Davíð Goði er 27 ára gamall og fyrir ári síðan var veröld hans snúið á hvolf. Hann greindist með óútskýrðan sjúkdóm, gekkst undir mjög þunga og erfiða meðferð sem hann er enn að jafna sig á. En það var ljós í myrkrinu. Hann og eiginkona hans, Dagný Vala, eiga von á barni, en settur dagur er í dag og bíða hjónin spennt eftir drengnum.
Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Þetta byrjaði allt fyrir um einu og hálfi ári síðan. Davíð var hress og hraustur og hafði aldrei glímt við neins konar veikindi um ævina.
„Ég hef alltaf verið í mjög góðu líkamlegu ástandi, heilsuhraustur og aldrei þurft að díla við nein veikindi nokkurn tíma á ævinni. Fyrir sirka einu og hálfu ári síðan byrjaði ég að fá einkenni í augun. Ég var byrjaður að fá litla blinda bletti í hægra augað. Það lýsti sér þannig að hluti af sjóninni var blörraður og þetta gerðist oft þegar ég var stressaður, undir álagi, var til dæmis á æfingu og var ekki búinn að drekka mikið vatn. Ég hélt að þetta væri stress eða vökvaskortur eða eitthvað þannig, svo fór þetta að gerast aftur og aftur og í eitt skiptið þá fór bletturinn ekki af auganu, þá var hann fastur í rauninni og hvert sem ég horfði þá sá ég þennan blett,“ segir Davíð.
Eins og allir sem hafa pantað tíma hjá augnlækni vita þá er venjulega löng bið eftir tíma. „Sem betur fer opnaðist tími sex mánuðum áður en ég átti tíma,“ segir hann.
Fyrsta áfallið var í augnlæknatímanum. Hann fékk þær fréttir að einhverjar æðar í auganu hans væru dauðar eftir blóðtappa í auganu. Það sem hann fékk ekki að vita strax var að skaðinn er varanlegur, en hann fékk fyrirmæli um að fara til heimilislæknis sem fyrst.
„Ég hélt að ég myndi fá einhverja augndropa og labba út,“ segir Davíð, sem hefði aldrei getað ímyndað sér atburðarrásina sem var rétt svo að byrja.
Enn og aftur var heppnin með honum í liði en hann komst samdægurs inn hjá heilsugæslunni sinni. Hann var sendur í alls konar mælingar og rannsóknir en ekkert fannst, allt var eðlilegt. Daginn eftir var hann sendur í blóðprufu en þetta var í fyrsta skipti sem hann fór í blóðprufu, en alls ekki það síðasta.
Eftir blóðprufuna kom í ljós að Davíð væri með of mikið af eósínófílum, sem er tegund af hvítum blóðkornum. Tilgangur þeirra er að vernda líkamann gegn ofnæmi, sýkingum og illvígum sjúkdómum. „Ég var með allt of há gildi. Ég var með hundrað sinnum hærri gildi en ég átti að vera með,“ segir hann.
Davíð var sendur í aðra blóðprufu og fór svo í vinnu. „Það var hringt í mig á meðan ég var í vinnunni og mér var sagt að drífa mig niður á bráðamóttöku því blóðlæknarnir vildu fá mig þangað strax,“ segir hann og bætir við að þetta símtal hafi verið ákveðið áfall.
Þessi dagur átti bara að vera eins og hver annar, Davíð var með pítsadeig í bílnum en hann og Dagný ætluðu að elda saman og hafa það notalegt. Í stað þess fóru þau upp á bráðamóttöku þar sem tók við löng bið.
Mörgum klukkustundum síðar var Davíð beint inn í herbergi með sjúkrarúmum. „Ég fór þangað inn og beið, mér var sagt að ég væri að bíða eftir lækni. En svo byrjuðu þau að koma með fötin, sjúkraföt og allt þannig. Þá fattaði ég að ég væri að fara að gista þarna í nótt. Þá varð ég svolítið stressaður, ég hafði aldrei þurft að gista á spítala á ævinni áður. Ég var ekki alveg viss hvað væri að gerast.“
Davíð var sendur í hjartaómun en allt virtist í lagi. „Við tóku nokkrir dagar af mjög mikilli óvissu.“
Hann fór í fimm blóðprufur á dag og það var verið að fylgjast með öllu, hann var settur á stera til að ná hvítu blóðkornagildunum niður.
„Það var ekki vitað hvort þetta væri eitthvað illvígt krabbamein, blóðsjúkdómur eða eitthvað annað. Það var verið að reyna að gera allt til að lækka gildin,“ segir Davíð.
