„Þau sem lenda á þessum vegg er oft fólkið sem elskar vinnuna sína. Kafbátarnir, duglega fólkið, en ekki lata fólkið. Alls ekki. Þetta er fólkið sem þú vilt hafa í vinnu, þau sem elska vinnuna,“
segir Kristín Þóra Haraldsdóttir leikkona sem lenti í alvarlegri kulnun. Kristín Þóra fjallar um reynslu sína í einleiknum Á rauðu ljósi sem sýndur hefur verið við miklar vinsældir í Þjóðleikhúskjallaranum.
„Ég varð að gera eitthvað og ákvað að vera með uppistands-einleikssýningu, búa til efni um reynslu mína af því að lenda á vegg því ég lærði þá svo mikið um stress, streitu og áhrif þess,“ segir Kristín Þóra í samtali við Guðrúnu Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1.
Í sýningunni fjallar Kristín Þóra á einlægan en um leið bráðfyndinn hátt um kulnun og afleiðingar hennar. Hugmyndina að sýningunni fékk Kristín Þóra þegar verkefni sem hún var í var frestað og hún fór að velta fyrir sér hvernig hún gæti átt fyrir jólagjöfunum. „Ég varð að gera eitthvað og ákvað að vera með uppistands-einleikssýningu, búa til efni um reynslu mína af því að lenda á vegg því ég lærði þá svo mikið um stress, streitu og áhrif þess.“
Sýningarnar áttu að vera ein eða tvær, en eru að nálgast hundrað. Kristín Þóra segir marga hafa sagt við hana þegar hún var í kulnun að það væri flott hjá henni að stoppa og taka ábyrgð en hún segist ekki hafa haft val. „Ég var stoppuð. Líkaminn sagði algjörlega stopp og læknirinn sagði þetta er alvarlegt. Ég vissi ekki að maður færi á þann stað.“
Hún segir fólk koma til hennar eftir að sjá sýninguna og spyrja hvernig maður áttar sig á því að maður sé kominn á þennan stað og Kristín Þóra bendir á að bara með því að spyrja sig sé maður að sýna merki um það. Þá sé hyggilegt að byrja á að skoða hvar hægt sé að minnka streituna í lífinu og það sé til dæmis hægt með því að taka út streituvalda eins og að vera formaður foreldra- eða húsfélagsins eða að taka að sér önnur álíka verkefni.
„Það er mikið álag að vinna í leikhúsi. Ég var með úr á daginn þegar ég var að sýna og púlsinn var eins og að vera á hlaupabretti, það hefur áhrif á kerfið. Þú getur ekki haldið því endalaust áfram og svo skroppið í næturtökur eftir leikhúsið,“ segir Kristín Þóra sem segist ein þeirra sem aldrei melda sig veika í vinnuna og keyrði hún sig áfram þrátt fyrir þreytu og slappleika. Til að koma í veg fyrir að lenda í kulnun segir hún bjargráð að hlusta á skilaboð líkamans, ná stjórn á tökkunum innra með sér. „Hlusta á viðvörunarbjöllurnar og læra að forgangsraða.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.