fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fókus

Frosti Loga: „Ég hágrét í 4 klukkutíma og það var enginn stoppari“

Fókus
Þriðjudaginn 11. febrúar 2025 08:21

Frosti Logason Mynd/Baldur Kristjánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frosti Logason segist hafa lagt niður dómhörku og trúleysi á síðustu árum og hanni finni meira og meira þakklæti í lífi sínu.  Frosti, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir magnaða hluti hafa gerst síðan hann hætti á Sýn og í raun hafi það reynst mikil blessun í lífi hans.

„Þegar maður lærir að kunna að skipta um skoðun gerast merkilegir hlutir. Það opnast alls konar nýjar dyr og maður sér hluti í öðru ljósi en áður. Ég man fyrst þegar ég áttaði mig á því að ég væri komin með allt aðra skoðun á einhverju en ég hafði haft nokkrum árum áður. Fram að því hafði ég alltaf verið svo ofboðslega viss í minni sök. Þegar ég var búinn að ákveða eitthvað var það bara þannig og ekkert gat breytt því,” segir Frosti, sem segist sjá það betur og betur hvað hann sé lánsamur maður:

„Ég finn fyrir miklu þakklæti yfir allri gæfunni í mínu lífi. Konunni minni og börnunum og að fá að vera svo lánsamur að fá að starfa við það sem ég hef gaman að því að gera. Ég hef aldrei þurft að líta á vinnuna mína sem einhverja kvöð og eitthvað sem ég vil ekki gera. Þetta eru ótrúleg forréttindi að fá að sýsla við það sem maður hefur gaman að og hafa tekjur af því. Það gefur manni kraft að gera nákvæmlega það sem maður vill vera að gera. Mér líður oft eins og að það vaki yfir mér lukkustjarna og að ég fái mikið af góðum spilum í lífinu og ég er mjög þakklátur. Það er lykilatriði fyrir mig að iðka þakklæti. Annars getur maður mjög auðveldlega fallið í þann gír að fara að finnast allt ósanngjarnt og fara í samanburð við annað fólk. Það er mikill munur á því hvernig líf þitt er eftir því hvert þú setur athyglina.”

Frosti Loga í Harmageddon á Brotkast. Mynd/Instagram @frostiloga

Hugvíkkandi efni hafa breytt lífi hans

Frosti segir hugvíkkandi efni hafa gjörbreytt lífi sínu til hins betra. Hann segist hingað til ekki hafa viljað ræða þetta opinberlega, en nú horfi hann nánast á það sem skyldu sína.

„Ég er mjög nýlega kominn úr svokölluðu ferðalagi hugans með aðstoð hugvíkkandi efna. Þú ert að ná mér á mjög einlægum stað akkúrat núna. Ég upplifði í þessu tilviki allan skalann. Ég tók bæði psilociben og DMT og það heppnaðist frábærlega, enda mjög góður og traustur aðili sem sat yfir mér. Það var bæði grátið og farið í gegnum mikla sorg og ég fékk að sjá hluti úr mínu lífi sem voru mjög erfiðir. En líka mikla fegurð og djúpt þakklæti,“ segir Frosti.

„Ég gerði þetta fyrst árið 2020 og það gjörbreytti lífi mínu. Ég hafði misst pabba minn mjög óvænt þegar ég var rúmlega tvítugur og það var gríðarlegt áfall og eitthvað sem átti ekki að geta gerst í mínum huga. Ég dílaði ekkert við þetta áfall í mörg ár og hvarf í raun inn í mikið myrkur og einmannaleika. Ég sé núna hvað ég var rosalega týndur á þessu tímabili og í raun á mjög svörtum stað. Í þessu ferðalagi árið 2020 varð rosaleg losun og sátt sem ég hafði aldrei náð áður. Ég hágrét í 4 klukkutíma og það var enginn stoppari. Með því að fara raunverulega inn í þetta og mæta því að fullu er eins og að það skapist loksins einhver sátt og losun. Þetta breytti lífi mínu algjörlega og þarna fór ég að efast um trúleysi mitt.”

Dómharkan í kringum þetta

Frosti segist ekki mikið hafa viljað ræða þessi mál hingað til, enda dómharkan talsverð í samfélaginu og umræðan um hugvíkkandi efni föst í ákveðnum skotgröfum.

