar sýkingar og engin óvænt atvik komu upp. „Venjulegt kvef getur drepið þig í þessum aðstæðum því þú ert ekki með neinar varnir í líkamanum til að berjast við kvef eða aðra sjúkdóma,“ segir hann.
Davíð var í meðferðinni í Svíþjóð í september og kom heim í nóvember. Hann hefur náð góðum bata á stuttum tíma en er þó enn að jafna sig.
Aðspurður hver staðan sé í dag segir Davíð: „Staðan er sú að þessi beinmergsskipti virkuðu ekki eins og átti að gera. Meðferðin gerði ekki það sem læknarnir vonuðust að hún myndi gera,“ segir Davíð.
Meðferðin sjálf gekk vel en breytti í raun engu fyrir ástand Davíðs. „En hún heppnaðist ekki gegn því sem var ætlað að hún ætti að heppnast gegn. Sjúkdómurinn er í raun ennþá til staðar, ég er bara með nýjan beinmerg,“ segir hann.
„Ég hefði í raun ekki þurft að fara í meðferðina, hún var í raun tilgangslaus, fyrir utan að það er hægt að útiloka að sjúkdómurinn leynist í beinmergnum.“
Hann viðurkennir að það hafi verið erfitt að sætta sig við að hann hafi gengist undir meðferðina en hefði í raun ekki þurft þess. „En ég er búinn að fara í gegnum það mikið núna að ég er ekki að dvelja á þannig tilfinningum að ég sé reiður eða pirraður. Ég er bara það þakklátur fyrir að líða vel núna að ég er ekki að hengja mig á því.“
„Ég er á lyfjum núna sem halda þessum gildum niðri og gera það mjög vel. Tíminn mun svo leiða í ljós hvort ég þurfi að gera eitthvað meira eða hvort þetta sé leiðin sem ég mun geta lifað. En ég er enn að jafna mig eftir þessi beinmergsskipti, það tekur alveg heilt ár í heildina. Því ónæmiskerfið er búið að skipta alveg út, ég þarf að fara í bólusetningar upp á nýtt,“ segir hann.
Davíð og eiginkona hans, Dagný Vala, grínast stundum með það að hann muni verða samferða syni þeirra í bólusetningunum. En settur dagur var fyrr í vikunni og styttist því óðfluga í að hjónin verði foreldrar.
„Það er bara tíminn sem maður saknar, að þetta hafi tekið mikinn tíma og að maður hafi misst mikið út úr alls konar hlutum. En aftur á móti færði þetta mig nær fjölskyldu minni og konunni minni en ég hef nokkurn tíma verið. Maður er eiginlega fullur af ást eftir allt þetta ferli, þó að þetta hafi verið erfiðasta og mesta áfall sem ég hef gengið í gegnum á ævinni og erfiðasti tími lífs míns, þá er ég samt þakklátur fyrir reynsluna því ég fékk að fara vel í gegnum þetta og alls ekki allir fá að gera það.“
Davíð lýsir nánar meðferðinni í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgstu með Davíð á Instagram og TikTok. Hann heldur einnig úti heimasíðunni DavidGodi.is