fbpx
Þriðjudagur 01.apríl 2025
Fókus

Diplómati er drepinn í fyrstu glæpasögu Elizu – Lestu fyrsta kaflann hér

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 27. mars 2025 12:30

Eliza Reid. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrsta skáldsaga Elizu Reid, fyrrum forsetafrúr, Diplómati deyr kom út í dag. Bókin er spennandi og listilega fléttuð glæpasaga þar sem leyndarmálin eru afhjúpuð hvert af öðru.

Magnea J. Matthíasdóttir þýddi. Bókin mun koma út í apríl í Kanada og maí í Bandaríkjunum undir nafninu Death On The Island. Í Bretlandi verður titilinn beinþýddur, Death Of A Diplomat, og kemur bókin út þar í byrjun júní.

Hópur kanadískra diplómata verður veðurtepptur í opinberri heimsókn í Vestmannaeyjum, þar á meðal sendiherra Kanada á Íslandi og eiginkona hans. Á meðan óveðrið geisar úti fyrir snæða gestirnir saman hátíðarkvöldverð – en svo hnígur aðstoðarsendiherrann niður fyrir framan viðstadda. Fljótlega kemur í ljós að um morð er að ræða og ýmsir liggja undir grun: athafnamaðurinn sem svífst einskis í samningum, meistarakokkurinn sem reiðir fram dýrindis máltíðir úr nærumhverfinu og dularfulla myndlistarkonan sem er að opna sýningu á byggðasafni bæjarins … svo nokkrir séu nefndir. En sendiherrafrúin er hvergi bangin og ákveður að komast til botns í málinu upp á eigin spýtur.

DV birtir hér fyrir neðan með góðfúslegu leyfi Forlagsins inngang og fyrsta kafla bókarinnar. Útgáfuhóf er síðar í dag og má sjá viðburð á Facebook hér.

Inngangur

Myrkrið gleypti veröld Kristjáns á sólbjörtum miðvikudegi.
Áður en það gerðist var orðið bjart. Hrossagaukar kölluðust kátir á, hjuggu löngum nefjum í döggvott grasið og leituðu að feitum ormum. Leikskólabörn skríktu af gleði í eltingarleik. Ferðamenn í gönguskóm röltu eftir gangstéttum bæjarins og kíktu í búðarglugga. Við inngang minja- og bæjarskjalasafnsins feykti sumargolan laufunum til og frá. Það marraði í mölinni undir fótum Kristjáns á leiðinni að safninu.

Þegar hann var kominn inn flýtti hann sér gegnum aðaldyrð, framhjá brúnum ljósmyndum af sjómönnum snemma á tuttugustu öld, þreytulegum og alvörugefnum á svip, svunt- urnar blettóttar af slori og blóði.

Hann fann hann innst í anddyrinu. Líkið lá á hörðu steingólfinu með útbreidda arma. Látni maðurinn var í dýrum þröngum gallabuxum, vönduðum brúnum götuskóm og að sniðinni ljósbleikri skyrtu, ógirtri að hluta og efsta talan óhneppt svo að skein í hvítan bol. Farsími látna mannsins lá skammt frá honum með sprunginn skjá. Hárið var enn jafn tilkomumikið og í lifanda lífi – þykkt, liðað og grásprengt – allt eins og áður nema blettur fyrir ofan hægra eyrað, dökkur af storknandi blóði.

Stirðnað andlitið var ótrúlega hrukkulaust þótt maðurinn væri miðaldra. Fallegt hökuskarð, fáeinir skeggbroddar. En nú voru augun brostin og bláar varirnar hálfopnar eins og sálin hefði skilið við líkamann með undurléttu andvarpi. Það sem hafði gerst rétt fyrir dauðann hafði samt ekki verið sársaukalaust.

Kristján horfði á líkið á gólfinu. Hann féll á hnén. Hann lagði vangann á kunnuglega bringuna, greip um kalda hönd sem farin var að stirðna, hélt um hana og strauk lófann með þumalfingri. Mátti hann gera þetta? Koma við lík? Sýna því ástarhót? Honum stóð á sama. Hann ætlaði að vera svona þangað til einhver segði honum að hann mætti það ekki.

