DV mun í samstarfi við Veiðar.is birta glænýja veiðiþætti næstu vikurnar – „Veiðin með Gunnari Bender“. Fyrsti þáttur fer í loftið á laugardaginn og er hægt að fullyrða að þar muni allir áhugamenn um veiði fá eitthvað fyrir sinn snúð. Þar heilsar Gunnar meðal annars upp á Jógvan Hansen, söngvara með meiru, sem kann hvergi betur við sig en úti í náttúrunni með stöng í hönd.
Veiðin trailer-720p (1).mov
Veiðar.is er nýr frétta- og upplýsingavefur um sport- og laxveiðar í íslenskri náttúru. Á vefnum eru nýjustu fréttir úr veiðinni og því sem þar gerist á hverjum tíma, auk viðtala og frásagna af veiðiferðum, reynslu og upplifun einstaklinga og hópa í veiðimennsku.
Gunnar Bender ritstjóri er annálaður áhugamaður um stangveiðar í ám og vötnum, með áratuga reynslu af sportveiði og veiðimennsku. Gunnar hefur ferðast um landið árið um kring og hitt sportveiðifólk og aðra áhugasama um veiðar og útivist.
Í þessum ferðum sínum dreifir Gunnar m.a. Sportveiðiblaðinu, einu mest lesna og virtasta tímariti um laxveiðar á Íslandi en Gunnar stofnaði til útgáfunnar fyrir 40 árum og hefur verið þar ritstjóri og útgefandi síðan.
Veiðiþætti Gunnars þekkja margir en hann hefur framleitt slíka þætti um veiðar í villtri náttúru Íslands og frá helstu laxveiðiám landsins. Nokkrir af veiðiþáttum Gunnars eru aðgengilegir á veidar.is og á YouTube rásinni Veiðar.
Myndefni frá sportveiðinni skipar eðlilega háan sess í uppsetningu á vefsvæði veidar.is og er nú þegar komið talsvert mikið safn mynda af veiðimönnum og aflabrögðum þeirra við fjölbreyttar aðstæður.
Á veidar.is er auk þess vísir af myndasafni þar sem eru myndir af helstu fuglum úr íslenskri náttúru og sem hafa orðið á vegi ljósmyndarans Maríu Bjargar Gunnarsdóttur.
Frá opnun vefsvæðis Veiða, þann 1. apríl 2022, hafa yfir 170 þúsund lesendur heimsótt vefinn. Vinsældirnar eru framar björtustu vonum, lesendahópurinn fjölbreyttur og af öllum aldri.