Maður að nafni Daniel Willemos Olsen fagnar í einlægri Facebook-færslu ótrúlegum árangri sem hann hefur náð við að létta sig. Daniel hefur náð að grennast um alls 108 kíló og þá án aðstoðar lyfja eða læknisaðgerða. Með færslunni segist Daniel vilja kveðja manninn sem hann var og fagna nýju lífi.
Daniel sem veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um færsluna er ekki landsþekktur en öllu þekktari er bróðir hans leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson. Daniel segir að í ljósi þess sé kaldhæðnislegt að hann sé lítið gefinn fyrir athygli en hann hafi einfaldlega orðið að opna sig og birta myndir af þeim árangri sem hann hefur náð:
„Á þessum myndum er sama manneskja. Ég. Samt ekki. Ég sé tvo menn. Og mig langar að kveðja annan þeirra. Fyrir fullt og allt.“
Á myndunum sem hann birtir með færslunni má sjá þær ótrúlegu breytingar sem hafa orðið á Daniel.
Daniel útskýrir nánar hvers vegna það sé nauðsynlegt fyrir hann að opna sig með þessum hætti:
„Fyrir mína eigin geðheilsu, egóið mitt og aðallega til þess að segja bless við gamla mig fyrir fullt og allt. Fyrir 4 árum var ég 190 kg, virkilega þunglyndur, einmana, hræddur við umheiminn og fastur í vítahring þar sem ég huggaði mig með mat.“
Ástandið var orðið það slæmt að Daniel hafði lokað sig að mestu leyti af nema fyrir sínum allra nánustu:
„Ég hafði eingöngu hitt nánustu fjölskyldu í nokkur ár og mínir bestu vinir höfðu gefist upp á því að sjá mig nokkurn tímann aftur. Nánast enginn hafði séð mig svona feitan.“
Daniel ákvað hins vegar að þetta gengi ekki lengur og hófst handa við að létta sig algerlega af sjálfsdáðum:
„Það var annað hvort að duga eða drepast.. bókstaflega í mínu tilviki. 11 febrúar 2021 var dagurinn sem ég ákvað að léttast og á næstu 13 mánuðum missti ég 95 kg. Engin magaminnkun og ekkert Ozempic, bara viljastyrkur.“
Hann segir að móðir sín, Ingibjörg Halla Guttesen, hafi verið sinn helsti stuðningsmaður:
„Ég hefði aldrei getað þetta einn, mamma stóð mér alla leiðina. Á þessum tíma bjó ég ennþá með mömmu og við hjálpuðum hvort öðru frá fyrsta degi. Hún gerði þetta bara með mér. Það er ekki sjálfsagt. Svona stuðningur er ómetanlegur.“
Daniel segir leiðina að því að grennast svona mikið hafi ekki verið flókin:
„Eins erfitt og ég hélt að það væri að léttast, þá er það í raun sáraeinfalt. Borða minna en maður brennir. Kaloríur inn gegn kaloríum út. Við vitum þetta öll held ég. En stundum skortir manni hvatningu eða aga í að gera það sem er manni sjálfum fyrir bestu. Ég skipulagði máltíðir fram í tímann, taldi hverja einustu kaloríu og fylgdi planinu. Af því það skipti máli. Líf eða dauði. Ég vissi það.“
Samhliða þessum glæsilega árangri kviknaði hjá Daniel aukinn vilji og löngun til að gera eitthvað meira við líf sitt. Hann fann sér vettvang hjá Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu og þar fann hann meira að segja ástina:
„Allt mitt líf hélt ég að ég væri heimskur og gæti ekki lært en í Hringsjá lærði ég að læra, ég lærði að eignast vini á fullorðinsaldri og ég lærði að taka þátt í lífinu. Þökk sé Hringsjá öðlaðist ég nógu mikið sjálfstraust til að reyna nýja hluti og ég kynntist Anna Pechočová sem er unnustan mín í dag.“
Daniel segir að námið hjá Hringsjá hafi breytt öllu fyrir hann. Í kjölfarið fór hann í Háskólabrú Keilis og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf. Hann náði síðan að léttast um 13 kíló í viðbót og þá voru alls 108 kíló fokin.
Hann segir eina af ástæðunum fyrir að hann hafi ákveðið að opna sig með þennan árangur sé að kannski sjá einhver sem sé í sömu sporum og hann var að það sé leið út en hann vilji þó að það komist á framfæri hvað hann hafi þurft að ganga í gegnum og þá ekki síst til þeirra sem þekkja til hans:
„Það angrar mig að fólk sem ég hef ekki hitt í mörg ár hafi þessa mynd af mér í hausnum sínum þar sem ég er feitur og á sama tíma angrar það mig að þeir sem vita að ég léttist viti ekki hversu langt sokkinn og hversu þungur ég var orðinn.“
Daniel vill líka senda þeim sem lögðu hann í einelti vegna ofþyngdarinnar skilaboð:
„Þegar ég var að léttast var það hvatning fyrir mig að birta status þegar ég væri orðinn mjór sem eins konar „fuck you“ til allra þeirra sem lögðu mig í einelti en því meira sem ég léttist var mér alveg sama um þetta fólk.“
Daniel greinir frá því í færslunni að faðir hans hafi látist fyrr á þessu ári. Samband þeirra var ekki mikið en Daniel segir að þrátt fyrir það hafi andlát föður hans breytt afstöðu hans. Hann hafi ákveðið að undirgangast aðgerðir til að skera aukahúð af líkamanum en húð þeirra sem grennast svona mikið á það oft til að lafa. Daniel segist líka í kjölfarið hafa ákveðið að stíga fram og vera ekki lengur hræddur við athyglina:
„Athygli. Þegar maður er svona virkilega stór þá finnur maður fyrir starandi augnaráðum hvert sem maður fer. Að falla allt í einu inn í hóp af fólki er skrítin tilfinning þegar maður er öðru vanur. Ég vil ekki sóa tíma í að vera hræddur lengur.“
Daniel segist stundum sjá eftir því að hafa ekki reynt að léttast meira fyrr en hann vilji þó ekki breyta neinu. Hann er síðan að lokum með skilaboð til mannsins sem hann var:
„Allt það sem ég hef gert leiddi mig niður þá braut sem endaði hjá Önnu, unnustu minni, og fyrir það er ævinlega þakklátur. Að lokum vil ég segja við þennan gamla mig. Ég er ekki hræddur! Þú tapaðir! Ég vann! Vertu sæll. Að eilífu.“