Gjá opnaðist í hjarta hans, eins og eldsprungurnar sem höfðu lagt þennan litla bæ í rúst fyrir hálfri öld og spúið eldi og eimyrju úr iðrum jarðar. Og rétt eins og þær sprungur myndi gjáin innra með honum valda ómældum skaða. Nú yrði ekki aftur snúið, engin orð sem lýstu sorg eða iðrun, fyrirgefningu eða ást myndu breyta nokkru. Nú var ekkert eftir nema áfallið og stuttu hinstu skilaboðin sem voru send fyrir einungis hálftíma síðan.

Komdu.

1. kafli (hluti 1)

Jane Shearer fékk sér stóran sopa af hvítvíni og vonaði að það gæti deyft sterkt anísbragðið af hvönninni í forréttinum.
Veitingahúsið Skel var þekkt fyrir rétti þar sem jurtir og annar gróður í Vestmannaeyjum fékk að njóta sín. Á þeim eina degi sem hún hafði verið hér hafði hún þegar séð að mikið af hvönn óx í nálægum hlíðum. Þótt efnið í forréttinum kæmi allt úr næsta nágrenni nægði það þó ekki til að vekja áhuga hennar. Ekkert gæti bragðast vel eftir svona dag.

Opinber tilgangur þessarar tveggja daga og nokkurra sjómílna ferðar til hinna myndrænu Vestmannaeyja var að opna myndlistarsýningu sem tengdist Kanada. Jane vissi aftur á móti raunverulegu ástæðuna fyrir því að maðurinn hennar, Graeme, var kominn hingað: til að þrýsta kurteislega á eiganda stærsta fyrirtækisins í Eyjum að opna næstu fiskvinnslustöð sína í sjávarbyggðum í Kanada.

Þannig var þetta alltaf í utanríkisþjónustunni. Á yfirborðinu virtist tilgangurinn með opinberum heimsóknum Graemes vera eitthvað ákveðið, en var í rauninni eitthvað allt annað. Eftir því sem Jane varð eldri og lífsreyndari gramdist henni þessi tvískinnungur sífellt meira.

Ekki svo að skilja að hún hafi kviðið fyrir ferðinni. Vestmannaeyjar höfðu verið á óskalistanum alveg frá því að þau Graeme fluttu til Íslands með tvíbura á unglingsaldri, fyrir rúmum fjórtán mánuðum, þegar hann tók við stöðu sem sendiherra Kanada.

Jane hafði lesið um fegurð grasigróinna klettaeyjanna sem umluktu Heimaey, einu byggðu eyjuna, eins og grænt varnarvirki. Hún hafði komist að því að eyjarnar voru nefndar eftir keltneskum þrælum – Vestmönnum – sem höfðu flúið út í eyjuna eftir átök uppi á landi á landnámsöld. Og hún vissi líka af skelfilega eldgosinu sem átti sér þar stað fyrir fimmtíu árum og lagði stóran hluta bæjarins í rúst.

Þótt haustveðrið væri sífellt viðsjárverðara hafði fegurð og saga eyjanna farið langt fram úr væntingum hennar. Jane átti samt erfitt með að njóta heimsóknarinnar. Fyrir fáeinum klukkutímum hafði hún ekki getað hugsað um annað en að þetta væri kannski síðasta ferðin hennar með Graeme og samtal þeirra um borð í ferjunni spilaðist hvað eftir annað í huga hennar, eins og eitt af Instagram-myndskeiðunum sem börnin hennar gláptu endalaust á. Svo var það rifrildið rétt fyrir kvöldmatinn – Graeme og aðstoðarkona hans öskrandi hvort á annað, eins og harðgift hjón fyrir framan alla á hótelbarnum – og hótanirnar sem komu í kjölfarið. Nú var það ekki bara hjónaband Jane sem hékk á bláþræði. Andrúmsloftið í borðsalnum var svo þrungið spennu að allt gæti farið í háaloft á hverri stundu.

