fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Fókus

Ragnhildur gagnrýnir kvenkyns áhrifavalda sem glenna sig í ræktinni

Fókus
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 11:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, segir sum myndbönd kvenkyns áhrifavalda jaðri við að vera klám. Hún segir þetta ekki hjálpa líkamsímynd kvenna heldur hafa þveröfug áhrif.

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa slegið í gegn um árabil.

„Í samfélagsmiðlafargani nútímans þar sem úsa af skjánum vídjó af kvenkyns áhrifavöldum að sýna æfingar í líkamsrækt er í sumum tilfellum farin að dansa tangó við klámvæðingu,“ segir Ragnhildur og segir þær stundum klæddar í „örbrók“ sem eigi meira „skylt við belti en að flokkast sem flík.“

„Silungastútur á munni með bolinn dreginn upp að höku til að bera kviðinn. Snurfusaðar og meiköppaðar hálfberar með frygðarsvip í hnébeygju.

Allt gert undir myllumerkjum #fitspo og á að hafa hvetjandi tilgang fyrir hjörðina sem fylgir téðum áhrifavaldi.“

Ragnhildur segir þetta í raun hafa þveröfug áhrif.„Gunna úr Grafarvogi með þrjú börn að koma sér af stað í ræktinni samsamar sig engan veginn með olíubornum, uppstríluðum og tönuðum skrokkum með heflaðan kvið í lendum ræktar. Með hárið slegið í efnislítilli spjör og ekki svitadropi í nánd,“ segir hún.

„Í raun sýndi rannsókn á 17-25 ára konum að myndir af fáklæddum áhrifavöldum í kynferðislegum stellingum á Instagram höfðu neikvæð áhrif á skap og líðan, og voru ósáttari við eigið útlit og líkama eftir að skoða slíkar myndir.“

Neikvæð líkamsímynd

Ragnhildur segir að það sé ekki rétt að neikvæð líkamsímynd auki líkurnar á því að fólk stundi meiri líkamsrækt. „Í raun er það jákvæð hvatning um frammistöðu og árangur sem styrkir hegðun í sessi, en ekki neikvætt innra sjálfstal þar sem skórinn er níddur af skrokknum,“ segir hún og bætir við:

„Líkamsímynd sem er neikvæð hefur verið tengd við þunglyndi, kvíða og óheilbrigt samband við mat og æfingar.“

Hvað með unga fólkið?

Ragnhildur segir að við eigum sérstaklega að hugsa um hvaða áhrif þetta hefur á ungu kynslóðina.

„Ef við skoðum áhrifin á óharðnaða ungu kynslóðina sem hafa ekki framheilann til að horfa á þessar ímyndir með gagnrýninni hugsun. Rannsóknir sýna að þegar unglingsstúlkur sjá myndir af íþróttakonum stunda sína íþrótt upplifðu þær jákvæðari tilfinningar um sína eigin færni.

Hins vegar ef þær sáu myndir af íþróttakonum í kynferðislegum pósum, voru þær neikvæðari gagnvart eigin líkama og útliti. Slíkar myndir leiða til depurðar, skömm yfir líkama sínum, lágu sjálfsáliti og óheilbrigðu sambandi við mat.“

Eiga heima í svefnherberginu

„Það er ekki hvetjandi til heilsuhegðunar þegar dressin eiga betur heima í svefnherberginu en í ræktarsal,“ segir hún.

„Þegar spjarirnar hylja aðeins hið allra viðkvæmasta og æfingarnar framkvæmdar með það að leiðarljósi að glenna rass og brjóst í glyrnur áhorfandans, í þeim tilgangi að öðlast íturvaxinn afturenda eða sexý fætur.

Þó allskonar orðum sé hent fram eins og #sterk #hreysti eru skilaboðin samt alltaf að líkaminn eigi að líta út á ákveðinn hátt sem er ekki valdeflandi fyrir konur því fæstar hafa genabúskapinn til að ná slíku útliti.

Hreysti snýst um að nýta skrokkinn til góðra verka. Keppa við þyngdaraflið í að slíta upp járn með ljótuna á lokastigi. Sigra sjálfan sig í brekkusprettum og skilja einungis eftir rassasvita og purpuralitað smetti. Gefa allt í botn og útvíkka siglingalögsögu þægindasápukúlunnar. Veruleikinn er ómálað smetti, gamall stuttermabolur, síðbrók og sigg í lófum. Lífið er grettur, geiflur og stunur.“

Ragnhildur segir að besta gjöf sem þú getur gefið ræktarhvatningunni þinni er að fylgja á samfélagsmiðlum konum í alls konar stærðum sem djöflast fullklæddar á æfingu.

„Að vinna fyrir betra formi með öllum þeim styrk sem þú átt í skrokk og sál, óháð líkamsformi, brjóstastærð, rassalögun eða rifflum á kvið. Það er það sem hreysti á að snúast um,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hefndi sín á ókunnugum á Valentínusardag og hlaut mikið lof fyrir vikið – „Kærastan þín á eftir að verða brjáluð“

Hefndi sín á ókunnugum á Valentínusardag og hlaut mikið lof fyrir vikið – „Kærastan þín á eftir að verða brjáluð“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Í dag er 1 ár síðan ég ætlaði rétt að skjótast til læknis í hádeginu og endaði á sjúkrahúsi í 5 vikur“

„Í dag er 1 ár síðan ég ætlaði rétt að skjótast til læknis í hádeginu og endaði á sjúkrahúsi í 5 vikur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragnar Freyr læknir: „Allir þessir sjúkdómar verða verri ef svefninn er ekki í lagi“

Ragnar Freyr læknir: „Allir þessir sjúkdómar verða verri ef svefninn er ekki í lagi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Foreldrar Biöncu Censori eru með óhugnanlega kenningu um klúr uppátæki Kanye

Foreldrar Biöncu Censori eru með óhugnanlega kenningu um klúr uppátæki Kanye