„Strax á fyrsta ári á fyrstu önninni fer ég að finna hvað ég er komin í mikið ójafnvægi og hvernig taugakerfið mitt er upp og niður. Ég rekst á rosalega þungan vegg og enda í tíu mánaða meðferð hjá Píetasamtökunum. Þar sá ég í fyrsta skipti að ég átti í raun stærstu vinnuna eftir sem var að takast á við sjálfa mig. Ég var búin að takast á við áföllin og taka þau í sátt og eiga sáttasamtal við sjálfa mig um allt sem kom fyrir mig en ég var aldrei búin að hlúa að sjálfri mér,“
segir Selma Rán Lima leikkona í Þjóðleikhúsinu í viðtali við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.
Selma segist hafa lent í ýmsu og þau sem þekki hennar áfallasögu oft furðað sig á því hvað hún er heilsteypt manneskja í dag. Selma segist hafa tekið sjálfsvinnuna föstum tökum fyrst og fremst fyrir son sinn, sem var tveggja ára þegar hún byrjaði í náminu.
„Það var útgangspunkturinn: Ég er ekki búin að eyðileggja son minn og ég er til í að fá hjálp til að sleppa því. Núna eftir þessi þrjú ár í náminu og gígantíska sjálfsvinnu er ég bara: „Vá hvað það er næs að líða vel. Vá hvað það er næs þegar það er næs.“
Foreldrar hennar skildu þegar hún var tveggja ára og segist Selma hafa átt lítil samskipti við föður sinn sem flutti til Bandaríkjanna. „Það er gífurlegt álag að barn missi foreldri út af heimilinu, sérstaklega án þess að fá nokkra útskýringu á því. Þetta var bara þannig að eina nóttina var hann bara farinn,“ segir Selma Rán. Hún hefur þurft að mæta þessum flóknu tilfinningum í hlutverki sínu sem dóttirin í nýju verki Hrafnhildar Hagalín, sem heitir Heim og er frumsýnt í Þjóðleikhúsinu um helgina.
Selma var aðeins 16 ára þegar hún flutti að heiman og hóf sambúð með manni sem var 28 ára.
„Í dag horfi ég til baka og er í dag jafn gömul og kærastinn minn þá var þegar við byrjuðum að búa saman og mér dytti þetta ekki til hugar. Þetta var algjört glapræði. Í mómentinu fannst mér ganga rosalega vel en ég vissi ekki neitt. Þegar þú ert barn og ferð inn í aðstæður sem eru ekki fyrir barn er auðvelt að segja: Svona er þetta, svona gerir fullorðið fólk. Ég sem fullorðin kona í dag sé miklu meira en 16 ára Selma gerði. Þetta var náttúrulega líka bara merki um hvað ég var að kljást við innra með mér. Ég var á stöðugum flótta á þessum aldri.“
Selma er á góðum stað í dag:
„Ég er í fyrsta skipti núna búin að fá að sannreyna það og reyna á þessa sjálfsvinnu. Ég er orðin lyfjalaus og hugsa fyrst og fremst um mig og hlúi að mér líkamlega, tilfinningalega og andlega og sit svo vel í sjálfri mér. Það er búið að taka mig alla ævi að geta það.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.