Aðsend grein frá Hampkastinu:
„Ég sá mikla möguleika og ég áttaði mig á því að sjúklingar þurfa að vita af þessu, hjúkrunarfræðingar þurfa að vita af þessu. Foreldrarnir sem ég ræddi við sögðu allir það sama, það er að læknar þurfi að læra um þetta og fræða okkur hin,“ segir slóvenski hjúkrunarfræðingurinn Jasna Kovac um jákvæð áhrif af notkun kannabis í meðferð gegn flogaveiki barna. Kovac er stofnandi og forseti Medca, samtaka heilbrigðisstarfsfólks í Slóveníu sem starfar á sviði kannabismeðferða.
Kovac er frumkvöðull þegar kemur að innleiðingu kannabislyfja í heilbrigðiskerfi Slóveníu. Í nýjasta þætti Hampkastsins, umræðuþætti Hampfélagsins, gefur Kovac hlustendum innsýn inn í líf sitt og baráttu fyrir kannabismeðferðum í lækningaskyni. Hún segir að aðgangur að kannabis í heilbrigðiskerfinu í Slóveníu sé enn takmarkaður og þar komi til tvær hindranir, það er skortur á þekkingu meðal heilbrigðisstarfsfólks og aðgengi að kannabislyfjum sé ekki nógu gott.
„Læknar í Slóveníu líta enn á kannabis sem „viðbót“ eða eitthvað sem hægt er að prófa eingöngu eftir að allar aðrar meðferðir hafa mistekist,“ segir hún. „Þessu hugarfari þarf að breyta því að í mörgum tilfellum ætti kannabis að vera fyrsta val meðferðar, ekki síðasta úrræði.“
Kovac leggur mikla áherslu á þörfina fyrir meiri menntun heilbrigðisstarfsfólks en það sé eina leiðin til að minnka fordóma í kringum kannabis. Í gegnum Medka hefur hún unnið að því að útvega slóvenskum hjúkrunarfræðingum fræðsluefni og þjálfun og þó að mest af efninu sé á slóvensku vonast hún til að það verði að mestu þýtt yfir á ensku í náinni framtíð. Skilaboð Kovac til hjúkrunarfræðinga og lækna um allan heim eru skýr: „Ef það er ekki boðið upp á menntun í kannabisfræðum í heimalandinu þá skaltu sækja þá menntun utan landsteinanna. Það eru til óteljandi rannsóknargreinar, það er bara spurning um að vita hvar á að leita.“
Þegar horft er fram á veginn sér Kovac fyrir sér heilbrigðiskerfi þar sem kannabislyf eru almennt viðurkennd og fáanleg. „Lyfjafyrirtæki hafa kannski ekki áhuga á kannabisplöntunni vegna þess að það er erfitt að fá einkaleyfi á henni en það ætti ekki að koma í veg fyrir að rannsóknir haldi áfram,“ sagði hún. Hún telur að innleiðing kannabis í heilbrigðisþjónustu geti haft verulega jákvæð áhrif fyrir sjúklinga, sérstaklega þá sem þjást af langvarandi verkjum, flogaveiki og taugahrörnunarsjúkdómum. „Áherslan ætti ekki bara að vera á að lengja líf, heldur að bæta lífsgæði. Kannabis getur gert það.“
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan en einnig má hlusta á hann á öllum helstu streymisveitum, eins og Spotify.
Gunnar Dan Wiium, umræðustjóri Hampfélagsins, tók viðtalið við Jasna Kovac, Andri Karel skrifaði upp úr því og Mickael Lakhifi sá um tæknimál.
Nánar má lesa um starfsemi Hampfélagsins á heimasíðunni hampfelagid.is.