„Ég hef hingað til ekki verið æstur í að tala um þetta opinberlega. Enda er þetta ákveðið feimnismál fyrir bæði mann sjálfan og í þjóðfélaginu almennt. En mér finnst núna eiginlega orðið skylda manns að tala um þetta. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru einhverjir þarna úti sem munu hneykslast mikið á þessu samtali okkar, en það eru það margir sem fá mjög mikla hjálp í gegnum hugvíkkandi efni að við verðum að fara að slá á þetta tabú. Það er líka mikilvægt að tala um þetta af því að það þarf að gera þetta rétt og undir handleiðslu réttra aðila. Þetta er mjög langt frá fíkniefnum, ég þekki það af eigin raun. Þetta kveikir ekki á fíknivökunum sem raunveruleg vímuefni gera. Þessi efni eru einfaldlega ekki þar og lúta allt öðrum lögmálum. Þú ert ekki að flýja sjálfan þig, heldur að mæta sjálfum þér. Það að horfast raunverulega í augu við sjálfan sig og fara inn í jafnvel myrkustu hliðarnar er ekki eitthvað sem maður verður fíkinn í eða langar að gera aftur næsta dag,” segir Frosti.

Frosti ásamt eiginkonu sinni, Helgu Gabríelu.

Konan bjargvættur

Hann segir að hugvíkkandi efni hafa gjörbreytt lífi hans.

„Mér var líka sýnt enn skýrar hvað konan mín er ótrúlegur bjargvættur í lífi mínu. Hún bjargaði lífi mínu og gaf mér fast land undir fætur. Ég var bara rótlaus og úti um allt áður en ég kynntist henni. Ég get eiginlega ekki lýst þakklætinu til hennar. Þetta var svo sem ekki eitthvað sem ég vissi ekki, en að fá að sjá þetta svona innilega skýrt er eitthvað sem fyllir mig djúpstæðu þakklæti,“ segir hann.

„Þessi ferðalög með hugvíkkandi efni sem ég hef farið í hafa í raun gjörbreytt lífi mínu. Þau hafa til dæmis beinlínis fengið mig til að hætta að vera trúleysingi og dregið úr allri minni dómhörku. Ég átta mig á að einhverjir sem hlusta á mig núna hrista bara hausinn. Ég hefði sjálfur verið mjög dómharður út í mann eins og mig að tala um þessa hluti eins og ég er að gera hérna núna. En það er svo mikil gjöf að losna við dómhörkuna og halda að maður viti allt.”

Hræðsla

Frosti og Sölvi ræða í þættinum um samfélagsumræðuna á Íslandi og hvort enn ríki hræðsla hjá fólki við að segja raunverulegar skoðanir sínar opinberlega.

„Það hefur margt batnað mikið, en á ákveðinn hátt erum við samt enn stödd á þeim stað að í mörgum málum er í gangi einhvers konar hátíð um hina ríkjandi skoðun. Ég finn það vel eftir að ég varð sjálfstæður og fór að tjá mig enn frjálsar að það er stór hópur fólks sem er þakklátur fyrir að það sé fjallað um hluti sem fæstir þora að fjalla um,“ segir hann.

„Fólk myndi ekki trúa því hve margir senda mér skilaboð til að þakka mér, en segist aldrei myndu segja það opinberlega. Fólk sem segist vilja gera hluti fyrir mig og aðstoða mig til að þakka mér fyrir, en segir á sama tíma að það geti ekki hrósað mér opinberlega. Sem segir manni hvað það er enn mikil undirliggjandi hræðsla í gangi á Íslandi. Samfélagið er enn svolítið brennt af því að umræðan er á köflum einsleit og inni í boxi.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Frosta og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Selma lagðist í sjálfsvinnu fyrir son sinn – „Var búin að takast á við áföllin og taka þau í sátt“

Selma lagðist í sjálfsvinnu fyrir son sinn – „Var búin að takast á við áföllin og taka þau í sátt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye West segist glíma við einhverfu – Bianca opnaði augu hans

Kanye West segist glíma við einhverfu – Bianca opnaði augu hans
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vilhjálmi fannst óþægilegt að Meghan var alltaf að faðma hann

Vilhjálmi fannst óþægilegt að Meghan var alltaf að faðma hann
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vala um systurmissinn – „Það var ótrúlegt að alast upp með henni og mín mesta gæfa“

Vala um systurmissinn – „Það var ótrúlegt að alast upp með henni og mín mesta gæfa“