Aðsend grein frá Alkastinu:
Flosi hefur í áratugi verið gítarleikari einnar vinsælustu rokkhljómsveitar Íslands, HAM. Þar að auki er hann annar tveggja þáttastjórnenda í einu af vinsælustu hlaðvörðum landsins, Draugum fortíðar.
Flosi hefur í gegnum tíðina fengið að ganga grýttan veg alkóhólisma, þunglyndi og tilgangsleysi hversdagsins. Í dag er hins vegar eitthvað annað upp á teningnum því síðustu ár hefur Flosi verið laus frá alkóhóli og fundið meiri sátt í eigin skinni. Hann segir þó fjarri lagi vera svo að hann hafi fundið Guð eins og svo oft gerist þegar fólk finnur lausn úr þjáningu Bakkusar. Hann lítur á heiminn og mennina sem í honum eru sem algjöra ringulreið hugmynda og athafna. Í þessari ringulreið segir Flosi að leynist mikil fegurð og drifkraftur.
Lengi vel barðist Flosi við alkóhólisma og vanlíðan sem því fylgir.
Eftir að hann hætti að drekka komst hann að því að svartholið innra með sér hafði hann lengi reynt að fylla í með allskonar aðferðum. Lengi hélt hann að hin fullkomna kona myndi gera hann heilan en eftir að hann skyldi í annað skipti á sinni lífsleið tók hann ákvörðun um að prófa að vera einn og í því ferli segir hann að viss uppfærsla hefði átt sér. Hann fór að kynnast Flosa betur (eins klisjukennt og það hljómar). Hann upplifði að með því að finna sjálfan sig í einsemdinni hafi hann farið að upplifa náin vinasambönd við hitt kynið án þess að vera stanslaust með radarinn úti; þetta frumstæða og undirliggjandi afl sem hann segir að leynist í öllum karlmönnum; þörfin til fjölgunar.
Talið barst fljót að tilvist Galactic Federal sem Gunnar umsjónarmaður þáttarins er sannfærður um að séu í þessum töluðu orðum í aðgerð sem snýr að opinberun og uppfærslu vitundar mannsins í átt að meiri samkennd og þroska. Flosi segir að efasemda raddirnar sem í honum búa fari á fullt flug þegar talið berst að öllu yfirnáttúrulegu og því geti hann einfaldlega ekki trúað neinu sem ekki er hægt að færa rök fyrir. Þrátt fyrir að Flosi vill meina að að hann sé afar trúlaus maður voru allir sammála um að djúpt í honum leynist sterkur andlegur strengur.
Eitthvað var farið yfir hljómsveitina HAM í viðtalinu en hún er orðin að einskonar költ hreyfingu hér á landi með dyggan hóp aðdáenda. Hann segir hljómsveitina eins og þungt en skilvirkt stríðstæki þar sem efnið er hamrað af dýpt og þunga. Arnór rifjaði upp tónleika sem haldnir voru á skemmtistaðnum Tunglinu árið 1994 og áttu að verða lokatónleikar hljómsveitarinnar. Það gekk ekki eftir því enn þann dag í dag eru HAM-ararnir grjótharðir og slá ekkert af. Arnór hélt því fram að lengi vel hafi þessir tilteknu tónleikar verið þeir allra bestu sem hann hafi farið á, svolítið eins og að verða fyrir trúarlegri reynslu. Og það er einmitt það sem maður heyrir oft, að sveitin spili svo þétt og af þvílíkri samheldni að áhorfendur einmitt nánast falli í einskonar trans.
Flosi segir að HAM sé búin að ganga í gegnum súrt og sætt en að virðist sem þeir hafi loksins fundið taktinn sem snýr að meiri stöðugleika og bræðralagi, svolítið eins og að vera komnir í gegnum visst breytingaskeið þar sem sáttin við eigin dauða rís á kostnað örvæntingarfullrar sóknar í líf. Eða eins og Flosi sagði í byrjun viðtals: Þetta er ekkert nema tilgangsleysi, tilviljanir og þjáning.
Þetta magnþrungna og óhefðbundna samtal má sjá og heyra hér á spilaranum fyrir neðan ásamt að hægt er að nálgast alla þætti Þvottahússins á öllum helstu streymisveitum eins og Spotify.