Tveimur sætum frá henni við stóra borðið í einkaborðsal veitingastaðarins (af hverju tíðkaðist að aðskilja hjón í vinnuferðakvöldverðum?) sat Graeme, djúpt sokkinn í samræður við bæjarstjórann í Eyjum, Kristján Gunnarsson. Graeme kinkaði sköllóttum kollinum til samþykkis um eitthvað sem smekklega klæddur bæjarstjórinn hafði sagt. Bæjarstjórinn virtist glaður í bragði en Jane grunaði að það væri yfirvarp. Allir vissu að eiginmaður Kristjáns hafði dáið sviplega fyrir einungis tveimur mánuðum. Svipur Kristjáns sýndi engin merki um það, en Jane gat ekki varist því að velta fyrir sér hvort bæjarstjórastarfið væri þægileg innivinna sem dreifði huga hans eða enn ein byrðin sem íþyngdi honum.

„Hvað er þetta? Er þetta silungur?“
Jane leit á manninn hægra megin við sig pota hikandi í fagurlega skorinn fiskbitann á diskinum og brosti. Eftir allt sem hafði gengið á í dag var hún einstaklega fegin því að hafa haft vit á að bjóða vini sínum, Ben Rafdal, með í ferðina.

Honum gekk að vísu ekki vel að halda uppi léttu spjalli við kvöldverðarborðið, en hann setti samt menningarlegan glans á sendinefndina. Heimsfrægur rithöfundur kom ekki á hverjum degi í lítinn bæ á afskekktri eyju, hvað þá höfundur sem var að hluta af íslenskum ættum.

„Þetta er bleikja,“ svaraði Jane.
„Af hverju er hún eins og sellerí á bragðið?“
„Ég held að það sé hvönn.“
Ben yppti öxlum og stakk upp í sig bita. Jane beindi athyglinni aftur að hinu fólkinu við borðið.

Kavita Banerjee, hægri hönd Graemes í kanadíska sendiráðinu, einblíndi á yfirmann sinn og hvolfdi í sig víni. Súpa, stara, súpa, stara. Jane vissi að Kavita átti óuppgerðar sakir við Graeme, en eftir það sem gerðist fyrr um daginn var hún hrædd um að það væri gagnkvæmt. Jane gat að vísu ekki láð aðstoðarsendiherranum óvildina í garð Graemes (eftir þennan morgun hafði tilfinningapendúll Jane sveiflast langt frá ást á honum) en hún treysti Kavitu ekki heldur.

Sítt, dökkt hár Kavitu var greitt í fastan hnút í hnakkanum og í fylgd með henni var maðurinn hennar, Rahul, í sinni fyrstu diplómatísku ferð sem varði lengur en einn dag. Hann sat auðvitað ekki við hlið konu sinna heldur tveimur sætum til hægri frá henni. Jane hafði tekið eftir því að Kavita kom iðulega fram við betri helminginn eins og velklæddan fylgihlut og Jane virti það við hann hve vel honum tókst að stilla sig um að kvarta. Eitthvað var samt á seyði á milli þeirra núna; hann hafði margoft gotið augunum áhyggjufullur á konuna sína allan daginn. Ekki svo að skilja, hugsaði Jane, að hún væri í aðstöðu til að gagnrýna hjónabönd annars fólks.

Rahul var að tala við Lindu Jónsdóttur, eiginkonu framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Bláhafsins, Þórs Magnússonar. Hún var aðlaðandi, miðaldra kona í níðþröngum svörtum kjól með listrænu gráu mynstri sem lífgaði upp á dökkan bakgrunninn og gerði kjólinn svipmeiri. Í axlasíðu ljósu hárinu, miklu og þykku, voru strípur í þremur litum. Jane heyrði ekki hvað þau sögðu en af Rahul skein einlægni sem Jane hafði ekki séð hjá honum áður. Hann var greinilega að segja henni eitthvað merkilegt en Jane hafði ekki minnstu hugmynd um hvað það gæti verið. Þegar allt kom til alls var Rahul nýbúinn að kynnast þessari konu.

Hins vegar var það eiginmaður Lindu sem Graeme þurfti að ná bestu sambandi við. Þór brosti til kanadíska sendifulltrúans vinstra megin við sig og sjálfsöryggið skein af tæplega tveggja metra háum risanum.

Og kvenmaðurinn sem þessi kvöldverður átti að nafninu til að snúast um, konan sem ætti að njóta mestrar athygli af því að sýningin hennar yrði opnuð á morgun, sat vinstra megin við Jane. Hanna Kovacic. Jane átti erfitt með að leyna andúð sinni á henni.

