Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, segir svefninn allra meina bót og mikilvægt sé að knúsa Óla Lokbrá minnst átta tíma allar nætur. Hún útskýrir málið í nýjum pistli á Facebook, en pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa notið mikilla vinsælda um árabil.
„Svefn hefur áhrif á öll hormónin sem bera ábyrgð á kaloríunýtingu líkamans: Vaxtarhormón, testósterón, skjaldkirtil og streituhormónin adrenalín og kortisól.
Dægursveiflurnar þurfa að vera upp á tíu til að stuðli að hámarks frammistöðu þeirra og samspil þessara hormóna verði eins og ómþýð sinfónía.
Það er mikilvægt að knúsa Óla Lokbrá í allavega átta tíma á hverri nóttu fyrir heilastarfsemi, gott mataræði, fitusöfnun og vöðvabyggingu.
- Testósterón losast í REM svefni. Að sofa í aðeins 6 tíma þýðir 1-2 svefnhringir detta út sem leiðir til 10-15% minna testósteróns á dag. Það er því sannarlega ekki karlmennskutákn að sofa stutt heldur þvert á móti.
- Stuttur svefn stuðlar að lægra magni af sedduhormóninu Leptín yfir daginn svo þeir verða ekki almennilega saddir óháð því hvað þeir borða mikið.
- Svengdarhormónið Ghrelin er í hæstu hæðum allan daginn hjá þeim sem eru vansvefta. Sem þýðir að þeir eru svangir allan daginn þrátt fyrir að úða alls konar í grímuna.
- Svefn hefur áhrif á matarval fólks.
- Rannsókn á hvað fólk valdi af hlaðborði og hversu mikið var borðað sýndi að þau sem sváfu styttra völdu frekar einföld kolvetni og innbyrtu 300-500 hitaeiningum meira en þau sem voru fullhlaðin af svefni.
- Rannsóknir sýna 55% meira fitutap hjá þeim sem sofa í 7-9 tíma, en hjá þeim sem sofa skemur. Aðrar rannsóknir sýna að þegar þátttakendur eru samviskusamir í svefni, er um helmingur þyngdartaps úr fitu. Hins vegar þeir sem sofa skemur, missa aðeins fjórðung af fituvef en restin eru vöðvar sem við eyðum blóði, svita og tárum að byggja upp.
- Svefn heldur jafnvægi á blóðsykri, og dregur úr pervertískum löngunum í súkkulaði, snakk og kex og skjóta orku úr pakka, plasti eða álpappír.
- Svefn stuðlar að aukinni framleiðslu á vaxtarhormónum sem hjálpar við uppbyggingu vöðva utan á grindina. Því meiri kjötmassi því hærri grunnbrennsla. Sem þýðir að þú brennir mör bara við að sitja á bossanum í vinnunni.
- Vansvefta fólk er með 50% lægra hlutfall af boðefninu GABA í líkamanum sem gegnir lykilhlutverki í að róa heilann og hægja á taugakerfinu og minnkar þannig kvíða og hræðslu.
Svefn er ókeypis bætiefni.
Svefn er aðgengilegur öllum alls staðar í heiminum.
Svefn hefur verið á markaðnum frá örófi alda.
Svefn hefur ekkert aldurstakmark.
Það eina sem þarf að gera er að slökkva á imbanum, opna gluggann, slökkva ljósin, og knúsa koddann.
Prófaðu að gúlla Magtein (300mg) + L-theanine (100mg) fyrir svefn.“