Hjónin Snærós Sindradóttir, blaðamaður og eigandi Glerþaksins, og Freyr Rögnvaldsson, upplýsingafulltrúi Eflingar, eru nú á heimleið aftur. Hjónin fluttu til Búdapest í Ungverjalandi ásamt tveimur dætrum sínum haustið 2023 þar sem Snærós hóf mastersnám, Freyr vann í fjarvinnu og dæturnar fóru í ungverskan skóla og leikskóla.
Snærós er með BA gráðu í listfræði og listasögu frá Háskóla Íslands og Columbia University í New Yorkog vildi bæta við sig stjórnunarnámi í skapandi greinum. Í vor mun Snærós útskrifast með MA gráðu í Art Management með sérhæfingu í sýningarstjórn frá Budapest Metropolitan University og mun á vorönn 2026 hefja kennslu við Háskóla Íslands með námskeiðinu Listmarkaðurinn og viðskipti með list.
„Tilkynning: Við erum að flytja heim! Það eru ný tíðindi fyrir sum ykkar að minnsta kosti. Eftir vandlega yfirlegu og fjölskyldufundi er niðurstaðan að snúa aftur í sumarlok; reynslunni og meistaragráðu í stjórnun skapandi greina ríkari. Undanfarin misseri hafa sannarlega verið þau bestu í lífi okkar en það eru líka verulega spennandi tímar framundan í lífi okkar og störfum á Íslandi,“ segir Snærós í færslu á Facebook.
Segir hún fjölskylduna hafa mörg áform framundan, en kennslan við HÍ er það fyrsta sem hún deili með þeim sem vilji vita:
„Fyrsti brauðmolinn sem ég er tilbúin að deila með umheiminum er fyrirhuguð kennsla mín við HÍ. Ég hef óslökkvandi ástríðu fyrir listmarkaðnum og hlakka til að setja saman þennan kúrs fyrir háskólann.
Þetta verður auðvitað allt mjög akademískt en örvæntið ekki – ég býð líka partýútgáfu strax í haust! Skemmtilegt og fróðlegt kvöld fyrir vinahópa sem langar að fá smjörþefinn af því hvernig best sé að byrja að kaupa myndlist og hvernig þessi stóri bransi virkar. Tilvalið upphaf á lengra kvöldi – þið hafið bara samband og bókið.
Fleiri áform okkar fjölskyldunnar verða afhjúpuð síðar. Byrjum á þessari klípu, nú þegar kennsluskráin hefur verið birt á vefnum.“