„Hvannarbragðið er mjög yfirgnæfandi,“ sagði Jane við Hönnu og ýtti til matnum á diskinum með gafflinum sínum til að hún liti út fyrir að hafa borðað meira en hún hafði gert.

„Til þess er þetta,“ sagði Hanna og lyfti vínglasinu brosandi. Jane setti upp sams konar bros og lyfti líka sínu glasi.

Regn tók að bylja á gluggunum, fauk skáhallt á rúðurnar í hvössum vindhviðunum.

„Íslenskt haust,“ sagði Hanna. „Þegar ég bjó hérna í bænum rigndi einu sinni samfellt í tvo sólarhringa.“

„Heldurðu að þetta verði mikið óveður?“ spurði Jane.

Hanna yppti öxlum. „Við ráðum ekkert við það.“

Graeme sló laust í vatnsglasið sitt og ræskti sig. Samræðurnar þögnuðu um leið og sendiherrann stóð upp.

„Gott kvöld, góðir gestir. Mig langaði að segja fáein orð til að þakka gestgjafa okkar í kvöld, Kristjáni Gunnarssyni bæjarstjóra.“ Hann hélt áfram með almennum lofsyrðum um fegurð Vestmannaeyja, hve listin væri dýrmæt og hvað sterk og gagnkvæm vinabönd milli Íslands og heimalands hans, Kanada, væru mikilvæg. Jane var fegin því að opinberar heimsóknir eins og þessi fylgdu oftast sama sniði: sambland af menningarferð, heimsókn í fyrirtæki á staðnum og kvöldverður til að styrkja vináttuböndin. Graeme gat að mestu uppfyllt skyldur sínar á sjálfstýringu þótt Jane hefði komið honum óþægilega á óvart fyrr um daginn.

Jane sá að Kavita ranghvolfdi augunum á meðan yfirmaður hennar talaði. Diplómatanum hafði margoft mistekist að hemja óþolinmæðina þennan dag. Jane hafði áður fundið til meiri samkenndar með henni en margir aðrir. Hafði Jane ekki iðulega sjálf þurft að bæla niður svipuð viðbrögð við upptuggukenndum ræðum mannsins síns? Núna átti hún bágt með að hugsa hlýlega um Kavitu.

„Kristján bæjarstjóri,“ Graeme sendiherra kinkaði kolli í átt til hans, „það er sönn ánægja að heimsækja þennan einstaka bæ og fá að kynnast því ótrúlega fólki sem hér býr. Og Þór Magnússon, minn nýi og góði vinur, mér þótti ótrúlega mikið koma til framsækinnar hátækni Bláhafsins og sjálfbærninnar sem þið ástundið. Þú ert sannkallaður hugsjónamaður á þínu sviði. Mér er sagt að íslenska orðið bláhafið merki ‘hafið bláa’ og ég veit að fyrirtækið þitt hefur það að leiðarljósi að vernda hafið og auðlindir þess.“

Þór kinkaði kolli með þrautþjálfuðu yfirbragði manns sem er vanur svona hrósi. Hinum megin við Graeme starði Kristján bæjarstjóri á diskinn sinn. Missýndist Jane eða kom fjörfiskur í kjálka hans þegar Graeme hrósaði sjávarútvegsfyrirtækinu?

„Nú skulum við lyfta glösum og skála fyrir Hönnu Kovacic og list hennar, fyrir íbúum Vestmannaeyja og vináttunni.“ Graeme lyfti glasi og allir viðstaddir supu á drykkjum sínum, sumir af meiri áfergju en aðrir. Hann settist og fólk fór aftur að tala saman.

Ben hallaði sér yfir Jane og að Hönnu. „Ertu stressuð fyrir opnuninni á morgun?“ spurði hann og lyfti annarri augabrúninni.

Jane stundi í hljóði. Ben hóf allar samræður við konur á daðri og stundum fóru kvennagullstaktar hans í taugarnar á henni. Kannski af því að nú var hún komin yfir fertugt en átti samt enn erfitt með að tala við ókunnuga og jafnvel kunningja sína af sama sjálfsöryggi og hann.

