Sálfræðingurinn og líkamsræktardrottningin Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, deilir gjarnan góðum ráðum á Facebook fyrir þá sem vilja bæta heilsuna og lífsgæðin.
Í tilefni alþjóðlega svefndagsins í gær deildi hún skotheldum ráðum fyrir svefninn, sem margir eiga til að vanrækja eða eiga erfitt með.
„Svefn er á botni pýramídans í heilsuvenjum. Svefnrútína er faguryrði svefnsérfræðinga yfir góðar og áhrifaríkar kvöldvenjur svo við nostrum sem best og lengst við Óla Lokbrá.“
Ragga bendir á að það þurfi að hita upp fyrir svefninn, alveg eins og maður gerir fyrir æfingar. Með góðri rútínu er hægt að tilkynna líkamanum að nú sé kominn háttatími svo kerfi líkamans geti byrjað að leggja grunninn að góðum svefni. Það sé algeng mýta að fólk geti vanrækt svefninn og unnið svo tapið upp um helgar með því að sofa meira.
Hér eru skotheld ráð Röggu nagla:
Ragga bendir á að hver og einn þurfi að finna sinn gullna meðalveg. Fyrir flesta hentar best að leyfa 2-3 tímum að líða frá kvöldmat áður en haldið er upp í rúm. Þannig nær maginn að tæmast og minni líkur eru á brjóstsviða, bakflæði og meltingartruflunum.
Ragga mælir eins með bætiefnum. Fyrst og fremst magnesíum með L-theanine. Það róar taugakerfi og slakar á vöðvum. Talið er að um 50% fullorðinna í Bandaríkjunum glími við magnesíumskort og Ragga telur líklegt að það sama eigi við um Íslendinga. Eins bendir hún á lofnarblóm, lavander, en rannsóknir sýna að blómið hefur góð áhrif á svefntruflanir hjá konum á breytingarskeiði. T.d. er hægt að setja nokkra dropa af ilmolíu á koddann og það gæti bætt svefninn. Loks nefnir hún Gingko Biloba en með því að taka bætiefnið inn um 30-60 mínútum fyrir svefn er hægt að róa líkama og huga.