Málið vakti talsverða athygli í gær. Þorgrímur var gestur í Kastljósi fyrr í vikunni til að ræða um kvíða ungmenna. Hulda skrifaði harðskeyttan pistil ásamt eiginmanni sínum á Patreon-síðu þeirra hjóna þar sem þau kölluðu rithöfundinn meðal annars „risaeðlu“ og „forréttindafirrtan karl.“ Þau gáfu einnig sterklega í skyn að Þorgrímur hefði ekkert erindi að tjá sig um þessi mál þar sem hann væri ekki menntaður á þessu sviði.
Sjá einnig: Hulda og Þorsteinn hjóla í Þorgrím Þráins – Kalla hann „risaeðlu“ og „forréttindafirrtan karl“
Hulda skrifaði síðan annan pistil, ein í þetta sinn, á Vísi þar sem hún gagnrýndi orðræðu Þorgríms enn frekar. Í Story á Instagram í gærkvöldi sagðist Hulda standa við hvert orð í pistli sínum á Vísi, en nefndi hinn pistilinn ekkert sérstaklega. En það var í þeim pistli sem fólki fannst illa vegið að aldri, menntun og persónu Þorgríms.
Þorgrímur svaraði fyrir sig í kjölfarið og sagðist hafa verið að mestu leyti að vitna í bókina The Anxious Generation í Kastljóssviðtalinu, og að sú bók væri skrifuð af hámenntuðum manni.
„Fyrir þá sem ná ekki upp í nefið á sér og gera lítið úr skóla lífsins og áratuga reynslu á vettvangi er ágætt að benda þeim á að ég er að mestu leyti (í Kastljósi) að vitna í bók sem ætti að vera skyldulesning fyrir þá sem eiga eða umgangast börn og ungmenni,“ sagði hann.
Sjá einnig: Þorgrímur Þráins svarar fyrir sig – „Fyrir þá sem ná ekki upp í nefið á sér og gera lítið úr skóla lífsins“
Hulda tjáði sig frekar um málið á Instagram í gærkvöldi. Hún ræddi um upphaflegu ákvörðun hennar að stíga fram og gagnrýna Þorgrím. „Mér fannst mikilvægt að önnur sjónarmið og rökstuðningur kæmu fram,“ sagði hún.
Hún birti síðan skjáskot af frétt Vísis um að læknirinn Lýður Árnason hefði blandað sér inn í málið og gagnrýnt hjónin fyrir háttsemi þeirra. Hann skrifaði meðal annars á Facebook:
„Sem einum úr þeirra hópi lærði ég þetta á langri háskólagöngu: Þeir sem fífl eru fyrir og mennta sig verða hættuleg fífl. Eitt stærsta mein í þessu samfélagi eru nefnilega sérfræðingar sem telja sig eina þess umkomna að mæla með viti og með þessu skapa þeir sér ómælda vinnu, oft um ekki neitt.
Með þessu er ég ekki að segja ÞÞ hafi rétt fyrir sér. Það er hinsvegar grunnregla sem allir ættu að vita af, jafnvel sérfræðingar, að beina gagnrýni sinni að skoðun manna en ekki gera lítið úr aldri þeirra, menntun eða reynslu.“
„Jæja, þetta fylgir alltaf,“ sagði Hulda um viðbrögð Lýðs. „Algjörlega fyrirsjáanlegt. Nú er ég orðið menntað fífl í hugum þessara manna.“
Hulda birti einnig færslu á Facebook þar sem hún sagði:
„Við sjáum dæmi:
Ómenntaður maður fullyrðir eitthvað um kvíða barna og lausnir til vellíðunar byggt á hans reynslu úr skóla lífsins. Fær mikið lof. Bestur. Leiðtogi.
Ung kona menntuð í sálfræði og uppeldis- og menntavísindum gagnrýnir og setur fram sitt fagálit. Menntasnobbað fífl sem rignir upp í nefið á.“
Hulda sagði þó ljót og neikvæð skilaboð leynist inn á milli þá sé hún mestmegnis að fá stuðningskveðjur.
„Skilaboðin sem ég hef fengið í dag hlaupa á hundruðum. Takk fyrir ykkur, auðsýnt þakklæti og samstöðu. Ég stend við hvert einasta orð í greininni minni á Vísi. Ef sálfræðingur má ekki tjá sig um líðan og tilfinningar barna og þá fræðslu sem þeim býðst, hvar erum við sem samfélag?
Á kannski að fá ómenntaða lækna til að framkvæma aðgerðir líka því sumir þekkja skóla lífsins svo vel á eigin skinni?“
Hulda birti einnig tölvupóst sem hún fékk frá ónefndum einstakling sem sagði þau hjónin hafa farið yfir strikið og ættu að biðja Þorgrím afsökunar. Hulda sagði þessi viðbrögð vera fyrirsjáanleg.
„Þetta er ALLT svo fyrirsjáanlegt. Svona virkar feðraveldið. Finnst ykkur skrýtið að ég hafi í gærkvöldi ekki verið viss um að nenna þessu?“
Hún birti einnig nokkur skjáskot af neikvæðum athugasemdum í garð þeirra hjóna.
„Ég er með 300 ósvöruð skilaboð. Ég hef aldrei lent í öðru eins. 99 prósent af því sem ég fæ hér er stuðningur og þakklæti. Það vegur upp á móti öllu hinu. Takk fyrir ykkur. Ég vona að við séum að stíga skref í að breyta toxic menningu. Kv menntasnobbaða gellan,“ sagði Hulda að lokum.