Hljómsveitin Austurland að Glettingi gefur út lag í dag, föstudaginn 14. mars. Sveitin gaf síðast út lag árið 1994 eða fyrir 31 ári síðan. Nýja lag sveitarinnar heitir Náttúran og er eftir Björgvin Harra Bjarnason gítarleikara sveitarinnar en textinn er eftir Hörð Guðmundsson.
Meðlimir í hljómsveitinni eru auk Björgvins þeir Valgeir Skúlason sem sér um trumbuslátt og bakraddir og Björn Hallgrímsson sem spilar á bassa og syngur bakraddir í þessu lagi.
Austurland að Glettingi var stofnuð á Egilsstöðum á vormánuðum 1993. Sama ár gaf hljómsveitin út lagið Ég vil aðeins þig á safnplötunni Landvættarokk.
„Hljómsveitin var fyrst og fremst balla-band og var mjög virk á ballmarkaðnum á austurhelmingi landsins á árunum 1993-1996 en á þeim árum gekk veröld hljómsveita út á það að spila á sveitaböllum. Árið 1994 gáfum við út annan single á safnplötunni Sándkurl. Það lag heitir Stúlkan við ströndina. Það lag fékk allnokkra spilun á öldum ljósvakans bæði í útvarpi og sjónvarpi.
Sama ár fékk lagið Alein tvö allnokkra spilun í útvarpi, en það kom ekki út á geisladiski fyrr en árið 1997. Þessi lög eru ekki komin inn á streymisveitur ennþá en það stendur til bóta. Lagið Náttúran verður því fyrsta lagið sem fer inn á streymisveitur undir nafni hljómsveitarinnar,“ segir Björgvin.
Hann segir að hljómsveitin hafi komið saman af og til frá því að hún fór í pásu árið 1996.
„Fyrir um níu árum hlóðum við svo U2 tribute show sem var keyrt nokkrum sinnum á Austurlandi og svo í Bæjarbíói í Hafnarfirði við góðar undirtektir. Við vinirnir fórum saman til Amsterdam í Hollandi árið 2015 á U2 tónleika. Sú ferð var svo frábær að við ákváðum að gera svona show. Það tókst frábærlega með aðstoð góðra manna. Það var svo fyrir ári síðan, eða í mars 2024 að við tókum þátt í því sem kallað var Austfirðingagigg í Bæjarbíói í Hafnarfirði,“ segir Björgvin.
Guðmundur R. Gíslason tónlistarmaður og söngvari hljómsveitarinnar SúEllen var driffjöðurin á bak við þá tónleikana og fékk meðlimi sveitarinnar Austurland að Glettingi til að vera með.
„Þar spiluðum við eingöngu frumsamið efni og hluti af því hafði aldrei verið gefið út. Það má því segja að Gummi Gísla beri töluverða ábyrgð á því að þetta efni sé að koma út núna, því hann æsti það vel upp í okkur þarna að við enduðum í stúdíói í lok sumars. Hljómsveitin stefnir svo á frekari landvinninga í frumsömdu deildinni á árinu, en við vinirnir enduruppgötvuðum það núna hvað það er gaman að vera í hljómsveit og búa til músík saman,“ segir Björgvin ánægður.
Meðlimir sveitarinnar fást við eitt og annað á vinnutíma þegar þeir eru ekki að spila eða syngja. Valgeir býr á Egilsstöðum og rekur þar eigið pípulagningafyrirtæki. Björn er byggingafræðingur og verkefnastjóri hjá ÞG-verk. Björgvin starfar hjá Samherja-Fiskeldi sem er núna að reisa risastóra landeldisstöð fyrir lax. Sú stöð kemst væntanlega í gagnið árið 2027.
„Ég og Björn erum Egilsstaðabúar í húð og hár en höfum búið í mörg ár á höfuðborgarsvæðinu, í Garðabænum og í Reykjavík. Austurland að Glettingi er semsagt „three piece band“ eins og sagt er, bassi, gítar, trommur, en við syngjum allir. Venjulega er Björn aðalsöngvari en ég syng nýja lagið og spila auk þess á gítar. Við tókum þetta upp í Red studios hjá Haraldi V. Sveinbjörnssyni nú á haustmánuðum, en Halli sá um upptökustjórn, hljóðblöndun og masteringu. Halli spilaði líka á hljómborð í laginu auk þess sem við fengum Gest Pálsson til að spila á saxófón,“ segir Björgvin og upplýsir að lokum að sveitin hafi auk þessa nýja lags tekið upp annað lag sem verður gefið út seinna á árinu en það lag heitir Springa.