Tónlistarmaðurinn Billy Joel fékk væna byltu á tónleikum í Connecticut á laugardag. Atvikið náðist á myndband og hafa margir áhyggjur af söngvaranum eftir þetta.
Billy Joel er 75 ára gamall og hefur verið einn af þekktustu tónlistarmönnum heims í hálfa öld. Hann er þekktur sem mikill orkubolti enda var hann hnefaleikamaður áður en hann tók míkrafóninn sér í hönd.
Hann er einnig skaphundur mikill og lætur oft tilfinningarnar ráða á sviðinu, eins og sást til að mynda í Moskvu árið 1987 þegar hann tók tryllingskast, kollvarpaði hljómborðinu sínu og barði míkrafónsstafífinu í sviðið eins og óður maður.
Joel var aftur að gera listir með statífið á tónleikum í bænum Montville í Connecticut þegar hið vandræðlega atvik skeði. Eins og sést í myndbandinu fleygði hann statífinu en datt þá aftur fyrir sig og lenti kylliflatur á sviðinu þegar hann var að syngja slagarann „It´s Still Rock ´n Roll to Me.“
Var áhorfendum mjög brugðið að sjá gamla manninn kútveltast svona. „Ég hafði miklar áhyggjur af honum alla tónleikana,“ sagði einn tónleikagestur. Annars sagði að Joel hefði haltrað um sviðið og verið farinn að nota míkrafónstatífinn sem staf.