Brasilíska þungarokkshljómsveitin Sepultura kemur til Íslands í júní og heldur tónleika. Þetta er síðasta tónleikaferðalag sem þessi goðsagnakennda hljómsveit heldur.
Tónleikarnir eru í N1 höllinni við Hlíðarenda þann 4. júní undir yfirskriftinni: Sepultura – 40 Years Farewell Tour.
„Brasilíska-ameríska þungarokksgoðsögnin SEPULTURA fagnar ótrúlegum 40 árum á alþjóðlegu þungarokkssenunni – en hefur nú tilkynnt að þeir muni hætta öllum tónleikaferðalögum.
Óvænt tíðindi fyrir marga, en þeir ætla að kveðja með látum!“ segir í tilkynningu tónleikahaldarans Tónleiks. „Þetta er tímamótaatburður í sögu þungarokksins. SEPULTURA hefur skilið eftir sig djúp spor í þróun þessa tónlistarstíls, haft gríðarleg áhrif á ótal hljómsveitir og mótað þungarokk eins og við þekkjum það í dag.“
Sepultura var stofnuð í borginni Belo Horizonte í Brasilíu árið 1984 og lék upphaflega svartmálm og dauðarokk. Síðan þá hefur tónlist sveitarinnar þróast í ýmsar áttir, svo sem í þrass, grúvmetal, númetal og metal með miklum áhrifum frumbyggja Amazon frumskógarins.
Hljómsveitin hefur gefið út 15 hljómplötur og selt 20 milljón eintök. Þeirra þekktustu plötur eru Beneath the Remains, Arise, Chaos A.D. og Roots með hinum eftirminnilega slagara Roots Bloody Roots.
Upprunalegu meðlimirnir og bræðurnir Max og Igor Cavalera eru fyrir margt löngu horfnir á braut en gítarleikarinn Andreas Kisser og bassaleikarinn Paulo Jr. hafa plægt akurinn með Sepultura síðan á gullaldarárunum. Bandaríski söngvarinn Derrick Greene bættist við eftir að Max hætti en sveitin hefur reglulega skipt út trymblum. Núverandi trymbill er hinn ákaflega hæfileikaríki Greyson Nekrutman.
Miðasala hefst á mánudag, 3. mars. Á midix..is, klukkan 10. Miðaverð er 12.990 krónur.