fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
Fókus

Hefur mennsk losun gróðurhúsalofttegunda lítil sem engin áhrif á hitastig jarðar?

Fókus
Sunnudaginn 9. febrúar 2025 19:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eru loftlagsbreytingar af mannavöldum samsæri? Hér er um að ræða umdeilda samsæriskenningu sem virðist þó vera að sækja í sig veðrið. Sérstaklega í ljósi þess að í Bandaríkjunum stendur nú til að láta af öllum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda því Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að „bora elskan, bora“ eftir olíu.

Hver græðir á afneitun?

Loftlagsbreytingar hafa verið áberandi í umræðunni undanfarna áratugi. Yfirgnæfandi meirihluti vísindasamfélagsins hefur lengi varað við því hvaða afleiðingar það geti haft fyrir heiminn að grípa ekki inn í stöðuna. Til dæmis segir á vefsíðu NASA að þó loftslag á jörðinni hafi tekið breytingum í gegnum tíðina þá sé sú hnattræna hlýnun sem nú er að eiga sér stað óeðlileg og ekki um annað að ræða en hún sé af mannavöldum. Þessi þróun hófst samhliða iðnbyltingunni en hefur sérstaklega versnað síðustu 40 árin. Sjórinn er að hitna, hitamet hafa fallið, sjávarmál hækkað, jöklar að hopa, ísbreiður bráðna, öfgafullir veðurviðburðir eru að verða algengari, sýrustig sjávar er að aukast og áfram mætti telja.

Þrátt fyrir ákall vísindasamfélagsins og ítrekaðar skýrslur, rannsóknir og annað þar sem því er slegið á föstu að loftlagsbreytingar séu raunverulegar eru margir sem afneita loftlagsbreytingum og þessi hópur er að stækka, einkum í kjölfar COVID-19 og með auknum vinsældum popúlískra öfgahægri hreyfinga. Svo er kannski bara mannlegt að halda í þá trú, jafnvel von, að mannkynið sé ekki í stórhættu sem það ber sjálft ábyrgð á.

Jeremiah Boh, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Wisconsin Oshkosh hefur rannsakað afneitun loftlagsbreytinga árum saman. Hann bendir á að þeir sem hagnast af því að neita tilvist loftlagsbreytinga séu einkum jarðefnaeldsneytis- og annar mengandi iðnaður.

Afneitunarsinnar séu lítið í því að ráðast í sínar eigin rannsóknir til að afsanna tilvist loftlagsbreytinga heldur meira í pólitíkinni. Vísindamenn eru kallaðir spilltir, sakaðir um að vera vinstri aktívistar, að vera á móti framförum, að vera á móti fyrirtækjum eða bara lygarar. Boh bendir á að framleiðendur sígarettna hafi beitt svipaðri taktík á sínum tíma þegar læknar voru fengnir til að lýsa því yfir í sjónvarpi að sígarettur væru hollar og hefðu ýmis jákvæð áhrif á heilsuna.

Smithsonian rekur að 91 hagsmunasamtök viðskiptalífsins leggi út milljarða á ári til að gera lítið úr loftlagsbreytingum.

Þessum formála er ætlað að impra á því að það er viðurkennt sem staðreynd í vísindasamfélaginu sem og hjá flestum þjóðum heims að loftlagsbreytingar af mannavöldum eru raunverulegar, þær eru alvarleg ógn fyrir mannkynið og það er nauðsynlegt að berjast á móti þeim. En….

…hvað ef maðurinn getur ekki haft áhrif á hita jarðar?

Eins og með svo margt annað eru ekki allir sannfærðir. Sumir deila um þær aðgerðir sem hefur verið ráðist í þar sem það er lagt á herðar almennings að breyta lífi sínu en atvinnulífið, sem ber mesta ábyrgð á mengun, fær að mestu að halda uppteknum hætti. Aðrir velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki bara loftlagsstormur í vísindavatnsglasi. Það er því ekki úr vegi að félagarnir í samsærishlaðvarpinu Álhattinum taki til skoðunar hvað afneitunarsinnar hafa til málanna að leggja. Hvers vegna trúa þeir ekki á loftlagsbreytingar? Nýjasti þáttur Álhattsins spyr hvort það sé mögulegt að maðurinn sé í raun ekki að valda hlýnun jarðar.

