Bent Marinósson, eigandi gitarskolinn.is, segir skemmtilegt fyrir fólk á öllum aldri að spila á gítar og geta haldið uppi stuðinu hvort heldur er í útilegunni eða partíinu. Bent hefur verið með námskeið og einkakennslu á netinu síðan á COVID tímabilinu og hefur þjónað áhugasömum gítarnemendum víðs vegar um land og heiminn. „Nemendur okkar koma víðs vegar af landinu og allt niður til Spánar og vestur til Los Angeles. Netið sannarlega tengir okkur auðveldlega saman.“
Síðastliðið haust byrjaði Gítarskólinn með fjögurra vikna námskeið sem Bent kallar „Gítarinn frá grunni“ og er hugsað bæði fyrir byrjendur sem vilja læra á gítar frá grunni eða þá sem hafa lært eitthvað áður og vilja dusta rykið af kunnáttunni. „Þessi námskeið hafa verið mjög vinsæl og hefur selst upp á þau öll þannig að við hvetjum fólk að vera snöggt til að ná sér í pláss á námskeiðunum.“
Bent kennir sjálfur á námskeiðunum en hann hefur yfir 20 ára reynslu í gítarkennslu. Honum er það mikið í mun að nemendur nái árangri.
Bent er ekki bara gítarleikari og gítarkennari heldur einnig lagahöfundur og útsetjari. Hann hefur leikið á gítar frá 12 ára aldri og hefur leikið með fjölda listamanna hérlendis sem erlendis og víða komið fram á tónleikum. Hann hefur tekið þátt í margvíslegum tónlistartengdum verkefnum svo sem hljóðupptökum, hljómsveitarstjórn og útsetningum. Meðal listamanna sem hann hefur unnið með eru Herbert Guðmundsson, Þór Breiðfjörð, Diljá, Stefanía Svavarsdóttir, Óskar Einarsson og margir fleiri. Bent starfar með nokkrum hljómsveitum um þessar mundir og eru það meðal annars blússveitin Blue Note Mojo sem lék á Blúshátíð Reykjavíkur og soul hljómsveitin Sálartetrið.
Bent segir að námskeiðið sé yfirgripsmikið en á því er farið yfir marga hljóma, alls um 30 talsins. „Þetta eru allir þeir helstu í „opinni stöðu“, þ.e. „vinnukonugripin“ ásamt fleiri nytsamlegum hljómum. Við lærum einnig að nota capo. Við förum mikið yfir áslátt og takttegundir, hvernig við getum nýtt okkur hljómana til að búa til fallegan, hljómfagran og taktvísan gítarleik. Í hverjum tíma eru æfingar sem við gerum til að styrkja það sem við höfum lært og byggjum þannig upp traustan grunn sem gerir framhaldið auðveldara. Eitt af því mikilvægasta í tónlist er að spila með öðru fólki. Við munum spila mikið saman og kennari ganga á milli og leiðbeina nemendum með tækni og fleira eins og þurfa þykir. Endurgjöf frá kennara er mikilvæg og til dæmis að hægt sé að leiðrétta tækniatriði áður en ef til vill slæmir vanar ná að setjast að hjá viðkomandi,“ segir hann og bætir við: „Námskeiðið er frábært fyrir þá sem vilja undirbúa sig að halda uppi stuðinu með gítarspili í partýinu eða útilegunni í sumar.“
Bent segir að eftir hvern tíma fái nemendur aðgang að kennsluefni á læstu vefsvæði með æfingum sem nemendur geta farið yfir og æft sig á milli tíma. Nánar má sjá um námskeiðin hans Bents á gitarskolinn.is.