„Ef maður er með svona há hvít blóðkorn þá getur það til lengri tíma valdið skaða á líffærum og innri starfsemi líkamans.“ Það er ekki vitað hversu lengi Davíð var með svona há gildi áður en hann komst undir læknishendur, hvort það hafi verið hálft ár, eitt ár eða nokkur ár, hann var alveg einkennalaus þar til sjónin fór að trufla hann.
„Mér leið fullkomlega eðlilega, ég var í mínu besta formi allra tíma. Aldrei liðið jafn vel, aldrei verið jafn orkumikill, aktífur, það var ekkert svona klassískt einkenni sem margir fá þegar þeir eru að greinast með krabbamein eða blóðsjúkdóm.“
Davíð fór ekki heim eftir heimsóknina á bráðamóttökuna. Hann var lagður inn og dvaldi þar í mánuð á meðan læknar reyndu að finna einhverja skýringu á ástandi hans.
„Ég fór í gegnum öll test sem hægt var að fara í. Ég fór í segulómun, jáeindaskannann, ég fór í ómun í líffærum, ég fór í ótal blóðprufur, ég held ég hafi farið í yfir hundrað blóðprufur á þessum tíma, bara allt testað. Röntgen myndir af öllu, reynt að leita að hvað þetta gæti verið,“ segir hann. „Það sást ekki neitt, það fannst ekki neitt.“
Davíð var færður á krabbameinsdeildina. „Það voru mjög þung skref að ganga þangað inn, þegar maður heyrir orðið krabbamein þá hugsar maður það versta.“
@davidgodiiErfiðasta árið til þessa ❤️♬ original sound – Davíð Goði
Læknar komust að niðurstöðu um hvað væri að hrjá Davíð, eða eins ítarlegri niðurstöðu og hægt var að komast að.
„Í dag er formlega orðið, eða heitið yfir sjúkdóminn idopathic hypereosinophilia with end organ damage, sem þýðir bara óútskýrð eósínófílía sem veldur að lokum líffærabilun ef það er ekki meðhöndlað,“ segir hann. Eins og nafnið gefur til kynna er ekki vitað hvað veldur þessu ástandi, einnig er þetta mjög sjaldgæft.
„Ég er í rauninni eini á landinu sem er með þetta og mögulega bara einn af þeim fáu í heiminum. Það eru ekki til nein dæmi sem læknarnir fundu sem var eins og mitt tilfelli,“ segir hann.
Davíð segir að það hafi verið blendnar tilfinningar að greinast með svona sjaldgæfan sjúkdóm.
„Það var bæði léttir í því og líka frekar mikið áfall, af því að þetta er ekki þá margt af þessu sem læknarnir héldu að þetta væri, bráðahvítblæði, krabbamein eða æxli einhvers staðar í líkamanum, þannig það var gott að vita að þetta var ekkert af þessu. En samt vill maður ekki vera með eitthvað sem er ekki hægt að meðhöndla eða læknar kunna ekki að meðhöndla.
Það sem þeir byrjuðu að gera var að prófa bara öll lyf, prófa allar töflur við alls konar hvítblæðum og öðrum krabbameinssjúkdómum. Sum virkuðu smá og önnur virkuðu ekki neitt.“
Eftir mánaðardvölina var Davíð sendur heim og átti að mæta reglulega í skoðun. Hann fór þrisvar í viku í blóðprufu, hitti lækna og gekkst undir ýmsar rannsóknir. „Það kom ekkert meira í ljós,“ segir hann.
Við tók þriggja mánaða tímabil þar sem Davíð var látinn prófa alls konar lyf til að finna út hvað virkaði fyrir hann. „Sem endaði á því að við fundum þessi tvö lyf sem virka vel saman og eru núna lyfin sem ég er á í dag,“ segir hann.
„Þau halda þessu niðri í nokkuð góðum gildum án þess að hafa mikil áhrif á mig.“
Davíð fór í mjög þunga og erfiða meðferð í Svíþjóð. Fyrir það fékk hann að vita að það væru 99 prósent líkur að hann yrði ófrjór eftir meðferðina, sem var mikið áfall þar sem hann og konan hans voru búin að ákveða að hefja barneignir á árinu. Honum tókst að frysta sæði hjá Livio en hjónin fengu einn mánuð, eina tilraun til að eignast barn með náttúrulegum hætti fyrir meðferðina. Það tókst og hugsaði Davíð til ófædda sonar síns þegar hann lá í sjúkrahúsrúminu í Svíþjóð í baráttu um að lifa af. Hann lítur nú björtum augum fram á veginn og bíður spenntur eftir nýju hlutverki, föðurhlutverkinu.
Davíð ræðir þetta allt í spilaranum hér að ofan, einnig er hægt að hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgstu með Davíð á Instagram og TikTok. Hann heldur einnig úti heimasíðunni DavidGodi.is