Aðdáendur Dennis Quaid gagnrýna blaðamann fyrir að hafa tekið viðtal við leikarann þar sem hann rýmir heimili í Los Angeles.
Blaðamaður NBC í Los Angeles, Robert Kovacik, hefur mátt sæta gagnrýni áhorfenda eftir viðtal sem hann tók við leikarann Dennis Quaid. Leikarinn er á fullu að fylla bíl sín og rýma heimili sitt í Brentwood í Kaliforníu vegna gróðureldana sem þar hafa geisað síðastliðna viku.
„Ekki taka viðtal við Dennis Quaid á meðan hann reynir í ofvæni að pakka eigum sínum við rýmingu,“ skrifaði einn aðdáandi á X.
„Sannarlega einn versti sníkjudýra-paparazzi sem ég hef séð,“ skrifaði annar. „Þetta hélt áfram í svona 20 mínútur, þessi náungi áreitti Dennis Quaid og var fáránlega óviðeigandi að fara yfir mörk hans og ráðast inn í friðhelgi einkalífs á meðan Quaid er að reyna að rýma.“
„Félagi! hann hefur ekki tíma til að tala. Hver sekúnda sem þú sóar er eitthvað dót sem hann getur ekki tekið með sér.“
Quaid var kurteis þegar hann talaði við Kovacik og notaði meira að segja viðtalið til að benda íbúum á að skrúfa fyrir gasið áður en þeir rýmdu heimili sín. Á öðrum tímapunkti í spjalli þeirra hugsaði hann um lærdóminn sem íbúar mættu draga af áfalli sínu nú þegar stór hluti borgarinnar brennur til grunna.
„Reynsla okkar af raunveruleikanum getur breyst á hverju augnabliki,“ sagði Quaid sem sagðist hafa snúið aftur heim til sín með hundinn sinn, Peaches, til að úða niður þakið sitt og hjálpa nágrönnum ef þörf krefði.
„Við höfum verið heppin,“ hélt hann áfram. „Ég á svo marga vini sem hafa misst húsin sín. … Við erum að berjast eins og við getum til að bjarga borginni okkar.“
Framkoma leikarans vakti hrifningu á samfélagsmiðlum, þar sem einn aðdáandi skrifaði: „Þetta viðtal var skrýtin blanda af furðulegu, kómísku, hjartnæmu og nokkuð óþægilegu… en það sem ég lærði af því er að Dennis Quaid virðist vera mjög góður náungi. ”
Brentwood er í hættu vegna gróðureldana sem hófust á þriðjudag í Pacific Palisades. Á laugardaginn komu fyrirmæli um rýmingu í Brentwood.