„Ég lofaði mér að tapa ekki sjálfri mér vega kvíða, stress, áfalls og höfnunar. Ég var ákveðin að byggja upp sjálfstraustið aftur sem var horfið eftir allt sem hafði á undan gengið,“ segir hún.
Vala Grand skaust fram á sviðsljósið fyrir fimmtán árum og nutu raunveruleikaþættir hennar, Veröld Völu Grand, mikla athygli. Faðir hennar, Einar Valur, vakti mikla athygli í þáttunum, ekki síst fyrir að standa þétt við bak dóttur sinnar.
Einar Valur lést í september 2023 eftir erfiða baráttu við krabbamein. Það var mikið áfall fyrir Völu, en þau feðgin höfðu alla tíð verið mjög náin. Hún ræddi um föðurmissinn í Fókus, spjallþætti DV, fyrir hálfu ári síðan.
Í dag ræðir hún um það sem hefur gerst undanfarna sex mánuði, hvernig hún hefur tæklað sorgina og sjálfsvinnu eftir sambandsslit, hvernig hún kláraði draumanám föður síns og fann ástina á ný.
2023 voru mikil tímamót í lífi Völu. „Það var árið 2023 sem makinn minn hætti með mér eftir margra ára samband. Nokkrum mánuðum seinna dó pabbi úr krabbameini í brisinu,“ segir Vala.
„Fyrrverandi vissi að pabbi væri að fara deyja, sem var frekar glatað af honum og orð hans, eða loforð, voru að vera alltaf mér við hlið og enda saman í þessu lífi. En svo var það ekki því hegðun hans ætti að sýna annað. Ég hafði aldrei upplifað jafn mikinn sársauka og þá byrjaði þetta trauma, hræðsla við höfnun.“
Vala segir að hún hafi þróað með sér annað áfall eftir að pabbi hennar dó. „Það kallast á ensku thanatophobia, sem er mikil hræðsla við dauðann. Þar byrjaði traumað að skiptast á milli höfnunar og lífshræðslu.“
„Það er líka erfitt að hugsa til þess að pabbi mun aldrei sjá mig giftast og ganga með mér upp að altarinu. Það er búið að vera erfitt að sætta mig við það, líka að hann muni aldrei kynnast framtíðareiginmanni mínum,“ segir hún.
Vala segir að hún hafi ekki vitað hvar hún ætti að byrja, við hvaða tilfinningar hún ætti að takast á við fyrst.
„Ég var virkilega orðin hrædd um mig svo ég leitaði mér aðstoðar, bæði hjá sálfræðingi og mínu nánasta fólki. Ég var dugleg að tala og tjá mig um hvað væri í gangi í hausnum mínum og sálinni. Ég er svo heppin að eiga gott fólk í kringum mig sem er til staðar. Því yfirleitt er ég alltaf sú manneskja sem er til staðar fyrir alla og geri allt sem ég get til að hjálpa öðrum.“
Í kjölfarið byrjaði Vala að skrifa hvatningarorð til sín. „Sem hjálpuðu mér á næsta skref í bataferlinu og byggja mig upp aftur andlega. Ég setti miða á spegilinn og alltaf þegar ég vaknaði og fór á klósettið sá ég: „Þú ert nóg og dugleg og helvíti skemmtileg manneskja. Og þú hefur mikla ást til að gefa. Ég er að segja þér það, þetta virkar,“ segir hún.
„Svo var næsta stóra skref að skrifa niður á blað hvað ég vildi gera næst í lífinu og tryggja að ég myndi standa við það sem ég lofaði pabba mínum eftir að hann dó, að ferðast og læra eitthvað á tölvur,“ segir Vala.
„Ég man það svo vel þegar ég stóð grátandi við gröfina hans, í tilfinningaflækju að upplifa mikið áfall og höfnun á sama tíma, þetta var að gera mig geðveika og hrædda við lífið.“
Vala rifjar upp eina heimsókn í kirkjugarðinn. „Ég eyddi tveimur tímum í rigningarstormi við gröfina hans pabba, talaði við sjálfa mig og ímyndaði mér hverju hann myndi svara, ég spurði hvort ég væri nóg, hvað ég ætti að gera næst og hvaða lærdóm ég ætti að draga af þessu öllu og hvaða ráð hann myndi gefa mér.
