Þetta kemur fram í viðtali við Zach Strenkert sem kom í þáttinn til Jerry árið 1996 ásamt foreldrum sínum.
Zach var aðeins nokkurra vikna gamall þegar foreldrar hans fóru að velta fyrir sér hvers vegna hann stækkaði svona hratt. Hann var kallaður „risabarnið“ og við tveggja ára aldur var hann kominn vel yfir 30 kíló og það þrátt fyrir að borða ekkert endilega meira en önnur börn.
Foreldrar hans gengu á milli lækna sem voru ráðþrota og var það ekki fyrr en Zach mætti í þátt Jerry Springer árið 1996 að hjólin fóru að snúast.
Sérfræðilæknar settu sig í samband við foreldra hans og kom þá í ljós að hann þjáðist af svokölluðu SGBS-heilkenni sem orsakast af stökkbreytingu í ákveðnu geni sem hefur með vöxt og þroska líkamans að gera. Einkenni heilkennisins geta verið margskonar en lýsa sér þó yfirleitt í ofvexti af einhverju tagi.
Mál Zachs vakti athygli um alla heim og í íslenskum fjölmiðlum, Morgunblaðinu og DV þar á meðal, birtust myndir af honum.
Jerry Springer lést vorið 2023 og fyrir skemmstu kom út heimildaþáttaröð um hann sem sýnd er á Netflix. Zach ræddi við Daily Mail fyrir frumsýningu þáttanna og lýsti hann því í viðtalinu hvaða áhrif Springer hafði á líf hans. Segist Zach eiga spjallþáttakónginum umdeilda margt að þakka.
Zach, sem er rúmlega þrítugur, segist oft hafa fengið að heyra sögur frá foreldrum sínum um hvernig Jerry hjálpaði honum og breytti lífi hans til hins betra.
„Hann var sá sem hafði milligöngu um að móðir mín fékk þau svör sem hún hafði svo lengi leitað eftir. Hann var sá eini sem bauðst til að útvega henni sérfræðilækni sem gat unnið að mínu máli,“ segir hann. „Ekki nóg með það heldur hélt hann áfram að hugsa um mig. Hann sendi mér gjafir í langan tíma á eftir og honum stóð ekki á sama um mig. Hann virkilega breytti lífi mínu til hins betra.“
Zach kom svo aftur í þáttinn til Jerry árið 2017 og rifjar hann upp að baksviðs, þegar hann hitti Jerry ásamt móður sinni, hafi bæði Jerry og móðir hans fallist í faðma og tárast. „Hún þakkaði honum innilega fyrir alla hjálpina og ég tók í höndina á honum og þakkaði honum fyrir allt sem hann gerði fyrir mig.“
Zach hefur alla tíð verið stór og átt tiltölulega auðvelt með að þyngjast en hann tók sig verulega á þegar heimsfaraldur Covid skall á. Hann byrjaði að hreyfa sig, tók mataræðið í gegn og fór úr tæpum 230 kílóum niður í um 115 á nokkrum árum. Hann er mjög hamingjusamur í dag.
„Ég vildi bara að Jerry gæti séð mig núna, það væri gaman að geta tekið í höndina á honum aftur og sýnt honum hvaða maður ég er í dag. Ég hef yfirstigið margt í mínu lífi og fyrir það er ég þakklátur.“