Brynjólfur kom Völu aldeilis á óvart með fallegum hring, svo kölluðum „promise ring“, stundum er þetta kallað „fortrúlofunarhringur“, en hringurinn táknar skuldbindingu og ást.
Vala birti myndband frá kvöldinu og gaf DV leyfi til að deila með lesendum. Parið fór á fallegan veitingastað á Hardrock Hotel, sem er á Adeje-svæðinu.
Vala og Brynjólfur kynntust í fyrra og mætti segja að ástin hafi blómstrað strax frá fyrstu kynnum. Vala ræddi einlæg um lífið, erfiðleika og sigra í viðtali við DV fyrr á árinu. Hún sagði frá fyrsta stefnumótinu þeirra.
Sjá einnig: Vala Grand reis upp úr öskunni eftir erfitt tímabil – Menntaði sig fyrir föður sinn heitinn og fann ástina
„En svona án gríns, á þessum tímapunkti leið mér eins og ég væri búin að gefast upp á ástinni, en ég vildi samt reyna einu sinni enn,“ sagði Vala.
Vala stóð á sínu og á fyrsta stefnumótinu sagði hún honum hverju hún væri að leita að og hvert hún væri að stefna í lífinu. Hann sagðist vera að leita að því sama og áttuðu þau sig fljótt á því að þau deila sömu lífsgildum.
Þau voru ekki sammála um hver ætti að borga á fyrsta stefnumótinu. „Þegar við vorum búin að borða ætlaði ég að borga fyrir matinn en hann neitaði og afgreiðsludaman horfði bara á okkur og sagði: „Cute,“ þegar við vorum að þræta yfir hver ætti að borga. Við reyndum bæði að afhenda henni kortið á sama tíma,“ sagði Vala og hló.
„Og allt í einu, eins og þruma úr heiðskíru lofti, hvarf þessi ógeðslega höfnunartilfinning. Ég horfði í augu hans og beint inn í sálina hans og hugsaði að þessi maður gæti verið sá sem ég gæti byggt líf með.
Á þessu augnabliki fann ég hvers verðug ég er, að ég væri víst nógu góð fyrir einhvern sem kann að meta mig og sjá mig alla, bæði kosti og galla.“
Það eru um átta mánuðir liðnir og eru þau enn jafn ástfangin og hamingjusöm. „Við erum spennt fyrir framtíðinni. Plús, hann er líka svo stoltur að eiga mig sem kærustu og ég stolt að kalla hann kærasta minn. Hann er líka duglegur að hvetja mig áfram og öfugt,“ segir hún.
Fókus óskar parinu innilega til hamingju með ástina.