Bresk kona sem er á ferð um Ísland segir frá því á samfélagsmiðlum að það hafi komið henni mjög á óvart hversu algengt það sé hér á landi að ökumenn stöðvi bíla sína til að hleypa gangandi vegfarendum yfir götu. Þessu eigi hún ekki að venjast frá sínu heimalandi. Í athugasemdum taka nokkrir landar hennar undir með henni.
Konan segir svo frá:
„Er það regla fyrir ökumenn á Íslandi að stoppa til að leyfa gangandi vegfarendum að komast yfir götu? Í alvöru talað ég er frá Bretlandi og varð steinhissa að sjá alla bílana stoppa til að hleypa okkur yfir götuna. Heima er ég vön því að vera með lífið í lúkunum og skjótast yfir þegar er bil milli bíla.“
Af færslu konunnar má ráða að hún eigi ekki bara við það að komast yfir götur á gangbrautum. Það virðist því hafa verið töluvert um að ökumenn hér á landi hafi stöðvað og hleypt konunni yfir götu, þótt hún hafi ekki verið að bíða við gangbraut.
Landar konunnar sem einnig hafa komið til Íslands taka undir í athugasemdum og segjast hafa orðið steinhissa þegar í ljós hafi komið að ökumenn hér á landi hafi verið mun liðlegri en venjan sé í Bretlandi við að hleypa gangandi vegfarendum yfir götur. Í einni athugasemd segir meðal annars:
„Þetta gerðist meira að segja þar sem ekki voru gangbrautir og ég varð steinhissa á því hversu vinalegt fólk var að stoppa alltaf til að hleypa okkur yfir. Ég hef aldrei upplifað þetta annars staðar,“ viðkomandi segist aldrei hafa upplifað að ökumenn í Bretlandi stöðvi utan merktra gangbrauta til að hleypa gangandi vegfarendum yfir og á gangbrautum þar í landi þurfi að ganga yfir með ítrustu varúð.