Í umræðuhópnum Visiting Iceland á samfélagsmiðlinum Reddit leitar ónefndur einstaklingur upplýsinga, að sögn fyrir hönd pólskrar vinkonu sinnar, um íslenskan mann í appelsínugulum jakka sem varð á vegi vinkonunnar fyrir nokkrum mánuðum en maðurinn hefur greinilega heillað vinkonuna sem getur víst ekki hætt að tala um hann.
Einstaklingurinn sem skrifar innleggið á Reddit er væntanlega frá Póllandi líka. Samkvæmt innlegginu voru maðurinn og konan bæði farþegar í flugi frá Íslandi til Katowice í Póllandi 20. desember síðastliðinn en eina flugfélagið sem þetta getur átt við um er Wizz Air. Ritari innleggsins óskar eftir því að komast í samband við manninn en frásögnin af kynnum hans og vinkonunnar hljóðar svo:
„Vinkona mín týndi símanum sínum á flugvellinum og hitti íslenskann mann í appelsínugulum jakka sem var svo góður að koma símanum aftur til hennar. Ef svo vill til að hann sér þetta og man eftir þessu segið honum að hann geti haft samband hér. Það væri gott fyrir okkur öll að heyra í honum því vinkona mín hættir ekki að tala um hann og það er að alveg að fara með okkur öll hérna í Póllandi.“
Miðað við samhengi innleggsins áttu þessi samskipti mannsins og konunnar sér stað á flugvellinum í Katowice en það er þó ekki fyllilega skýrt að það hafi ekki verið í Leifsstöð áður en flogið var af stað til Póllands.
Hvort þetta innlegg verður til þess að þessi pólska kona komist aftur í samband við íslenska manninn í appelsínugula jakkanum getur tíminn einn leitt í ljós.