Stundum lifir ástin ekki að eilífu og stundum eru ástarsambönd dauðadæmd frá upphafi. Það eru hins vegar ekki allir tilbúnir að horfast í augu við það og halda í vonina. Konur á TikTok hafa undanfarið deilt sögum af því hvenær þær áttuðu sig á því að hjónaband þeirra myndi líklega ekki endast út yfir gröf og dauða. Ein kona lýsir því að hún hafi áttað sig á í hvað stefndi á sjálfan brúðkaupsdaginn.
„Eiginmaður minn eyðilagði brúðkaupsdaginn okkar,“ segir hún í TikTok-myndbandi sem hefur fengið yfir 2 milljónir áhorfa. „Fjöldi athugasemda sem ég hef séð við TikTok-myndbönd um konur sem áttuðu sig á því daginn sem þær giftu sig að þær gerðu mistök, er ótrúlegur og við þurfum kannski að ræða hvað það er eðlilegt.“
Hún og fyrrverandi maður hennar ákváðu að gifta sig í dómshúsi eftir bara fjögurra mánaða samband. Nánast um leið og dómarinn hafði lýst þau hjón sagði nýbakaður eiginmaður konunnar tvö orð sem sannfærðu hana um að hann væri ekki hennar eini rétti. Dómarinn tók glaður fram að hann elskaði að framkvæma hjónavígslur og vonaði heitt og innilega að hjónin væru tilbúin að koma aftur til hans eftir áratug til að segja honum hvernig hefði gengið. Brúðurin brosti og tók undir með dómaranum og sagði í gríni: „Ég vona að ég passi enn í sama kjólinn“.
„Eiginmaður minn til 70 sekúndna hikaði ekki áður en hann bætti við „eða minni“. Ég dó að innan og fraus eins og stytta. Mér leið eins og ég gæti ekki einu sinni andað. Hjartað mitt var í molum. Ég horfði á dómarann og hann var agndofa. Hann sagði: Vinur, þú varst að gifta þig! Og þá fattaði ég að ég var ekki galin. Innsæið mitt var rétt. Ég var ekki biluð. Þetta var ljótt.“
Þrátt fyrir þetta ákvað hún að láta reyna á hjónabandið þar sem hún mátti þola andlegt ofbeldi og gaslýsingu í næstum áratug. Viku fyrir 10 ára brúðkaupsafmælið fór maðurinn fram á skilnað.
„Hann sannfærði mig um að ég væri geðveik og dramatísk, en í raun er ég hvorugt. Hann hataði mig heitt og innilega frá upphafi.“
Margar konur deila sambærilegri reynslu í athugasemdum og eiga það allar sameiginlegt að dauðsjá eftir því að hafa ekki slitið samböndum sínum fyrr.
„Ég er 33 ára og varð nýlega ekkja. Ég hélt ég væri ein. Ég burðaðist áratugum saman með svo mikla skömm og faldi þetta allt. Nú er ég frjáls og ég vona að ég eigi inni í það minnsta eitt gott ár.“
Önnur er í skilnaðarferli: „Ég grét inni á baði áður en ég gekk upp að altarinu. Hefði ekki átt að láta verða af þessu. Ég er að skilja núna eftir 16 ára hjónaband.“
Aðrir notendur tóku fram að konurnar þurfi ekki að afsaka hvers vegna þær slitu ekki samböndum sínum fyrr. Það skipti þó máli að tala um svona hluti svo aðrir geti lært að þekkja rauðu flöggin sem benda til þess að ástarsamband verði eitrað.
„Getum við vinsamlegast kennt hvernig heilbrigð sambönd eru strax í grunnskóla? Ef fólk vissi hvað ástarsprengjur eru, gaslýsing, einangrun og svo framvegis þá væri auðveldara að koma í veg fyrir ómældan sársauka og eymd.“