fbpx
Laugardagur 15.febrúar 2025
Fókus

Blóði drifinn og óljós uppruni Valentínusardagsins – Hýðingar, heiðingjar og aftökur

Fókus
Föstudaginn 14. febrúar 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valentínusardagurinn er tími til að fagna ástinni í öllum sínum myndum, en uppruni hátíðarinnar er í raun dökkur, blóðugur og nokkuð óræður.

Enginn veit nákvæmlega hvaðan þessi dagur elskenda kemur en talið er að ræturnar megi rekja allt aftur til Rómaveldis.

Dagana 13. – 15. febrúar héldu Rómverjar upp á hátíðina Lupercalia sem hefur verið rakin allt aftur til 6. aldar fyrir Kristburð.

Samkvæmt rómverskri goðafræði hafði forni konungurinn Amulius skipað að frændum sínum, tvíburunum Romulus og Remus, skyldi kastað í ána Tiber til að gjalda fyrir það að móðir tvíburanna rauf skírlífsheit sitt.

Þjónn mun hafa séð aumur á tvíburunum og kom þeim fyrir í körfu og lét þá fljóta eftir ánni. Guð ánnar beindi körfunni í átt að fíkjutré. Karfan festist í greinum trésins og bræðrunum var bjargað. Þeir voru svo aldir upp af bjargvætti sínum, sem var reyndar úlfur. Þar sem drengirnir ólust upp stofnuðu þeir svo stórborgina Róm. Þegar drengirnir voru komnir til manns fundu þeir frænda sinn, drápu hann og fundu svo loks aftur hellinn þar sem úlfurinn ól þá upp. Þeir skírðu hellinn Lupercal.

Hátíðin Lupercalia var því haldin í helli til að heiðra bjargvætt bræðranna sem og frjósemisguðinn Lupercus.

Hátíðin fór þannig fram að sérstakir rómverskir prestar sáu um að fórna geitum fyrir frjósemi og hundum fyrir hreinleika. Prestarnir mökuðu svo blóði framan í sig en hreinsuðu það svo af sér með mjólk. Eftir þetta byrjaði ballið og dýrin voru étin og loks var skinn þeirra skorið niður í svipur. Prestarnir hlupu svo naktir um og hýddu allar konur sem þeir náðu í skottið á.

Þetta var líka góður tími fyrir tilhugalíf Rómverja en þar var nöfnum ungra kvenna komið fyrir í krukkum, ungu mennirnir náðu sér í miða og eyddu svo hátíðinni með drættinum – þó stundum lengur ef parið átti vel saman.

Með tilkomu kristni var litið hornlauga á Lupercalia og er talið að kirkjunarmenn hafi séð sér leik á borði og blandað hátíðinni saman við sína eigin dýrlinga. Kaþólska kirkjan tók minnst þrjá menn sem hétu Valentínus í dýrlingatölu, en ekki er víst hvern þeirra er verið að heiðra á Valentínusardag.

Þrír Valentínusar

Ein sagan segir að Valentínus hafi verið prestur á þriðju öld í fornu Róm. Claudíus II var sannfærður um að einhleypir menn væru mun betri hermenn en þeir sem áttu eiginkonur og börn. Því hafi keisarinn bannað ungum mönnum að ganga í hjónaband. Prestur að nafni Valentínus ákvað að bjóða keisaranum birginn með því að gifta ung pör í laumi. Loks komst upp um þessa háttsemi en Claudíus gaf honum tækifæri á að bæta ráð sitt. Hann gæti afneitað trú sinni og þá fengið að lifa. Valentínus afþakkaði boðið og varð í kjölfarið viðskila við höfuð sitt.

Önnur saga segir frá heilögum Valentínusi frá Terni. Hann var biskup sem var gerður að píslarvotti er hann var afhöfðaður fyrir að hvetja unga menn til að taka upp kristna trú.

Þriðja sagan segir frá Valentínusi sem var tekinn af lífi fyrir að reyna að hjálpa kristnum mönnum undan ómannúðlegum aðstæðum í fangelsum Rómverja. Þar urðu fangar fyrir hrottalegu ofbeldi. Samkvæmt goðsögninni sendi þessi Valentínus fyrsta Valentínusarbréfið eftir að hann varð ástfanginn af ungri konu, sem mögulega var dóttir fangavarðar, sem heimsótti hann í fangelsið. Hann mun hafa skrifað bréf til ástkonu sinnar og kvittað undir það – Frá þínum Valentínusi.

Það er óljóst hvaða Valentínusi við erum í dag að fagna eða hvað hann vann sér til frægðar.