Í lýsingu þáttar segir:

„Það eru líklega fá málefni sem hafa verið jafn áberandi í umræðunni undanfarin ár og hlýnun jarðar. Já, eða öllu heldur loftslagsbreytingar eða hamfarahlýnun eða hvað sem að fólk vill kalla þetta fyrirbrigði. Loftslagsmótmæli barna og ungmenna hafa farið fram um allan heim með hina sænsku Gretu Turnberg í broddi fylkingar. Almenningur hefur verið varaður við óafturkræfum og stórfenglegum breytingum á veðurfari jarðar sem séu ekki bara yfirvofandi heldur þegar hafnar og nauðsynlegt sé að stöðva. Ef marka má umræðuna.

Þetta ku vera stórt og grafalvarlegt vandamál og við berum öll sameiginlega ábyrgð. Öll verðum við að standa saman sem ein heild og leggja okkar vatn á vogarskálarnar til þess að stöðva þessa stórhættulegu hamfarahlýnun sem við, mannfólkið, berum ábyrgð á og enginn annar. Amk ef marka má meginstraumsmiðlana, Al Gore og almenna umræðu.

En til er fólk sem efast um þessar breytingar og þá aðallega þátt mannsins í þeim breytingum. Eru þessar veðurfars- og loftslagsbreytingar kannski bara ósköp eðlilegar og hluti af náttúrulegu ferli jarðarinnar sem hefur átt sér stað mörgum sinnum áður og mannskepnan hefur lítil sem engin áhrif á, sama hvað við reynum? Hefur jörðin ekki gengið í gegnum fjölmörg hita- og kuldatímabil áður og ætíð komið aftur til baka ósködduð? Hverjar eru þessar svokölluðu gróðurhúsalofttegundir og í hverju felast hin meintu gróðurhúsaáhrif?

Líklega efast fáir um tilvist þessara efna eða möguleg áhrif þeirra á loftslagið en til er fólk sem hefur sett spurningamerki við raunverulegan þátt mannsins í losun þessara tegunda. Getur verið að hið meinta upplýsta og hámenntaða fræðasamfélag sé annaðhvort að ljúga að okkur eða hafi hreinlega rangt fyrir sér? Hvernig getur koltvíoxíð haft svona veruleg áhrif á hitastig jarðar eða loftslagið ef það er einungis 0,04% af gufuhvolfi jarðar? Og hvernig getur mannfólkið hægt á þessum breytingum ef mannfreskjan ber í raun bara ábyrgð á örsmægðarhlut þessara 0,04%? Hverju breytir það þó við hættum allri losun koltvíoxíðs ef við mannfólkið losum bara 15% alls þess koltvíoxíðs sem er í andrúmsloftinu?

Erum við í alvöru svo mikilvæg, merkileg og áhrifamikil að við getum breytt loftslaginu og haft áhrif á veðrið? Og af hverju liggur ábyrgðin alltaf hjá okkur almenningi þegar hin raunverulega losun og mengun er að mestu á ábyrgð stórfyrirtækja? Hafa vísindin og fræðasamfélagið blekkt okkur til þess að gera okkur að hlýðnum og undirgefnum þrælum? Er þetta kannski eitt stórt penningaplokk gróðugra jakkafatakakkalakka og gróðapunga? Af hverju liggur ábyrgðin hjá okkur að endurvinna plastflöskuna frekar en hjá stórfyrirtækinu sem framleiddi þessa plastflösku? Væri ekki nær að ráðast á rót vandans og stöðva framleiðsluna?

Þetta og svo fjölmargt annað áhugavert og spennandi er í þessum nýjasta þætti af Álhattinum, sem er fyrri hluti af tveimur, þar sem þeir félagar Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór ræða þá afar áhugaverðu en jafnframt fremur umdeildu samsæriskenningu að mennsk losun gróðurhúsalofttegunda hafi lítil sem engin áhrif á hitastig jarðar.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Vilhjálmi fannst óþægilegt að Meghan var alltaf að faðma hann

Vilhjálmi fannst óþægilegt að Meghan var alltaf að faðma hann
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vala um systurmissinn – „Það var ótrúlegt að alast upp með henni og mín mesta gæfa“

Vala um systurmissinn – „Það var ótrúlegt að alast upp með henni og mín mesta gæfa“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég elska líka þegar hún tosar mig niður á jörðina og lætur mig heyra það þegar ég er kominn eitthvað út í rassgat“

„Ég elska líka þegar hún tosar mig niður á jörðina og lætur mig heyra það þegar ég er kominn eitthvað út í rassgat“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kærasta Liam Payne brotnar niður og útskýrir af hverju hún fór heim nokkrum dögum áður en hann lést

Kærasta Liam Payne brotnar niður og útskýrir af hverju hún fór heim nokkrum dögum áður en hann lést