Kristjana er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Hún var að stofna nýtt fyrirtæki ásamt áhrifavaldinum og kírópraktornum Guðmundi Birki Pálmasyni, betur þekktur sem Gummi Kíró. Hún hefur verið umboðsmaður Gumma síðan í sumar og nú hafa þau opnað umboðsskrifstofu fyrir áhrifavalda, Atelier Agency.
Brot úr þættinum má horfa á hér að neðan. Smelltu hér til að horfa á hann í heild sinni eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Kristjana er hreinskilin og einlæg á samfélagsmiðlum. Hún byrjaði að birta myndbönd undir merkinu „RealTok“ með þá vísan í „real talk“, eða heiðarlegar samræður.
„Ég lærði í háskólanáminu mínu hvað það skiptir ótrúlega miklu máli að ef þú ætlar að byggja upp góð sambönd og góð samtöl þá verðurðu að vera berskjölduð. Þú verður að þora að sýna eins mikið og þú getur af þér, til þess að sýna tilfinningar þannig að fólk virkilega geti tengt við þig,“ segir hún.
„Ég hef mjög mikinn áhuga á fólki og samskiptum og að gera alltaf betur. Þá fann ég að ef við ætlum að vera hamingjusöm og lifa lífinu, þá þurfum við að finna allar tilfinningarnar.“
„Eitt af því stærsta sem hafði áhrif á mig voru sambandsslit sem komu upp úr þurru. Þá hrundi allt fyrir mér í fyrsta sinn og ég var að byrja í háskólanum og átti ekki rosa mikið af vinum,“ segir hún.
Kristjana segist ótrúlega þakklát í dag að þáverandi kærasti hennar hafi hætt með henni þó þetta hafi verið erfitt. „Því ég varð að manneskjunni sem ég er í dag. Ég þorði að vera berskjölduð, ég þorði að vera ég, ég þorði að finna tilfinningarnar. Þetta var ógeðslega erfitt.“
Kristjana var á þessum tíma að byrja í háskóla og upplifði sig týnda, en hún kynntist yndislegu fólki sem er enn góðir vinir hennar í dag.
„Ég lærði að berskjöldunin býr til svo ótrúlega falleg sambönd,“ segir hún.
„Þá fór ég að kafa ofan í hvernig mér líður, því oft hafði ég ekkert pælt í því hvernig mér leið. Ég vissi ekkert hvaða tilfinningar ég var að upplifa. Hvernig ákveðnir hlutir létu mér líða og hvað ég vildi, og ég þurfti að læra að finna tilfinningar til þess að geta farið upp og niður, og líka til að finna hvað ég hef gaman af,“ segir hún.
„Þannig, eins og á TikTok, ef ég er að upplifa eitthvað sem mér finnst krefjandi, eins og að segja upp vinnunni minni, þá segi ég frá því. Og útskýri tilfinningarnar og útskýri, samt svona á það einfaldan hátt að fólk geti speglað það yfir á sínar aðstæður. Ég reyni auðvitað að segja frá minni upplifun því maður segir ekki allt á samfélagsmiðlum.“
Kristjana ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Fylgstu með Kristjönu á Instagram, TikTok eða LinkedIn. Hún heldur einnig úti vefsíðunni barddal.is.
Hlustaðu á hlaðvarpið Tölum um á Spotify og til að kynna þér Atelier Agency smelltu hér.