„Ég er framhjáhaldsbarn. Pabbi var giftur og ég bjó hjá mömmu heima hjá ömmu þar til ég var sex ára en þá fluttum við mamma til pabba og þau tóku saman,“ segir hann.
Skólagangan var erfið og lenti Gunnar í miklu einelti. „Ég flúði mikið í tölvuleiki til að byrja með en seinna kom áfengið inn,“ segir hann.
Vissi hvað það þýddi þegar pabbi hans opnaði svaladyrnar
Aðstæður heima fyrir voru erfiðar en faðir hans drakk og var reiður. Hann man vel eftir því þegar faðir hans hótaði að fyrirfara sér þegar hann var drukkinn og ýtti það undir vanlíðan.
„Ég vissi bara hvað það þýddi þegar hann opnaði svaladyrnar, þá ætlaði hann að hóta því að fara fram af,“ segir Gunnar.
Gunnar leitaði mikið til elstu systur sinnar í þá daga en hún er látin í dag, af veikindum tengdum neyslu. Hún var klettur fyrir hann á þessum árum.
Hann segir frá sambandi sem hann var í með stelpu frá Litháen um tíma en þurfti að setja mörk á endanum. „Hún var á tíma mikið að hringja, eftir að við hættum saman svo ég setti henni skýr mörk. Einn daginn var ég að læra fyrir próf og hún hringdi og bað mig um að koma en ég sagðist ekki geta hjálpað henni. Hún svipti sig lífi eftir það.“
Gunnar var tengiliður fjölskyldunnar úti og við barnavernd hér því konan skildi eftir sig ungan son.
„Ég mætti á fundi og stóð alveg fastur á því að drengurinn ætti að eignast góða fjölskyldu á Íslandi en ekki fara í óregluna sem ég vissi af úti,“ segir hann.
Gunnar segir frá því þegar hann ætlaði að fara með jólagjöf til drengsins og segir að hann hafi dengið afar óblíðar móttökur frá öðrum fósturföðurnum.
Áföll hafa haldið áfram að kvelja Gunnar en ein jólin gáfu hann og konan hans hvort öðru dekur í Laugar spa í jólagjöf.
„Ég fór í mitt nudd og hún í sitt. Hann sem nuddaði mig er frá Króatíu, ég ætla ekki að nafngreina hann hérna,“ segir hann.
Gunnar segir frá nuddinu og að það hafi orðið undarlegt á einhverjum tímapunkti og að hann hafi síðan orðið fyrir nauðgun.
„Ég fraus. Ég upplifði mig svo skítugan, sama hvað ég þvoði mér. Ég vildi ekki snertingu frá konunni minni. Allt í einu fór ég að missa stjórn á skapi mínu og var reiður,“ segir hann.
Hann hefur í dag opnað á þetta stóra áfall sem nauðgun er. „Ég fékk fund með Dísu í World Class en hún sagði bara að þetta væri svo almennilegur maður að það gæti ekki verið,“ segir hann.
„Ég er ekki hræddur við að tala um þetta í dag og hef farið í mikla áfallavinnu.“
Gunnar kærði manninn og ræddi um þá ákvörðun við Heimildina í ágúst í fyrra.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.