fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fókus

Dulin skilaboð og pólitísk ádeila í hálfleiksatriði Kendrick Lamar á Ofurskálinni

Fókus
Þriðjudaginn 11. febrúar 2025 15:30

Mynd/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ofurskálin fór fram á sunnudaginn þar sem Eagles höfðu betur gegn The Chiefs í amerískum fótbolta. Þetta er stærsti íþróttaviðburðurinn í Bandaríkjunum og um 126 milljónir áhorfenda fylgjast með heima í stofu. Hefð er fyrir því að fá stórstjörnur til að koma fram í hálfleik og að þessu sinni var það rapparinn Kendrick Lamar sem fékk þann heiður. Kendrick Lamar er einn vinsælasti rappari Bandaríkjanna. Hann er margverðlaunaður fyrir tónlist sína og er eini rapparinn sem hefur unnið til hinna virtu Pulitzer-verðlauna. Kendrick er þekktur fyrir að senda dulin skilaboð með tónlist sinni og framkomu og Ofurskálin var engin undantekning. Atriði hans þar var þaulskipulagt og nánast hver sekúnda full af dulinni merkingu sem fór algjörlega yfir höfðið á mörgum áhorfendum.

Fyrir þá Bandaríkjamenn sem þekktu ekkert til Kendrick virtist atriðið fyrst of fremst vera fallega skreytt vísunum til bandaríska fánans. Fyrir þá sem þekkja aðeins til virtist atriðið vera eitt stórt diss á erkióvin rapparans, tónlistarmanninn Drake. Aðdáendur Kendrick hafa þó bent á að atriðið var hápólitískt og vísaði til stjórnmála, kynþáttahaturs, sundrungar og svo til nýkjörins forseta, Donald Trump.

Hér verður vikið að því helsta en listinn hér er engan veginn tæmandi. En atriðið má sjá í fullri lengd hér.

Leikurinn

Listrænn stjórnandi sýningarinnar, Shelley Rodgers, tekur undir að það séu skilaboð í atriðinu. Kendrick lofaði því á blaðamannafundi í byrjun febrúar að atriði hans myndi segja sögu. Hann væri að nota vísun í leikjafjarstýringu Playstation-leikjatölvunnar: X, hringur, kassi og þríhyrningur. Rodgers segir að líklega hafi rapparinn þarna verið að höfða til yngri kynslóða en á sama tíma notað vísun í tölvuleik til að sýna ferðalag Kendrick í gegnum ameríska drauminn, eða ameríska leikinn. Allir eru að spila leik lífsins og reyna að lifa af.

Hálsmenið.

Kendrick var með hálsmen úr gulli og sýndi lítið A, eða a-minor. Það gæti staðið fyrir arfleifð, falsleysi eða metnað. Líklega er þetta þó vísun í vinsæla lagið Not Like Us þar sem hann skýtur föstum skotum á rapparann Drake og notar vísun í hljóminn a-minor til að gefa til kynna að Drake sé barnaníðingur (minor á ensku getur líka þýtt ólögráða barn). Í gegnum atriðið koma dansarar og skora á Kendrick að syngja disslagið en hann bendir á að honum gæti verið stefnt fyrir það, en Drake er einmitt búinn að kæra hann fyrir meiðyrði. Það var vitað fyrir fram að Kendrick var ráðlagt að taka ekki þetta lag enda eigi Ofurskálin ekki að vera umdeild. Hann gerði það þó í lokin og rétt áður horfði hann beint í myndavélina og ávarpaði Drake.

Tennisstjarnan Serena Williams mætti óvænt á sviðið þar sem hún dansar í tennisbúning, nokkuð sem hún var skömmuð fyrir að gera eftir að hún vann eitt mót sitt sem mörgum þótti vanvirðing við menningu svartra. Við það má bæta að hún er fyrrverandi kærasta Drake.

Sam frændi

Leikarinn Samuel L. Jackson var í atriðinu klæddur Sam frændi, eða Uncle Sam, sem er persóna sem varð fræg í tengslum við stríðsáróður Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni. Þar átti Sam að standa fyrir góðan og gegnan Bandaríkjamann, föðurlandsvin, og eins konar holdgerving bandarískra stjórnvalda. Það þykir eitt og sér táknrænt að Kendrick hafi fengið Jackson í þetta hlutverk, enda Bandaríkin byggð á þrælavinnu svartra. Eins er Jackson goðsögn í samfélagi svartra og gjarnan þekktur fyrir að leika harðjaxla eða illmennti. Sam segir Kendrick í gegnum lagið að læra að spila ameríska leikinn og fylgja reglum hvíta mannsins, hann ýmist skammar rapparann eða lofar eftir því hvort hann fari eftir reglunum eða ekki. „Nei nei nei, of hávær, of kærulaus, of ghettó. Herra Lamar, veistu yfir höfuð hvernig á að spila leikinn? Hertu þig!“

Þarna er vísað til þess hvernig bandarísk yfirvöld hafa reynt að stjórna fólki og steypa alla í sama mótið. Svartir þurfi að haga sér eins og hvítir ef þeir vilja lifa af.

