Einstaklingur sem ekki lætur nafns síns getið segir frá því í færslu á samfélagsmiðlum að hann hafi nú um páskahelgina verið á leið í ferð til Íslands sem viðkomandi hafi lengi langað að fara í og hafi verið að fullu greidd, með miklum kostnaði. Um sólarhring áður en viðkomandi átti að leggja af stað dundi hins vegar yfir nokkuð, sem líklega má kalla martröð, sem eyðilagði ferðina, veggjalýs.
Ferðamaðurinn sem aldrei fór í ferðina segist hafa lengi langað að fara til Íslands en ekki haft tækifæri til þess fyrr en nú. Þegar hann hafi fyrir nokkrum mánuðum rekist á tilboð á flugferðum hingað til lands hafi hann loks látið slag standa og pantað ferðina:
„Ég hef verið að skipuleggja ferðina og hlakkað til hennar síðan þá.“
Ferðamaðurinn var búinn að kaupa flugmiða báðar leiðir, gistingu, bóka bílaleigubíl og skoðunarferðir og fjárfesta í fatnaði og öðrum útbúnaði til að vera viðbúinn hinu margbreytilega íslenska veðri auk þess að vera búinn að finna gönguleiðir. Ferðamaðurinn segist ekki einu sinni vilja hugsa um hversu mikið af peningum þetta allt kostaði því annars verði hann hreinlega líkamlega veikur. Segir hann að allt þetta hafi annaðhvort ekki verið mögulegt að fá endurgreitt eða þá að frestur til að óska eftir endurgreiðslu hafi runnið út:
„Ég hélt að ekkert myndi koma í veg fyrir að ég færi í þessa ferð.“
Sú átti hins vegar ekki eftir að verða raunin.
Um sólarhring áður en ferðamaðurinn átti að leggja af stað í ferðina til Íslands dundi ógæfan yfir. Viðkomandi segist búa í gömlu fjölbýlishúsi og að veggjalýs hafi fundist í íbúð nágranna hans. Ferðamaðurinn segist ekki hafa séð neinar veggjalýs í sinni íbúð en hann hreinlega hafi ekki viljað láta þá eins og ekkert væri:
„Ég gat ekki farið í ferðina með góðri samvisku og átt þannig á hættu að dreifa veggjalúsunum í flugvélinni, á gististaðnum o.s.frv.“
Ferðamaðurinn segist hafa þrifið íbúð sína hátt og lágt, tekið nánast allt í henni í sundur og reynt að ná sambandi við meindýraeyði. Hann hafi ekki enn séð veggjalús í íbúðinni en ætli samt ekki að taka áhættuna.
Ferðamaðurinn hefur því misst af draumaferðinni til Íslands. Honum segist líða mjög illa og ekki bæti úr skák sífelldar auglýsingar um Íslandsferðir sem birtist á snjalltækjum hans og heldur ekki tilkynningar í norðurljósaappi sem viðkomandi er með en ferðamaðurinn segir að samkvæmt appinu sé ekki ólíklegt að vart verði við norðurljós á Íslandi í kvöld.
Ferðamaðurinn segir að vegna vinnu og þess kostnaðar sem hann hafi lagt út fyrir vegna ferðarinnar, sem hann neyddist til að sleppa, sé alls óvíst hvort og þá hvenær hann muni loksins komast til Íslands. Segist hann með færslunni aðallega hafa viljað fá útrás fyrir þá sorg sem hann glími við yfir því að hafa neyðst með þessum hætti til að hætta við ferðina. Ferðamaðurinn sem komst ekki til Íslands er þó að reyna að vera bjartsýnn:
„Kannski á næsta ári.“