Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn David Lynch er látinn 78 ára aldri.
Lynch fór eigin leiðir við listsköpun sína og fylgdi ekki meginstraumnum í Mekka bandarískrar kvikmyndagerðar, Hollywood. Hann sagði sjálfur að hann væri fremur undir áhrifum evrópskra kvikmyndaleikstjóra fremur en bandarískra. Lynch sagði evrópskar kvikmyndir hreyfa mun meira við innstu kimum sálar hans en kvikmyndir landa hans. Var hann undir áhrifum frá t.d. Federico Fellini, Jean-Luc Godard og Ingmar Bergman.
Kvikmyndir Lynch voru oftar en ekki draumkenndar og súrrealískar. Meðal þekktustu verka hans er hin sannsögulega Elephant Man frá 1980 en fyrir hana var Lynch tilnefndur til óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn. Aðrar þekktar myndir eru t.d. spennumyndin Blue Velvet frá 1986, rómantíska dramamyndin Wild að Heart frá 1990 en fyrir hana hlaut Lynch Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes og spennumyndin Mullholland Drive frá 2001.
Lynch er einnig minnst fyrir sjónvarpsþættina Twin Peaks sem sýndir voru á árunum 1990-1991 en þættirnir hlutu frábæra dóma og hafa öðlast stóran sess í menningarsögunni.
Egill Helgason fjölmiðlamaður minnist Lynch meðal annars með eftirfarandi orðum á Facebook síðu sinni:
„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi með Twin Peaks. Blessuð sé minning hans.“
Lynch kom til Íslands 2009 en hann og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi þekktust vel en sá síðarnefndi kom meðal annars að framleiðslu Twin Peaks og fleiri verka Lynch. Egill tók viðtal við Lynch í Íslandsheimsókn hans. Aðaltilgangurinn með heimsókninni var að kynna Íslendinga fyrir innhverfri íhugun en Lynch ræddi þó einnig list sína við Egil.
Lynch fékkst einnig við myndlist og tónlist en Egill spurði hann hvort kvikmyndalistin væri ástríða lífs hans. Því svaraði Lynch meðal annars á eftirfarandi hátt:
„Stundum verðum við ástfangin af hugmyndum okkar.“
Um stílinn yfir kvikmyndum hans sem oftast er kallaður Lynch-stíllinn sagði Lynch við Egil:
„Ég segi alltaf að maður fái hugmynd. Segjum svo að maður skrifi hana niður og hún verði að kvikmyndahandriti. Sagt er að láti maður tíu leikstjóra fá sama handrit fái maður 10 mismunandi kvikmyndir. Það er eitthvað til í því að hugmynd fari í gegnum vél. Vélin hefur einhver áhrif en það er samt hugmyndin sem knýr skipið áfram.“