„Ég hef oftar en einu sinni borgað fyrir bensín og keyrt svo í burtu,“ segir Dagur Gunnarsson. „Já án þess að dæla?“ spyr félagi hans Ólafur Laufdal.
Dagur segist þó hafa getað fengið bensínið afhent síðar, þar sem hann komi oft á þessa bensínstöð og í eitt skipti sem hann greiddi með peningi hafi hann tekið nótu með kennitölu.
„Hún ætlaði að vera með vesen, en ég var: „Hei ég tók nótu, sönnun.“ Fyndna er að ég tók bensínið í Hafnarfirði um morguninn, keyrði inn í Reykjavík, svo þegar ég er að keyra heim úr vinnunni, 5 eða 6, og er í umferð. Þá er ég: „Fokk ég er að verða bensínlaus, tók ég ekki bensín í morgun?“ Þá fattaði ég, ég hef gleymt að taka það og þurfti að taka aftur bensín, bara fyrir 3000 kall og þurfti svo að hringja: „Ég kom í morgun og keypti bensín og tók ekki bensínið.“ Hún ætlaði ekki að trúa mér. Ég lét N1 hafa 10 þúsund kall í morgun og fór svo bara.“
Húðflúrarnir Dagur og Ólafur halda úti hlaðvarpinu Blekaðir á Brotkast þar sem þeir spjalla um daginn og veginn og taka viðtöl við einstaklinga í húðflúrssenunni hérlendis.
Dagur hefur hins vegar aðra sögu að segja af vini sínum sem fyllti bílinn af bensíni og fékk svo ekki að greiða fyrir bensínið. Ástæðan? Þetta var á tíma heimsfaraldurs kórónuveirunnar og hann var ekki með grímu.
„Hann ætlaði að borga með reiðufé en hún bannaði honum að koma inn af því hann var ekki með grímu. Hún ætlaði að hleypa honum inn til að kaupa kassa af grímum og setja svo á sig grímu til að geta borgað fyrir bensínið. Það meikar engan sens. Þá ertu búinn að afgreiða hann tvisvar. Og hvort sem er kominn inn ekki með grímu. Þetta endaði þannig að hann fór.“
Dagur segist ekki vita hvort og hvernig félagi hans greiddi á endanum.
„Þú endaðir þetta á sögu sem þú veist ekki einu sinni endirinn á sjálfur,“ segir Ólafur.
„Það eru bestu sögurnar. Þegar maður segir eitthvað út úr rassgatinu á manni sem einhver annar sagði manni og ég segi það eins og ég man það,“ svarar Dagur.