Þær sögur hafa gengið um borgina að sá frægi skemmtistaður, Gaukur á Stöng, sem í seinni tíð er kallaðu Gamli Gaukurinn, heyri nú sögunni til og hafi vikið fyrir næturklúbbnum Fever. Svo er þó ekki.
Einn eigenda Gauksins, Gunnar Rúnarsson, upplýsir í samtali við DV að Gaukurinn starfi áfram í óbreyttri mynd en næturklúbburinn Fever taki yfir á næturhelgum. „Gaukurinn verður áfram. Það hefur einhver misskilningur verið í gangi en það er svo sem ekkert skrýtið í þessum bransa.“
Greinir hann frá því að Jón Pétur Vágseið komi inn í myndina með klúbb sinn Fever og fylli húsið af klúbbastemningu eftir miðnætti um helgar.
„Það hefur verið samdráttur á þessu sviði alls staðar og hjá okkur hefur verið lítið að gera eftir miðnætti, sérstaklega um helgar. Þannig að húsið stóð eiginlega autt og við ákváðum að prufa þetta.“
Á Gauknum verða áfram ýmsir viðburðir eins og tíðkast hefur. Karaeóke-kvöld á þriðjudögum halda áfram, en þau hafa verið mjög vinsæl, og lifandi tónlist og uppistand verða í boði af og til. Þess á milli er þægileg kráarstemning á Gauknum eins og hefur alltaf verið. Gunnar segir að danstónlist sé í boði á Fever, „ekki house og hiphop heldur danstónlist,“ segir hann með áherslu.
Fever opnaði á gamlárskvöld og því er lítil reynsla komin á starfsemina en Gunnar gerir sér vonir um að staðurinn verði vinsæll. „En það er of snemmt að segja til um hvernig þetta verður,“ segir hann.
Gaukurinn er staðsettur í svokölluðu Blöndalshúsi við Tryggvagötu í miðborg Reykjavíkur. Staðurinn var opnaður árið 1983, sex árum áður en áfengur bjór var leyfður á Íslandi. Bauð staðurinn upp á bjórlíki sem frægt varð og vinsælt á sínum tíma. Nær allan sinn rekstrartíma hefur Gaukurinn verið vinsæll tónleikastaður.