Eins gæti Kendrick þar vísað til persónunnar Tom frænda úr bók Harriet Beecher Stowe. Tom var svartur þræll sem var barinn til dauða fyrir að upplýsa ekki um staðsetningu annarra þræla. Persónan var ádeila á afmennskjuvæðingu svartra á 19. öld. Hann er undirgefinn þrælahöldurum sínum en lætur viljandi hýða sig til dauða en að brjóta þagnareið sinn. Út af undirgefninni varð persónan síðar höfð af háði og spotti og varð eins konar tákn fyrir þá þræla sem kysstu vöndinn og sættu sig við hlutskipti sitt.

Textinn

Kendrick rappar á einum stað: Byltingunni verður brátt sjónvarpað. Þið völduð réttan tímann en ranga manninn. Þetta hefur hann ekki rappað áður með þessum hætti og því um viljaverk að ræða og líklega ádeilu á Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann sé ekki rétti maðurinn til að gegna embætti forseta. Eins vísar þetta í ljós eftir Gil Scott-Hernon frá árinu 1971 sem hét einmitt: Byltingunni verður ekki sjónvarpað. Ljóðið fjallar um það hvernig fólk ber ábyrgð á þeim breytingum sem það vill ná fram í heiminum því fjölmiðlar muni ávallt virða rasisma að vettugi. Kendrick breytir línunni þó og segir skýrt að byltingin sé hafin og lýsir því yfir í beinni útsendingu á einum stærsta sjónvarpsviðburði Bandaríkjanna.

Dansararnir

Dansararnir í atriðinu voru klæddir í kósígalla í hvítum, rauðum og bláum litum. Þetta er vísun í bandaríska fánann en á sama tíma vísun í ólíka kynþætti Bandaríkjanna. Þegar dansararnir koma allir saman og mynda fánann þá eru þeir klofnir fyrir miðju og þar stendur Kendrick. Þetta er vísun í hvernig bandarískt samfélag er klofið, klofið eftir kynþætti og klofið eftir pólitískum línum.

Kósígallarnir gætu líka verið ádeila á kapítalismann, en gallarnir þykja minna á þá sem eru notaðir í vinsælu þáttunum Squid Game sem fjalla einmitt um kapítalisma. Þar eru allir að keppa um einn stóran verðlaunapott. Eftir því sem fleiri keppendur deyja eiga þeir sem eftir standa von á hærri vinning. Þetta sést líka í atriðinu þegar dansararnir falla flestir til jarðar, en fáeinir eru áfram uppi standandi. Þetta gæti verið vísun til þess hvernig auður hefur safnast í hendur fárra milljarðamæringa í Bandaríkjunum, en þeir sem eftir standa mynda hring – innsta hringinn – og eru allir klæddir í hvítt.

Þegar dansararnir birtast koma þeir allir út úr einum bíl. Netverjar telja að annars vegar geti þetta verið skot á ríkisstjórn Donald Trump og vísun í frasann að ef þú kýst trúð sem kóng þá mun hann ekki ríkja sem kóngur heldur breyta ríkinu í sirkús. Líklegra þykir þó að þarna sé hann að sýna að allir menn, sama af hvaða kynþætti, séu komnir af sömu rótunum. Við erum öll eins, bara ólík á litinn. Svo eru dansararnir í mismunandi litum, hvítur, rauður og blár. Margir gætu haldið að hér væri rapparinn aðeins að notfæra sér bandarísku fánalitina en Kendrick er þekktur fyrir að ljá hlutunum dýpri merkingu. Þarna er hann því líklegast einnig að vísa til ólíkra kynþátta Bandaríkjanna. Dansararnir skipta sér svo upp eftir litum sínum til að sýna hvernig bandaríska samfélagið flokkar fólk eftir húðlit. Eins má sjá dansarana á einum stað skipta í tvennt þar sem sumir ganga áfram en aðrir ganga aftur á bak. Þetta getur verið vísun í það hvernig hópum er lyft um í samfélaginu á meðan haldið er aftur að öðrum.

Hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða heldur greiningu sem byggir á fréttum erlendra fjölmiðla og greiningu netverja á samfélagsmiðlum. Hér gefst ekki pláss til að kafa enn dýpra en líklegt þykir að merkingar Kendrick séu með fleiri lög en laukur. Þarna sé hann að skjóta á Drake, koma með ádeilur á pólitíkina og stöðu svartra en fyrst og fremst er talið að hann sé að kalla eftir því að fólk láti þetta ekki yfir sig ganga. Þó samfélagið sé sundrað og þó þar búi saman margir kynþættir þá leysi það engan vanda að deila innbyrðis þegar það er Sam frændi eða þrælahaldarinn sem er vandamálið.

 

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Treður upp í Hörpu og í kjölfarið á West End

Treður upp í Hörpu og í kjölfarið á West End
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gælunafn Markle meðal þjónustufólks konungsfjölskyldunnar

Gælunafn Markle meðal þjónustufólks konungsfjölskyldunnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye West segist glíma við einhverfu – Bianca opnaði augu hans

Kanye West segist glíma við einhverfu – Bianca opnaði augu hans
Fókus
Fyrir 4 dögum

Einstök tónlistarveisla haldin til minningar um April Stjörnu

Einstök tónlistarveisla haldin til minningar um April Stjörnu