Kristbjörg Jónasdóttir einkaþjálfari og athafnakona opnar sig í einlægri færslu um reynslu sína af óumbeðnum athugasemdum frá fagfólki í fegrunar- og heilbrigðisgeiranum.
Kristbjörg segir athugasemdirnar, sem settar eru fram undir yfirskyni faglegra ráða eða sem sala, og hún hafi aldrei beðið um, oft fela í sér ráðleggingar um útlitsbreytingar. Segir hún þær hafa haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd sína og vellíðan.
Kristbjörg segir frá að hún hafi farið í LPG-meðferð, sem er nuddmeðferð sem eykur blóðflæðið og styrkir húðina. Ár var síðan hún mætti þangað síðast og tók snyrtifræðingurinn á móti henni með orðunum: „Fröken, þú hefur þyngst,“ á sama tíma og hún kleip Kristbjörgu í handlegginn, magann og innanverð læri. „Ekki bara einu sinni, heldur endurtekið í gegnum meðferðina endurtók hún orð sín og lagði til aðrar meðferðir til að láta mig líta „grennri út.“
Segir Kristbjörg að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hún hafi lent í slíkum aðstæðum. Í samtali við DV segir Kristbjörg að um sé að ræða stofu erlendis. Kristbjörg segist einnig hafa farið á sams konar stofu hér á landi og hafa ekkert nema jákvætt um þjónustu íslensku stofunnar að segja.
„Tveir mismunandi húðlæknar sem ég heimsótti á síðasta ári sögðu mér að mig vantaði sárlega bótox til að líta fallegri út, jafnvel þó að ég hafi aldrei beðið um það ráð. Ég var einfaldlega að skoða leiðir til að auka kollagenframleiðslu án þess að láta sprauta einhverju í mig.
Ég er nokkuð örugg með sjálfa mig, en við skulum vera hreinskilin, við eigum öll þá daga sem okkur líður ekki vel í eigin skinni. Hefði þetta gerst þegar ég var yngri eða á einum af þessum dögum, hefðu þessi orð haft mikil áhrif á mig.“
Segir Kristbjörg að það sé einmitt aðalpunkturinn, við vitum aldrei hvað aðrir eru að ganga í gegnum.
„Þyngdaraukning, húðbreytingar, þreytt augu, þetta getur stafað af streitu, veikindum, hormónabreytingum, lífsbreytingum eða einfaldlega bara út af því að vera manneskja. Svona athugasemdir eru oft látnar falla frjálslega, dulbúnar sem „faglegt ráð“ eða sem sölulína. Það er svekkjandi. Það er skaðlegt. Og það er ekki í lagi. Sem einkaþjálfari myndi ég aldrei ganga upp að manneskju og tjá mig á þennan hátt um líkama hennar. Það eru til betri og virðingarmeiri aðferðir til að styðja við fólk. Auðvitað er ekkert að því að veita faglega ráðgjöf þegar eftir henni er óskað og hún er veitt af vandvirkni.
Þannig að ef þú hefur einhvern tíma látið einhvern benda á eitthvað sem þú baðst hann ekki um…
Ef þú hefur einhvern tíma gengið í burtu frá tíma þar sem þér leið verr en áður en þú mættir…
Eða ef þú hefur einhvern tíma fundið fyrir þrýstingi til að breyta einhverju um sjálfan þig til að „passa inn“ eða „líta betur út“…
Þessi færsla er fyrir þig.“
Kristbjörg hvetur fólk til að gæta orða sinna, vera mild í nálgun og hætta að gera ráð fyrir að fegurð komi aðeins í einni stærð, stærð eða aldri!
„Sjálfstraust ætti að byggja upp, ekki brjóta niður. Og enginn á rétt á að græða á því að láta þér líða eins og þú sért ekki nóg.“
View this post on Instagram