Allir voru glæsilegir en áhorfendur tóku eftir einu þema, það virtust margir hafa grennst síðastliðin ár. Fólk ræddi málin á samfélagsmiðlum og telja margir þyngdarstjórnunarlyf, eins og Ozempic, hafa tekið yfir Hollywood.
„Ozempic gæti verið sökudólgurinn. Meira að segja þegar grannar stjörnur eru búnar að grennast,“ sagði einn netverji.
Daily Mail vakti athygli á málinu og bar saman myndir af stjörnunum á SAG-verðlaunahátíðinni og eldri myndum og er óhætt að segja að það sé ágætis munur á mörgum. En hvort Ozempic eigi þar orsökina er ekki hægt að alhæfa þar sem það er fágætt að fólk gangist við að nota lyfið. Einnig geta legið aðrar ástæður að baki, eins og breyttur lífsstíll, veikindi eða eitthvað annað.
En leikkonan Kathy Bates hefur talað opinskátt um að hún missti 45 kíló á Ozempic.
Útlit Brooke Shields, Demi Moore, Selena Gomez, Ariana Grande og Georgina Chapman vakti athygli og hefur verið á milli tannanna hjá netverjum. En eins og fyrr segir þá geta aðrir þættir spilað inn í þyngdartap þeirra, en orðum eins og Ozempic og Wegovy hefur verið kastað fram.