Hanna virtist samt ekki vera í skapi fyrir neitt daður.

„Ég er ekkert stressuð yfir verkunum mínum,“ svaraði hún róleg í bragði. „Ég hlakka til morgundagsins. Og ég er þakklát sendiráðinu fyrir stuðninginn, fyrir allt erfiðið sem Graeme – Shearer sendiherra – hefur lagt á sig.“

„Því trúi ég vel,“ sagði Ben. „Ég get ekki ímyndað mér hvernig var að búa hérna eins og þú gerðir. Frá því að við komum með ferjunni í dag hef ég hitt marga sem þekkja sama fólk og ég. Það hlýtur að vera ómögulegt að eiga nokkur leyndarmál hér þar sem allir þekkja alla.“

„Ekki ef maður veit hvernig á að fara að því,“ svaraði Hanna.

Flöktu kertin eða sá Jane Hönnu blikka Ben um leið og hún svaraði?

Þegar næsti réttur var borinn á borð tíu mínútum síðar hrasaði eigandi og yfirkokkur Skeljar, Piotr Tómasson, þegar hann gekk fyrir hornið á borðinu. Ögn af sýrðum rjóma af fati með meðlæti slettist á lærið á Hönnu. Hún hvessti á hann augun og strauk slettuna af sér með servíettunni.

„Afsakaðu,“ stamaði hann. „Aðstoðarkokkurinn hafði sósuna of þunna.“

Hanna bandaði honum frá sér. „Þetta verður allt í lagi.“

Kokkurinn fór að hinni hlið borðsins og Ben sneri sér að Jane.

„Þetta var ekki óvart. Sumir karlmenn þola ekki sambandsslit.“

Jane lyfti brúnum.

„Ég sá þau saman fyrr í dag,“ útskýrði Ben. „Ég er næmur á strauma og þögul samskipti milli fólks eftir allar mínar rannsóknir.“ Honum tókst ekki að gera sér upp hógværð, ef hann hafði ætlað sér það. „Þér er óhætt að trúa því að þetta skein beinlínis af þeim.“ Hann fékk sér sopa. „Það lék enginn vafi á því að þau höfðu séð hvort annað nakið.“

Jane beit á jaxlinn. Hvernig gat Ben eiginlega vitað það? Hún rifjaði upp það sem hún hafði séð í ferjunni um morguninn og reyndi að bæla niður viðbjóðinn. Því minna sem hún hugsaði um einkalíf Hönnu, þeim mun betra.

Hún leit yfir borðið á eiginmann sinn en Graeme og Þór voru enn í hrókasamræðum, niðursokknir í einhver smáatriði um sjávarútveg, tvísköttunarákvæði og viðskiptasamninga.

„Já, já, nákvæmlega!“ hrópaði Þór upp yfir sig. „Þegar seinni samningurinn rennur út gefast svo enn fleiri tækifæri til langtíma fjárfestinga og meiri umsvifa.“

Mennirnir tveir litu upp, undrandi að sjá að hinir gestirnir voru að hlusta á þá. Kavita lagði frá sér hnífapörin með skelli. Hún var rjóð í vöngum.

Regnið barði enn á gluggunum. Kertin á borðinu flöktu og rafljósin voru dauf. Var það haglél sem skall á húsinu eins og byssukúlur? Meira víni var hellt í glös. Enginn afþakkaði.

Kavita tæmdi glasið og sneri sér að Kristjáni. Augu hennar voru starandi en hún talaði svo hátt að allir hinir gestirnir þögnuðu.

„Jæja, Kristján, hvernig hefur kvöldið svo verið hjá þér? Ég frétti að þetta hefði verið uppáhaldsveitingahús mannsins þíns. Það hlýtur að hafa verið erfitt að missa hann.“

Jane engdist yfir þessum diplómatísku mistökum. Stórir vín- sopar diplómatans voru farnir að segja til sín.

Kristjáni brá og hann leit snöggt á aðstoðarsendiherrann. Allir höfðu gætt þess að nefna ekki einu orði sviplegt andlát eiginmanns bæjarstjórans. Jane og hitt aðkomufólkið vissi bara að Kristján hafði sjálfur komið að líki eiginmanns síns í safninu sem þau höfðu skoðað fyrr um daginn. Opinber dánarorsök var hjartastopp vegna hjartavöðvakvilla sem hafði þjáð hann árum saman.