Ég fór síðan heim og sá blaðið þar sem ég hafði skrifað á næstu mögulegu skref, ég sá hvað var undirskrifað: „Tölvur“ og búmm, þá kviknaði á ljósaperu. Ég skráði mig í kerfis- og netstjórnun í febrúar 2024.
Vala fann fyrir miklum drifkrafti. „Ég var svo ákveðin að gera þetta að ég google-aði, horfði YouTube og glósaði mikið áður en námið byrjaði. Ég var líka – og er enn þá – að vinna 2-2-3 næturvaktir. Þetta var mikið álag, á sama tíma og ég var að kljást við allar þessar tilfinningar. Ég var líka dugleg í ræktinni þannig það var nóg að gera,“ segir Vala.
„Ég man svo vel eftir því hvað mér leið vel að ná prófunum eftir fyrstu önnina. Ég fékk 8,4 í lokaeinkunn og það var svona: „Já, ég er frábær, klár, metnaðarfull,“ og ég fékk smá egóbúst.“
Með tímanum byrjaði Vala að eiga auðveldara með að draga andann og vera hún sjálf. Sjálfstraustið kom aftur og var Vala farin að hlakka til framtíðarinnar. „Ég var farin að sjá hvert líf mitt stefndi og það var jákvætt,“ segir hún.
Vala hélt sjálfsvinnunni áfram. „Næsta skref var að díla við höfnunina og svikin og læra að treysta aftur,“ segir hún.
Vala henti sér í djúpu laugina, fór á stefnumót og kynntist fólki aftur. „Sem var ógeðslega erfitt fyrir mig því ég var búin að ganga í gegnum svo mikið, með brotið hjarta og var búin að missa vonina. En í þetta skipti skrifaði ég niður á blað hvernig maka ég vildi kynnast og hverju ég var að leitast eftir. Ég nennti ekki að verða aftur fyrir vonbrigðum og deita bara til að deita, því ég var að leita að einhverjum til að verða gömul með, einhverjum með sambærileg áhugamál og ég,“ segir Vala.
Hún tók þessu alvarlega. „Hvert einasta stefnumót var eins og viðtal,“ segir hún og hlær.
„Ég sagði hvað ég vildi og hlustaði á aðra hvað þeir vildu. En ég fann enga tengingu, þá borgaði ég fyrir matinn og lét mig hverfa,“ segir hún og hlær aftur.
En síðan kom tengingin. „Ég fékk match á Smitten við myndarlegan mann að nafni Brynjólfur Gunnarsson.“
Áhugasvið þeirra er svipað en Brynjólfur starfar sem forritari hjá Vettvangi. „Hann er ástríðufullur maður með mörg áhugamál,“ segir hún.
„Hann er góður á rafmagnsgítar, hjólabretti, í gítarsmiði og klár í forritun. Hann er mjög tilfinningaþroskaður og skilningsríkur maður og það besta er að hann er alvöru maður sem kann að laga hús og allt sem því fylgir.“
Vala og Brynjólfur byrjuðu að tala saman. „Það byrjuðu að myndast tengsl og ég spurði hvort hann vildi fara á stefnumót og hann sagði já,“ segir Vala.
„En svona án gríns, á þessum tímapunkti leið mér eins og ég væri búin að gefast upp á ástinni, en ég vildi samt reyna einu sinni enn.“
Vala stóð á sínu og á fyrsta stefnumótinu sagði hún honum hverju hún væri að leita að og hvert hún væri að stefna í lífinu.
„Liggur við ég hafi bara rétt honum það sem ég var að leita að á viðskiptablaði nema í orðaformi,“ segir Vala og hlær.
