Hlaðvarpskóngurinn, rekstrarmaðurinn og lífsstílsþjálfinn Helgi Jean Claessen hugsar vel um heilsuna og hefur í gegnum árin komið sér upp skotheldri morgunrútínu. Hann byrjar alla morgna á því að fara út að hlaupa með hundinn sinn, sama hvernig viðrar, svo fer hann í kalt bað. Fyrir suma hljómar þetta kannski eins og klikkun, en fyrir Helga virkar þetta. Hann tekur það þó fram að hann hafi ekki byrjað þarna, heldur var fyrsta skrefið hænuskref og áfram gekk það þannig.
Helgi ræðir morgunrútínuna nánar í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér, eða Spotify.
Áður fyrr snerist morgunrútína Helga bara um að vakna og koma sér í gang. „Morgunrútína mín áður var kannski bara að drulla mér fram úr og gera eitthvað til að koma mér í gang og vera ekkert að velta því fyrir mér nákvæmlega,“ segir Helgi og bætir við að útlitstengdur árangur sé ekki markmiðið, en það er eitthvað sem hann kennir á sínum námskeiðum.
„Af öllu sem ég er að kenna þá skiptir ekki máli hvernig fólk lítur út eftir mánuð. Fyrir mér eru útlitslegar breytingar bara eitthvað sem getur verið litið á sem ávöxtur af hinu innra,“ segir hann.
„Ef þér líður vel, þá byrjarðu að líta vel út. Vandinn er að fólki finnst það líta illa út og fer að refsa sér meira og líða illa yfir því og heldur að það getur komist í gott form þannig, það fer að rækta vanlíðan.“
„Það sem ég geri alla morgna, ég er náttúrulega minn eigin yfirmaður, ég gerði heilmikið til að komast þangað, það var ekki auðvelt að verða sinn eigin herra, en það sem ég geri, ég fer út alla morgna með hundinn minn og hleyp tvo kílómetra og svo fer ég í kalt kar beint eftir á,“ segir hann.
Helgi gerir þetta alla daga vikunnar, sama hvernig viðrar.
„Eitt með venjur, þetta var ekki svona í upphafi,“ segir Helgi og útskýrir hvernig þetta byrjaði sem 200 metra hlaup suma morgna.
„Svo fannst mér þetta svo gott og fór að gera þetta alltaf, að labba eða hlaupa 200 metra til að fá súrefnið inn,“ segir hann.
Í kjölfarið fór Helgi hlaupa lengra og lengra og er nú kominn með skothelda morgunrútínu sem virkar fyrir hann.
Hann útskýrir nánar hvernig hann kom sér á þennan stað, sneri vítahring í himnahring, í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Helgi er staddur á Balí og verður þar í mánuð. Hann er virkur á Instagram og leyfir áhugasömum að fylgjast með ferðalaginu.