„Ég – ég …“ stamaði bæjarstjórinn. Hann dró djúpt andann. Hinir gestirnir horfðu á hann.

„Það er eins og öll hlýja, öll birta, allur hlátur sem ég átti hafi verið hrifsuð burt. Ég veit ekki hvort ég öðlast það nokkurn tímann aftur.“ Augu Kristjáns fylltust af tárum. Hann þerraði þau með servíettunni.

Jane vöknaði um augun af samúð. Henni þótti gott að sjá hve grunnt var á tilfinningum bæjarstjórans. Þótt fjölmargir höfundar sjálfshjálparpistla ráðlegðu karlmönnum að tala opin- skátt um tilfinningar sínar, segja öðrum frá líðan sinni, tárum og ótta, voru aðrir siðir í heiðri hafðir í raunheimum. Meira að segja á Íslandi.

Ben hallaði sér að Jane. „Drottinn minn, það gerist varla verra,“ hvíslaði hann.

Nei, varla. Raunar mundi Jane ekki hvenær hún hafði síðast verið viðstödd svona þrúgandi diplómatakvöldverð.

Lágvær samúðarstuna barst frá Graeme hinum megin við borðið en Jane þekkti tóntegundina og vissi hvað hún þýddi. Kristján hafði stigið yfir karlmennskumörkin og manninum hennar mislíkaði það.

„Sannkallaður harmleikur,“ tautaði Þór stuttur í spuna og raddblærinn gaf til kynna að hann vildi skipta um umræðuefni eins fljótt og auðið væri.

Blik sem Jane tókst ekki að ráða kom í augu Kristjáns bæjarstjóra.

„Harmleikur,“ hnussaði hann. „Já, það stanglast allir á því.“

„Kristján.“ Var Jane að ímynda sér það eða var undarlegur aðvörunarhljómur í rödd Þórs? „Þetta er hvorki rétti staðurinn né stundin.“

Ónotaleg þögn féll á við borðið. Linda, hin hlédræga kona Þórs, leit niður á diskinn sinn og virtist helst óska þess að vera komin langt í burtu.

Hanna varð fyrst til að rjúfa þrúgandi þögnina. „Ari var yndislegur maður og við söknum hans öll,“ sagði hún.

Í því kom Piotr kokkur inn og hvíslaði einhverju að bæjarstjóranum. Kristján rétti úr sér og augun urðu skyndilega aftur björt og einbeitt eins og aldrei hefði komið til þessara orðaskipta. Hann ræskti sig og þegar hann tók aftur til máls var röddin styrk og róleg.

„Kæru gestir,“ sagði hann. „Ég er hræddur um að veðurspáin hafi ekki batnað. Öllu flugi og ferjum frá Heimaey hefur verið aflýst. Við erum veðurteppt hér sem stendur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Viðvarandi óviðeigandi daður getur haft alvarlegar afleiðingar

Viðvarandi óviðeigandi daður getur haft alvarlegar afleiðingar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Katrín missti af milljón þegar gamalt myndband sló í gegn

Katrín missti af milljón þegar gamalt myndband sló í gegn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Stefán rifjar upp þegar hann og fleiri voru kallaðir á teppið hjá Árvakri

Stefán rifjar upp þegar hann og fleiri voru kallaðir á teppið hjá Árvakri
Fókus
Fyrir 5 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: ChatGPT með auga fyrir umhverfinu – Nú getur gervigreindin lýst því sem hún sér!

Fræðsluskot Óla tölvu: ChatGPT með auga fyrir umhverfinu – Nú getur gervigreindin lýst því sem hún sér!
Fókus
Fyrir 6 dögum

Svörtu tungurnar bjóða upp Ask Yggdrasils til styrktar Mottumars!

Svörtu tungurnar bjóða upp Ask Yggdrasils til styrktar Mottumars!
Fókus
Fyrir 6 dögum

Barnsmissir og fleiri persónulegar sögur á nýrri plötu Grétars Matt

Barnsmissir og fleiri persónulegar sögur á nýrri plötu Grétars Matt