Svo segir sagan að páfinn Gelasius I hafi á fimmtu öld fengið nóg af Lipercalia-hátíðinni og því ákveðið að leggja hátíðina að jöfnu við dag heilags Valentínusar. Með þessu vonaðist hann til þess að losna við þessa hátíð heiðingja sem einkenndist af nekt og almennt ókristilegri hegðun. Framvegis yrði hátíðin meira við hæfi barna með mun meiri fatnaði.

Heiðnin hvar þó ekki endanlega úr fögnuðinum en liturinn rauður var ekki litur ástarinnar heldur blóðfórnarinnar og svo hvítt fyrir mjólkina sem hreinsaði blóðið burt.

Til að rugla enn meira í þessu öllu saman þá héldu Normannar á svipuðum tíma upp á dag Galatins. Galatin þýddi „elskhugi kvenna“ og þar með fór hátíðin að snúast um elskendur frekar en frjósemi.

Ást við fyrstu sýn –  kapítalisminn og hátíðin

Svo liðu ár og áratugir og Valentínusardagurinn varð sífellt sykursætari. Skáld á borð við Geoffrey Chaucer og William Shakespeare höfðu miklar mætur á þessum degi ástar og dásömuðu í verkum sínum. Þetta leiddi til mikilla vinsælda í Bretlandi og víðar í Evrópu. Það var á miðöldum sem handskrifuð ástarbréf urðu einkenni hátíðarinnar.

Á miðöldum var talið að 14. febrúar markaði upphaf mökunartíma fugla. Það þótti mjög rómantískt fyrir einhverja ástæðu. Það var ljóðskáldið Geoffrey Chaucer sem skrifaði fyrstur um dag heilags Valentínusar sem hátíð ástarinnar. Í ljóðinu Þing fiðurfés frá árinu 1375 skrifaði hann: Því þetta var sent á degi heilags Valentínusar, þegar allt fiðurfé kemur til að velja sér maka.

Með iðnbyltingunni kynntist hátíðin kapítalismanum þegar farið var að prenta sérstök Valentínusarkort. Svo nam hátíðin land í Bandaríkjunum þar sem lítið fyrirtæki að nafni Hallmark sá og greip tæknifærið og fór að fjöldaframleiða Valentínusarkort. Sumir segja að febrúar hafi aldrei liðið þess bætur.

Hátíðin í dag snýst því meira um neyslumenningu en ást og frjósemi, en það skemmir þó ekki endilega fyrir. Enn fagna menn ástinni.

Helen Fisher, félagsfræðingur við Rutgers-háskóla, sagði i samtali við NPR árið 2022 að við getum bara sjálfum okkur um kennt. Fólkið tók Hallmark-kortunum fagnandi. Ef ekki þá hefðu kortin ekki selst og Hallmark hefði farið á hausinn. Aðrir í atvinnulífinu voru fljótir að stökkva á vagninn og nú þykir ekkert óeðlilegt að gefa blóm, súkkulaði eða jafnvel skartgripi til makans á Valentínusardag. Það fer þó minna fyrir frjósemishýðingum, enda kannski lítið á þeim að græða á tímum frjósemislækninga.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Forsölumiðarnir á Smashing Pumpkins seldust hratt upp

Forsölumiðarnir á Smashing Pumpkins seldust hratt upp
Fókus
Í gær

Framkoma Þorsteins sögð „hrokafull og ókurteis“ í samtali við Frosta – Svarar fyrir sig – „Koma beint upp úr incel búbblu Brotkastsins“

Framkoma Þorsteins sögð „hrokafull og ókurteis“ í samtali við Frosta – Svarar fyrir sig – „Koma beint upp úr incel búbblu Brotkastsins“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hjónin Sveinn og Kristjana prófuðu nýtt mataræði og sáu ótrúlegan mun – Þetta gerðist á þremur mánuðum

Hjónin Sveinn og Kristjana prófuðu nýtt mataræði og sáu ótrúlegan mun – Þetta gerðist á þremur mánuðum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýjar myndir af Justin Bieber valda aðdáendum miklum áhyggjum

Nýjar myndir af Justin Bieber valda aðdáendum miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lýtalæknir greinir frá nýju trendi eftir útspil Biöncu

Lýtalæknir greinir frá nýju trendi eftir útspil Biöncu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Frosti Loga: „Ég hágrét í 4 klukkutíma og það var enginn stoppari“

Frosti Loga: „Ég hágrét í 4 klukkutíma og það var enginn stoppari“