„Hann sagðist vera að leita að því sama og ég og viti menn, eftir nokkra klukkustunda samræður komumst við að því að við erum alin upp með sömu gildi frá foreldrum okkar. Foreldrar hans hafa verið gift lengi, eins og mínir voru, og þessi almenna skynsemi að velja eina manneskju og halda í hana í gegnum súrt og sætt, að byggja upp líf saman.
Ég líka komst að því að maðurinn hafði verið einhleypur í níu ár því hann vildi einblína á starfsferilinn og ég virði það mjög mikið við hann, að hafa hugsað um sig sjálfan því ég geri það sama.“
Þau voru ekki sammála um hver ætti að borga á fyrsta stefnumótinu. „Þegar við vorum búin að borða ætlaði ég að borga fyrir matinn en hann neitaði og afgreiðsludaman horfði bara á okkur og sagði: „Cute,“ þegar við vorum að þræta yfir hver ætti að borga. Við reyndum bæði að afhenda henni kortið á sama tíma,“ segir Vala og hlær.
„Og allt í einu, eins og þruma úr heiðskíru lofti, hvarf þessi ógeðslega höfnunartilfinning. Ég horfði í augu hans og beint inn í sálina hans og hugsaði að þessi maður gæti verið sá sem ég gæti byggt líf með.
Á þessu augnabliki fann ég hvers verðug ég er, að ég væri víst nógu góð fyrir einhvern sem kann að meta mig og sjá mig alla, bæði kosti og galla.“
Nú er hálft ár liðið og eru þau enn jafn ástfangin og hamingjusöm. „Við erum spennt fyrir framtíðinni. Plús, hann er líka svo stoltur að eiga mig sem kærustu og ég stolt að kalla hann kærasta minn. Hann er líka duglegur að hvetja mig áfram og öfugt,“ segir hún.
Vala segir að þau séu öflugt teymi og aðstoða hvort annað að elta draumana.
„Ástin frá honum hefur læknað stórt ör í sálinni og það er ekki eitthvað sem ég tek sem sjálfsögðum hlut,“ segir Vala.
„Í dag er komið ár síðan ég var brotin manneskja, í áfalli að kljást við höfnun og áfallið að missa pabba minn. Í dag hef ég klárað námið og er komin með diplómu í kerfis- og netstjórnun frá NTV með 9,1 í meðaleinkunn og 10 í verklýsingu.
Ég er stolt að segja frá því að ég hafi uppfyllt loforðið til föður míns. Það sýnir bara að ef maður leggur sig fram hundrað prósent þá skilar það sér alltaf.“
Vala er ekki hætt að mennta sig og ætlar að halda áfram, með fókus á forritun og netöryggi. „Og fleira skemmtilegu sem tengist tækniþróun og ætla að halda áfram með minn ævintýranámsferil í upplýsingatækni,“ segir hún.
„Jæja, núna hefur þú lesið um hvernig ég dílaði við höfnun og föðurmissi, allt sem ég gekk í gegnum á einu ári. Vonandi hjálpar það einhverjum að vita að það sé hægt að finna vonina aftur.
Það sem mig langar að segja við þig, kæri lesandi, er að sama hvað þú ert að kljást við í þessu lífi þá skaltu ekki gleyma að við eigum eitt líf og stundum koma erfiðar stundir í lífinu þar sem þér finnst þú ráðalaus, en þá er gott að leita sér aðstoðar og finna lífsstefnu, halda áfram og ekki gefast upp. Því lífið er fallegt og hefur margt upp á að bjóða ef þú leyfir því að gerast.
Ég vil líka minna þig á að lífið er bara ein stór upplifun, óskrifuð bók, svo ekki gefast upp. Gerðu eitthvað sem þú getur verið stolt/ur af. Eitt skaltu líka alltaf passa, hverjum þú treystir í þessu lífi. Mundu að munnlegu loforði er ekki alltaf treystandi heldur er það framför sem skilar árangri. Framför er tilgangslaus þegar þú ert ekki sú sem hann velur, því í lok dags skiptir ekki máli hver særði mann, heldur hver fær mann aftur til að brosa. Og ég óska öllum gleðilegs nýs árs.“