Leikarinn Michael Sheen hefur greitt niður skuldir að andvirði 1 milljón punda, eða um 182 milljónir króna, fyrir nágranna sína í Port Talbot í Wales. Þessi gjafagjörningur var liður í verkefni leikarans, heimildarmyndinni Micheal Sheen’s Secret Million Pould Giveaway, sem er ætlað að vekja athygli á göllum á núverandi lánakerfi Wales.
Leikarinn keypti skuldir frá Financial Conduct Authority (FCA) í Bretlandi á 100 þúsund pund en með því tókst honum að afskrifa skuldir að andvirði 1 milljón punda og hjálpaði þar með rúmlega 900 í suðurhluta Wales, þar sem leikarinn ólst upp.
Sheen hefur árum saman reynt að vekja athygli á þeim áhrifum sem skuldir hafa á líf fólks. Hann hefur deilt atriði úr heimildarmyndinni þar sem hann lýsir aðdragandanum að verkefninu. Það var samtal við konu sem starfaði á kaffihúsi en hún greindi leikaranum frá því að hún hefði fengið til sín stálverkamenn sem grétu í kaffið sitt eftir að bræðsluofni á svæðinu var lokað. Þeir höfðu misst vinnuna og höfðu ekki hugmynd hvernig þeir gætu framvegis náð endum saman. Þegar Sheen heyrði þessa sögu vissi hann að eitthvað þyrfti að gera.
„Þau hafa lýst fólki sem situr hér og grætur við þessi borð. Þetta er skýrasta birtingarmynd þess hversu mikið fólk er raunverulega að þjást. Þetta opnaði augun mín fyrir því að maður verður gera að eitthvað í þessu og mögulega mun þetta verkefni leiða til breytinga, kannski ekki, en ég verð að reyna.“
Leikarinn hefur stofnað fyrirtæki sem kaupir skuldir. Hann ræðir í heimildarmyndinni við fyrrum vinnumálaráðherrann Lloyd Hatton og fyrrum forsætisráðherrann Gordon Brown. Brown lofaði að hjálpa leikaranum að skipuleggja fundi sem gætu leitt til jákvæðra breytinga.
Sheen flutti til Port Talbot þegar hann var átta ára gamall. Hann flutti svo þaðan fullorðinn til að byggja upp feril sinn en þegar hann hafði komið sér á kortið sneri hann aftur heim og hefur búið þar síðasta áratuginn. Móðir hans var ritari og faðir hans starfaði sem millistjórnandi í verksmiðju. Leikarinn telur sig því úr verkamannastétt, en segist lengi hafa verið of upptekinn af ferli sínum til að fylgjast með því hvaða áskoranir sú stétt hefur glímt við undanfarna áratugi.