Kvikmynd Guðmundar Inga Þorvaldssonar, Allra augu á mér (e. All Eyes On Me), var frumsýnd í Bíó Paradís miðvikudaginn 12. febrúar fyrir fullum sal.
Guðmundur Ingi aðalleikari og framleiðandi myndarinnar, Oliwia Drozdzyk aðalleikona, Þóra Karítas leikkona og Birgir Hilmarsson tónskáld myndarinnar tóku á móti gestum.
Það var rífandi stemning og góður rómur gerður að myndinni. Myndin var skotin á tíu dögum og starfsfólk á setti samanstóð af Pascal Payant leikstjóra og Simon Danielsson hljóðmanni, og leikurunum fjórum. Var það mál fólks að þessi „fátæka“ kvikmyndagerð bitni svo sannarlega ekki á gæðum myndarinnar. Leikurinn er góður og ægifögur íslensk náttúra er fegurst leikmynda.
Hver veit hvort ókunnugt fólk segir satt og rétt frá högum sínum og fortíð? Þegar tveir brotnir einstaklingar fara að spila hvort með annað er uppgjör óumflýanlegt.
Gunnar hefur einangrað sig á bóndabæ sínum frá því að kona hans og ungur sonur fórust í hræðilegu slysi fyrir ári síðan. Mágkona hans mætir óboðin og skammar Gunnar fyrir að hafa ekki mætt í minningarathöfn um mæðginin og afhendir honum bréf frá konu hans heitinni þar sem ýjað er að því að dauði mæðginanna hafi ekki endilega verið slys. Gunnar ákveður að heiðra minningu konu sinnar og sonar með því að ganga heimanað frá sér og á slysstað.
Ewa er ung pólsk kona sem er ekki öll þar sem hún er séð og er komin til Íslands til að fara í fóstureyðingu, gegn vilja föðursins. Þegar hún fréttir að hann sé mættur til Reykjavíkur til að stöðva hana, flýr hún Reykjavík. Örlögin leiða þau Gunnar og Ewu saman.
Myndin er komin í almennar sýningar í Bíó Paradís.